12.10.1944
Neðri deild: 64. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

153. mál, hafnarbótasjóður

Flm. (Pétur Ottesen):

Það er svo ákveðið í l. um hafnarbótasjóð, að ekki megi greiða fé úr sjóðnum, fyrr en Alþ. setur nánari ákvæði um slíkar fjárveitingar. Ég hef leyft mér, með tilliti til frv., sem er næst á dagskrá, að bera fram frv. um breytingu á l. um hafnarbótasjóð, þar sem uppfyllt eru ákvæði 4. gr. um að setja reglur um greiðslur úr sjóðnum. Í frv. þessu legg ég til, að fé verði aðeins greitt úr sjóðnum samkvæmt sérstökum l. í hvert sinn. Ég skil l. þannig, að þessi tilhögun væri eðlilegri, því að það er venja í sambandi við ýmsa lagasetningu, að hlutaðeigandi ríkisstj. gefi út reglugerð, sem kveði nánar á um hin og þessi atriði laganna. En þar sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að Alþ. skuli setja slíkar reglur, fannst mér réttast að kveða svo á, að það skyldi gert í hvert sinn, er Alþ. ákvæði að veita fé úr sjóðnum. Enn fremur er í frv. sett ákvæði um stjórn og ávöxtun sjóðsins. Ég taldi eðlilegast, að sjóðurinn væri í vörzlu fjmrh., en ávaxtaður í þjóðbankanum. Og það er tekið fram, sem samkvæmt eðli málsins er sjálfsagt mál, að fé sjóðsins sé handbært, þegar Alþ. ákveður að verja fé úr honum.

Ég held, að þessi breyting, sem ég legg til, að gerð verði á l. um hafnarbótasjóð, sé í alla staði eðlileg, og því geri ég mér vonir um, að Alþ. geti fallizt á þetta.

Ég vil óska, að þetta mál fái að ganga til 2. umr. og sjútvn.