27.11.1944
Neðri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í C-deild Alþingistíðinda. (2675)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Ég skal sannarlega verða við ósk forseta um það að þreyta ekki umr. um málið. Eins og öllum þdm., er ljóst, þá óskaði menntmn. fyrir sitt leyti við upphaf þessara umr. um málið að fá tóm til að athuga nokkuð þær brtt. allar, sem komið hafa fram við frv. Málinu lyktaði á þeim fundi á þann veg, að hæstv. forseti frestaði 2. umr. málsins.

Nú vildi ég aðeins skýra frá því, að á þeim dögum, sem liðnir eru síðan, hefur menntmn. rætt sín á milli um þessar till. allar, og af þeim ástæðum hefur hún engar ásakanir fram að bera nú úr þessu. Eins og fram hefur komið í umr. um þetta mál, liggja þarna til grundvallar tvenns konar sjónarmið. Annars vegar ber að líta á frv. á þskj. 296, eins og það er flutt, sem undantekning frá meginstefnu Alþ. á þeim reglum, sem í raun og veru hafa verið teknar upp um afgreiðslu skólamála. En hins vegar, hvort rétt sé að mæla með brtt. öllum og færa málið inn á það svið, þar sem er eingöngu um heimildarlöggjöf að ræða.

Nú hefur n. rætt þetta og ekki alls kostar orðið einhuga um viðhorfið gagnvart þessum sjónarmiðum og afstöðunni til brtt., sem fluttar eru við þetta frv. Það liggur fyrir í málinu, að undirbúningi er misjafnlega langt á veg komið í hverju héraði fyrir sig, þar sem farið er fram á að bæta við skólum. Og minna má á það, að sá hv. þm., sem í raun og veru er aðili að þessu frv., hefur ekki getað setið á Alþ. allt þetta ár, og á öllu því þinghaldi, sem fram hefur farið á þessu ári, er þetta eina málið, sem hefur verið komið á framfæri fyrir hérað hans. Þetta út af fyrir sig skýrir málið nokkuð og segir sína sögu. Aftur á móti hafa þeir hv. þm., sem flytja brtt., átt sæti á Alþ. allt þetta ár og ekki riðið á vaðið með sérstök frv. fyrir þá skóla, sem þeir berjast fyrir, og virðist það gefa örlitla skýringu á því, að þeir hafa ekki framan af þinginu álitið það svo mjög aðkallandi.

Nú er það í stuttu máli svo um meiri hl. menntmn., að hún lítur fremur á það sem undantekningu, að hún hafi mælt með frv. eins og það liggur fyrir upphaflega, og telur eðlilegt, að svo víðtæk samþykkt um húsmæðrafræðslu í landinu sem það er að fjölga húsmæðraskólum um fast að helming, bíði þangað til l. verða endurskoðuð. Það liggur fyrir á næstunni, og getur n. því ekki fyrir sitt leyti mælt með samþykkt þessara brtt. En þessi afstaða meiri hl. n. er algerlega byggð á því áliti hennar, að aðstæðum muni vera þannig háttað, að það komi ekki að sök og verði ekki til raunverulegrar hindrunar á framkvæmdum, þótt það bíði enn um sinn að samþ. þær brtt., sem fyrir liggja, og lögfesta þá skólana, sem farið er fram á að bæta við. Afstaða n. er eingöngu byggð á þessu viðhorfi, en ekki hinu, að n. út af fyrir sig sé andvíg, að húsmæðrafræðsla sé aukin í landinu.