29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (2614)

216. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Að sjálfsögðu var ekki nein ástæða fyrir mig að standa hér upp, þar sem hv. þm. V.-Sk. hefur greinilega borið blak af mþn. í mjólkurmálum, sem er veitzt að hér við meðferð þessa máls og sérstaklega í síðari ræðu hv. þm. A.-Húnv., frsm. landbn., þar sem hann leyfði sér að hafa þau orð um bréfið frá mþn. þessari, að það væri eitt hið fáránlegasta plagg, sem hann hefði séð. — Hvort hv. þm. A.-Húnv. er einn um það að kalla þetta bréf hið fáránlegasta plagg, skal ég láta ósagt. En ég hygg, að hann verði nokkuð fáliðaður um þá skoðun, a. m. k. ef menn lesa frv. eins og það er, en ekki eins og viss persóna Biblíuna, að hlaupa fram hjá kjarna frv. Því að ég hjó eftir því, að í seinni ræðu sinni sagði hv. þm. A.-Húnv. það fullum fetum, að n. hefði ekki tekið neina afstöðu til meginkjarna málsins. En mþn. miðaði álit sitt við það, sem kemur fram í frv., þar sem segir, að hin viðurkennda sölumiðstöð skuli annast sölu þeirra og dreifingu (þ. e. rjóma, skyrs og annarra mjólkurvinnsluvara), og að sölu- og dreifingarkostnaður þessara vara megi eigi vera hærri en sams konar vara, er framleiddar eru á verðjöfnunarsvæðinu. Hv. frsm. landbn. segir, að n. taki enga afstöðu til þessa. Þess vegna verð ég að geta þess, að hv. landbn. þessarar d. bað mþn. í mjólkursölumálum að senda umsögn um þetta frv. Og þegar svo var, gátum við ekki, sem í n. vorum, hlaupið fram hjá þessu meginatriði frv. Og hv. form. landbn., þm. Mýr., hefur nú lesið þetta bréf — og gerði ekkert grín að því og þótti það ekkert fáránlegt —, til þess að allir gætu heyrt, hver afstaða n. er í þessu máli. Ef mþn. hefði verið falið að rífa niður skipulagið, sem er nú á mjólkursölumálunum í landinu, þá hefði verið öðru máli að gegna. En svo hefur nú ekki verið, heldur hefur okkur í n. verið falið að rannsaka mál, sem er í sex liðum, samkv. ályktun Alþ. Mþn. hefur nú þessa sex liði til rannsóknar og er ekki búin að ljúka því starfi. Og ég geri ráð fyrir, að niðurstaðan af þeirri rannsókn verði sú, að mjólkursöluskipulagið eigi að haldast, en ekki, að það eigi að rífa það niður. En ef kippa ætti grundvellinum undan því skipulagi á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., þá held ég, að ekki yrði mikið eftir af því.

Ég mótmæli því algerlega, að mþn. í mjólkursölumálum hafi látið frá sér nokkur fáránleg plögg. Hún svarar beint í þessu bréfi því, sem hún var spurð um, ekki eftir eigin hyggju, heldur eftir rannsókn málsins. Og í þessari n. eru menn af öllum flokkum þingsins. Og í n. voru um þetta „fáránlega plagg“, eins og hv. þm. A.-Húnv. þóknaðist að nefna það, allir sammála, voru allir með í samningu þess og greiddu atkv. um það. Svo að það er eftir athugun málsins, að þessi niðurstaða varð.