19.01.1945
Efri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Menntmrh. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. — Hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur og getur því ekki haft framsögu fyrir þessu máli. Og þar sem nú er orðið mjög áliðið, vildi ég mælast til þess, að frv. þetta gæti farið til 2. umr. og n. án þess að um það þyrftu að verða miklar umr. nú. Málið er í sjálfu sér mjög einfalt. Hér er lagt til, að nokkur gjöld, svo sem vitagjald, aukatekjur ríkisins, sem taldar eru í L—VI. kafla l. nr. 27 27. júní 1921, og stimpilgjald verði innheimt árið 1945 með 100% viðauka í stað 40% viðauka, sem það hefur verið innheimt með á s.l. ári. Enn fremur, að ríkissjóði sé heimilt að innheimta gjald af innlendum tollvörutegundum með 50% viðauka.

Ég vil svo leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.