27.11.1944
Neðri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2680)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Gísli Sveinsson:

Það er með hálfum hug, að ég stend upp. Ég er satt að segja ekki neitt fyrir að vera að endurtaka það, sem áður hefur sagt verið, en mér er þetta nokkuð framandi allt saman, þessi skilaboð eða hvað það er, frá hv. menntmn. Ef n. er búin að taka sína afstöðu, þá er eftir engu að bíða. En ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég er á móti frv. og mun greiða atkv. á móti því, nema lagfæring fáist á því eins og við nokkrir þm. lögðum til. Ég tel það enga ástæðu fyrir samþykkt þessa frv., að viðkomandi þm. sé fjarverandi, ef málið á annað borð er þannig vaxið, að maður sjái sér ekki fært að fylgja því. Því fer fjarri, að ég telji það nokkur rök í málinu. Samt sem áður munum við standa við að láta till. okkar bíða til 3. umr. og láta skeika að sköpuðu, hvernig fer um sjálft frv., ef ekki er hæfilega á málum tekið.