13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (2606)

216. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Flm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Fyrir 10 árum var mikið um það rætt, að skipuleggja þyrfti framleiðslu landbúnaðarins. Ég minnist þess, að þá heyrði ég greindan bónda segja, að þetta mundi ekki nægja, það yrði að skipuleggja afurðasöluna. Þetta hefur orðið orð að sönnu, og þetta var að vísu gert, en dugði eigi. Þetta frv. er lítils háttar breyting á skipulagningu mjólkursölunnar. Landinu var skipt í verðjöfnunarsvæði, og síðan var lagt verðjöfnunargjald á mjólkina til þess að verðbæta þá mjólk, sem varð að vinna úr ost og smjör o. fl. Þetta olli óánægju þeirra, sem urðu að greiða verðjöfnunargjaldið, og vakti andúð á milli þeirra og hinna, er nutu þess. Þeim, sem bjuggu utan verðjöfnunarsvæðisins, var bannað að flytja mjólk inn á svæðið, en jafnframt átti sölumiðstöðin að sjá um, að næg mjólk væri ávallt til og ekki kæmi heldur of mikil mjólk á markaðinn. En nú hefur svo farið, að á helztu markaðsstöðum landsins hefur orðið skortur á mjólk, en þó öðrum meinað að flytja þangað mjólk. Svo er því farið með Reykjavík. Nú mega bændur utan verðjöfnunarsvæðisins að vísu selja smjör, en þá yrðu þeir einnig að geta gert sér verð úr undanrennunni, því að öðrum kosti verður smjörið allt of dýrt. Síðan hafa komið fram háværar kröfur um að breyta þessu, stækka verðjöfnunarsvæðin. Það er ekki hægt að neita því, að það er sanngjörn krafa, að þeir, sem eru utan jöfnunarsvæðis, mega flytja vörur inn á svæðið. Auk þess hygg ég, að þetta sé ekki hin rétta leið, því að eftir þessari reglu mætti verðjafna alla hluti landbúnaðarins, t. d. kartöflur, þótt til þess kæmi auðvitað ekki, t. d. að Hornfirðingar færu að koma með þær hingað. Það þarf að leyfa mönnum utan verðjöfnunarsvæðisins að flytja vöru inn á þessi svæði, ef þeir treysta sér til að framleiða þær, án þess að njóta þeirrar verðjöfnunar, sem héruðin hér njóta.

Ég vona svo, að frv. fái góðar undirtektir, og óska, að því verði vísað til 2. umr. og landbn.