13.09.1944
Neðri deild: 49. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (2631)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er flutt fyrir hönd hv. þm. N.-Þ. (GG), sem er veikur og getur ekki sótt þingfundi. Með frv. er farið fram á, að Alþ. ákveði setur fyrir húsmæðraskóla á Akri í Öxarfirði í N.-Þingeyjarsýslu. Talsvert ýtarleg grg. frá hálfu þm. N.-Þ. fylgir frv., sem ég vænti, að hv. þm. kynni sér. Þar er bent á þá miklu þörf fyrir fjölgun húsmæðraskóla á Norðurlandi; enn fremur á það, að annars vegar við þetta svæði er ekki húsmæðraskóli fyrr en á Hallormsstað, en hins vegar á Laugum. Þessi skóli mundi koma á miðju þessu svæði, sem hefur ekki neinn húsmæðraskóla. Þá er einnig gerð grein fyrir almennri þörf fyrir húsmæðraskóla í landinu, og þarf ég engu við það að bæta. Það er fullt samkomulag, að því er virðist, milli þeirra, sem ætla að nota skólann, um það, að þetta sé heppilega valinn skólastaður. Akur er talinn glæsilegt skólasetur. — Ég leyfi mér að æskja þess, að málinu verði vísað til menntmn. d., og beiðast þess, að n. taki málið fyrir sem fyrst. Vonast ég til, að n. treysti sér til að mæla með samþykkt þess.