29.01.1945
Neðri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2615)

216. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. A.-Húnv. fyrir það að eigna mér anda þessa „fáránlega plaggs“, sem hann kallaði svo. Og ég get skilið, að frá hans sjónarmiði sé það fáránlegt, að menn reyni að gera sér grein fyrir hlutunum eins og þeir eru, eins og hv. þm. Ak. segir, að mþn. hafi gert, en séu ekki með bægslagang út í loftið, án þess að hugsa um það, hvað þeir eru að tala. Þeir menn, sem þannig tala um mál, eins og hv. þm. A.-Húnv. er mjög gjarnt á að gera í ræðu og riti, komast vitanlega út í ógöngur, eins og síðustu ritgerðir hv. þm. A.-Húnv. hafa borið vitni, þar sem gengið er lengra en hinir innantómustu áður hafa gengið í þessum efnum, — og ræða hans hér er ekki ósvipuð því. Mér þykir því ekki undarlegt, þótt honum finnist fáránlegt, að menn reyna að rannsaka hlutina og segja svo álit sitt um þá á eftir, hvort sem það kemur þeim í hag eða óhag. Slíkt er fáránlegt í hugum þeirra, sem skrifa eins og Jón Pálmason, hv. þm. A.-Húnv. En ef ég hefði ekki þekkt þennan hv. þm. svo vel um það, hve hann telur sig fullfæran í öllum hlutum til að dæma um málin, án þess að kryfja hlutina til mergjar, þá hefði mér þótt nokkuð einkennileg framkoma hans í þessu máli og undrazt þær fullyrðingar, sem hann tekur upp aftur og aftur, þó að búið sé að lýsa því rækilega, hvernig í hlutunum liggur. En mér kemur ekkert slíkt ókunnuglega fyrir frá hv. þm. A.-Húnv. Þegar ég hef lýst því, hvernig mjólkursölul. eru upp byggð, þá segir hann, að það sé rétt. En jafnframt segir hann, að einhverjum mönnum sé gefinn einkaréttur í þessum málum. Ég skora á þennan hv. þm. að nefna þá menn eða héruð á landinu, sem gefinn sé einkaréttur til þess að selja mjólk. Ég veit ekki betur en l. séu svo byggð, að öllum sé heimilt að selja mjólk og mjólkurafurðir á sölustöðum, bæði í Reykjavík, Akureyri og á Sauðárkróki, sem uppfylla viss skilyrði, hvort sem það er hv. þm. A.-Húnv., ég eða aðrir, hvar sem er á landinu, ef við uppfyllum þau skilyrði, sem sett eru í l. fyrir því að hafa framleiðsluna með höndum og seljum eftir settum reglum. Það eru engir einstaklingar, sem hafa einkarétt á þessu. Og það eru ekki nema yfirborðsfleiprarar, sem geta borið slíkt fram, að nokkrir menn hafi einkarétt í þessum hlutum. Og af því að allir, sem uppfylla viss skilyrði, mega selja mjólk og mjólkurvörur á markaðsstöðum, þá eru það ekki aðeins þeir sömu, sem selt hafa þessar vörur allan tímann síðan mjólkurl. komu í gildi, heldur eru það helmingi fleiri framleiðendur, sem nú selja mjólk á Reykjavíkurmarkaðnum en þegar mjólkurl. voru sett. Og hvernig hefði þetta átt sér stað, ef það hefði verið einkaréttur, sem mönnum með þeim l. hefði verið veittur til sölu á þessum vörum?

