30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2708)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Bjarni Benediktsson:

Ég hef nú ekki athugað eða borið þetta lagafrv., eins og það liggur fyrir, saman við sjálf l. um húsmæðrafræðslu í sveitum, en það er eftirtektarvert um þetta mál, að í meðferð þ. er búið að bæta mörgum skólum við það, sem upphaflega var ráð fyrir gert, þegar frv. var borið fram, en engin af þessum brtt. hefur verið borin fram af n., heldur hefur n. lagt til, að frv. væri samþ. óbreytt, þó að einstakir nm. áskildu sér rétt til að vera með brtt. Þetta sýnist eiginlega bera með sér, að meðferð málsins sé allhandahófskennd og engin rækileg skoðun hafi farið fram á því, hvort rík þörf væri á húsmæðraskólum víðs vegar um landið, né heldur athugun á því, hvort héraðsbúar heima í þessum héruðum væru reiðubúnir að leggja fram fé til þessara skóla af sinni hálfu. Sannleikurinn virðist vera sá, að einstakir þm. hafi tekið upp barðið fyrir héruð sín meira og minna af tilviljun og komið inn einhverjum stöðum, sem eru í héruðunum, hver þeirra um sig.

Ég hef nú ekki athugað, hvort með þessu lagafrv. skapast skylda fyrir ríkið til þess að inna fé af hendi til byggingar og rekstrar þessara skóla eða hvort þarf sérstakt ákvæði til þess í fjárl. (JJ: Þess þarf.) Það má þá segja, að þetta sé tiltölulega meinlaust út af fyrir sig, ef það er þannig, en hitt er ljóst, að þrátt fyrir það er lítt viðunandi að afgreiða slíka löggjöf sem þessa af jafnmiklu handahófi og ljóst er, að þetta frv. verður afgr. hér.

Ég vildi grennslast eftir því hjá mér fróðari mönnum og þá sérstaklega þeim, sem eiga sæti í menntmn., hvort þetta sé ekki eitt af þeim atriðum, sem sérstaklega heyrðu undir þá n., sem skipuð var til rannsóknar á fræðslumálum landsins, og hvort ekki væri betur viðeigandi að láta afgreiðslu þessa máls bíða, þangað til að sú n. hefur skilað áliti og við fengið að kynna okkur, hverjar hugmyndir hennar væru í þessum efnum.

Ég vil á þessu stigi spyrja hv. n. um það, hvort ekki sé rétt skýrt frá hjá mér, að þetta sé meira og minna handahófsafgreiðsla á þessu og hvort ekki væri betur viðeigandi að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, í því trausti, að heildartill. kæmu frá þessari skólamálan. í því efni, sem hér um ræðir, og ef sú n. hefur ekki þegar athugað þetta mál, sem mér finnst ólíklegt, að hún hafi ekki gert, hvort ekki væri eðlilegra að vísa málinu til hennar og fá till. hennar um það. Ef til vill er hv. n. ekki reiðubúin að svara þessu nú, og væri þá hægt að taka málið af dagskrá til frekari undirbúnings og athugunar.