26.01.1945
Efri deild: 111. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í C-deild Alþingistíðinda. (2699)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil benda á, að með þessu frv. er verið að lögfesta fimm húsmæðraskóla í landinu, og ef ég þekki sessunaut minn, hv. þm. Barð., rétt, mun hann fljótlega vilja bæta þeim sjötta við.

Þótt nú séu mikil fjárráð á landi hér, er ríkinu með þessu bundinn stór baggi. Auk þess, sem ríkið leggur fram af stofnkostnaði, kemur það til með að þurfa að greiða 50 þús. kr. í rekstrarkostnað á ári hverju, og þegar skólarnir eru komnir upp, verður skuld ríkissjóðs um 3½ millj. kr.

Svo er það annað mál, að þessum skólum fjölgar fullört. Fjórir skólar eru nú settir upp á Suðurlandi, þrír við Breiðafjörð og svo í hverjum kaupstað landsins. Ég er sannfærður um, að þegar jafnvægi kemst á, verða þeir ekki nema hálfsetnir. Vil ég því beina því til þeirra, sem líta hag ríkisins svo björtum augum, hvort þessi skólafjölgun sé rétt stefna. Hér er í raun og veru um að ræða skuld, sem ríkið á að greiða, og tel ég það lýsa ekki lítilli bjartsýni þeirra, sem bera það fram.