08.09.1944
Efri deild: 40. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (2592)

91. mál, lögreglumenn

Gunnar Thoroddsen:

Snemma á þ. í haust flutti ég þetta frv. um að taka vitann á Súgandisey við Stykkishólm inn í vital. Þetta frv. var flutt eftir eindreginni ósk hreppsnefndar Stykkishólmshrepps, og eins og kemur fram í nál. og umsögn vitamálastjóra, er tvennt, sem þar um ræðir. Annað er viti á Súgandisey, en um það virðast allir vera sammála, og kemur skýrt fram í umsögn vitamálastjóra, að hann er því fylgjandi. Á hitt hefur hann ekki getað fallizt, að ríkið tæki upp byggingar- og rekstrarkostnað við þennan vita.

Ég fyrir mitt leyti þori ekkert um það að dæma, að hve miklu leyti sé hægt að líta á þennan vita sem innsiglingarvita fyrir Stykkishólm eingöngu, en vitanlega er rétt að fara fyrst og fremst í þessum efnum eftir áliti þess embættismanns, sem hefur með þessi mál að gera, sem sé vitamálastjóra. Ég sé því ekki á þessu stigi, að rétt sé að leggja áherzlu á að halda fast fram þessu máli, en vænti þess, að þótt vitamálastjóri hafi ekki getað fallizt á, að ríkið tæki að sér kostnaðinn við þennan vita, muni þessi viti geta komizt upp á næstunni, og það er vitanlega aðalatriðið.