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að sú fáránlega hugmynd kæmi fram í þessu fáránlega bréfi frá mþn., að ekki mætti taka mjólkurvörur til sölu á verðlagssvæði frá stöðum utan verðlagssvæða, sem ekki uppfylltu skilyrði þau, sem sett eru um þessar neyzluvörur. En ég fyrir mitt leyti veit ekki, hvernig menn hugsa sér vöruvöndun í þessu landi, ef á að setja rétthærri þær neyzluvörur í landinu, sem framleiddar eru og búnar til sölu, án þess að uppfyllt séu sett skilyrði um vöruvöndun, heldur en þær neyzluvörur, sem uppfylla þessi skilyrði. Hve lengi halda menn, að vöruvöndunin yrði með því móti í framleiðslu og sölu mjólkur og mjólkurafurða, og hve lengi halda menn, að mjólkuriðnaðurinn mundi standast með því móti? (STh: Hvar er vöruvöndunin?). Hér eru komin mjólkurbú, sem annast vöruvöndun eftir beztu getu vegna aðstæðna. En vitanlega geta neytendur líka fengið slæma vöru, ef þeir fara sóðalega með hana. Og þegar kvartað er um, að menn fái slæma mjólk, þá er það mjög oft, að það er sóðaskap neytendanna að kenna. Ég viðurkenni, að vörurnar eru ekki alltaf eins og þær ættu að vera. En vöruvöndun er miklu meiri um þessar vörur heldur en var fyrir nokkrum árum og vandaðri vinna á sölu þessara vara. Enda sýnist mér, að hv. 11. landsk. þrífist sæmilega og það séu ekki nein tæringarmerki á honum. Hann virðist hafa fengið mjólk og mjólkurvörur, sem komið hafi honum að gagni, — sem hann hafi melt. — Svo að það er ekki að sjá, að hann hafi látið ofan í sig neina óhollustu.

Þá sagði hv. þm. A.-Húnv., — og það er ein af þessum fullyrðingum, sem hann setur fram án þess að reyna að vita, hvað rétt er í hlutunum —, að reynslan hefði sýnt, að alltaf sé skortur á þessum vörum, a. m. k. nothæfum. Þetta er algerlega ósatt. Reynslan hefur sýnt, að það er aðeins skortur á rjóma og skyri og svo mjólk yfir haustmánuðina um stundum fram yfir nýár. En mjög mikil offramleiðsla hefur svo verið á mjólk seinni hluta vetrar og allt sumarið, eins og líka liggur í hlutarins eðli, þar sem framleiddir eru rúml. 17 millj. lítrar af mjólk, en ekki selt sem neyzlumjólk meira en 10 millj. lítrar. Enda verður að senda mikið af þessum vörum heim til framleiðenda, vegna þess að ekki er hægt að selja þær. — Ég veit, að hv. þm. A.-Húnv. segir samt sem áður, að það sé skortur á þessum vörum. — Hitt er allt annað mál, að það er skortur mikinn hluta af árinu á smjöri. Það kemur ekkert verðjöfnunarsvæðum við, því að allt smjör er jafnrétthátt, hvar á landinu sem það er framleitt, en ef verðjöfnunarsvæðin yrðu stærri, mætti búast við, að smjörframleiðslan yrði minni. Hv. þm. A.-Húnv. segir, að næsta krafa verði, að öllum verði leyft að flytja mjókurafurðir inn á verðjöfnunarsvæðin og selja þær eftir vild. Á þá að viðhalda verðjöfnunarsvæðunum til þess eins, að þeir, sem þar búa, hafi lökust kjör og hinir sitji að markaðnum hver sem betur getur? Ég sæi ekkert á móti að afnema heldur verðjöfnunarsvæðin alveg. Vitanlega verður aðalskilyrðið það, til að mega selja mjólk, að setja upp mjólkurbú með góðum tækjum og skila góðum vörum. Þeir, sem því fullnægja, eiga að sitja fyrir og fá rétt sinn tryggðan, en ekki eyðilagðan. Samþykkt þessa frv. eða annars í sömu átt væri stórt spor aftur á bak. Það þýddi alveg sama og að leggja mjólkurbúin niður og láta hvern um það að selja sína mjólk ógerilsneydda, verzla með sína smjörpinkla og skyrkollur eins og í gamla daga.

Ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í þetta mál, því að það liggur ljóst fyrir og er einfalt. Eins og hv. þm. Ak. tók fram, var mþn. á einu máli um þá afstöðu, sem fram kom í bréfinu, þótt hv. þm. A.-Húnv. gerði mér þann heiður að segja, að það væri minn andi og ekkert annað, sem þar kæmi fram.