17.11.1944
Neðri deild: 76. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (2645)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Gunnar Thoroddsen:

Ég flyt brtt. um, að inn í húsmæðraskólal. verði tekinn skóli á Helgafelli á Snæfellsnesi. Ég vil taka þá till. aftur til 3. umr., ef það gæti greitt fyrir athugun í n. og samkomulagi, en ætla þó að mæla fyrir henni stuttlega áður.

Ég ætla, að nokkru áður en húsmæðraskólinn á Staðarfelli var stofnaður, hafi verið komin fram nokkuð almenn ósk um skóla á Helgafelli, en féll síðan niður um skeið, er hinn skólinn hófst. Síðustu árin hefur þetta mál vaknað aftur, og er áhuginn mikill og vaxandi. Ástæður eru líkar og um skólann á Akri. Mikill fjöldi stúlkna bíður eftir því að komast í húsmæðraskóla og kemst hvergi. Mér er tjáð, að flestir þeir skólar séu fullskipaðir til tveggja ára og Staðarfellsskólinn til þriggja ára. Það er von, að menn uni ekki við svo búið. Samband breiðfirzkra kvenna hefur á tveim aðalfundum sínum gert ályktanir um að herða á málinu. Fyrst var það á fundinum á Reykhólum í fyrra, og var eftir það leitað hófanna hjá eiganda Helgafells. Á aðalfundi í ár urðu um málið miklar umr., og var samþ. till., sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„XII. fundur SBK er því einróma samþykkur, að húsmæðraskóli verði reistur sem fyrst í Snæfellsnessýslu, helzt á Helgafelli, og vill kjósa nefnd til framkvæmda við fjársöfnun í því máli.“

Í nefnd til að standa að framkvæmdum voru síðan kosnar þrjár konur, sem mjög hafa starfað í þessum félagsskap, og tveir sýslunefndarmenn Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Fé nokkurt er þegar fengið. Eins og húsmæðraskóla Norður-Þingeyinga hefur verið gefið fé með því skilyrði, að skólinn yrði á Akri, hefur einn Breiðfirðingur gefið 10 þús. með því skilyrði, að skólinn yrði á Helgafelli. Þó að bið kunni að verða á framkvæmdum, tel ég mestu nauðsyn að fá stað fyrir skólann lögákveðinn. Það léttir stórum fjáröflun og allan undirbúning og fyrirbyggir síðari tafir, sem af staðarvali vilja oft hljótast. Auk legu sinnar og margra kosta er Helgafell æskilegur staður vegna sögufrægðar, sem öllum þm. er kunn.

Ég vil að lokum nefna eitt atriði. Það er kunnugt, að framhaldsskólar eru héruðum sínum metnaðarmál og nokkurs konar sjálfstæðismál. Þar má til telja húsmæðraskóla, bændaskóla og héraðsskóla. Langsamlega flestar sýslur hafa sinn eða sína framhaldsskóla. Undantekningar eru Norður-Þingeyjarsýsla, sem samkv. frv. á að fá skóla á Akri, Skaftafellssýslur, Strandasýsla og Snæfellsnessýsla. Einnig mætti nefna Barðastrandarsýslu, en þar er ráðin skólastofnun á Reykhólum, og Rangárvallasýslu, þar sem reisa á bændaskóla á Sámsstöðum. Um Gullbringu- og Kjósarsýslu má geta þess, að þar er ekki framhaldsskóli, en það er vegna nálægðar þeirra við Reykjavík og Hafnarfjörð og aðstöðunnar þar. Þetta, sem ég nú sagði, má bæði telja stuðning við frv. sjálft og um leið við brtt. mína og brtt. hv. 10. landsk.

Ég mun taka brtt. aftur til 3. umr.