30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég hafði ekki veitt því eftirtekt, að umr. var í raun og veru slitið. Annars ætlaði ég að segja nokkur orð út af till. hv. þm. Barð., sem hann gerði fyrir mín orð að bera ekki fram við 2. umr. Nú hefur hv. þm. Árn. sagt, að n. hafi athugað þetta, og að því er ég hygg, er a. m. k. meiri hl. n. velviljaður því, að sú till. nái fram að ganga, og kannske allir nm.

Út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. vil ég segja, að ég sé ekki, að máli skipti í raun og veru, þó að þetta sé ekki borið fram af n., og vil ég aðeins benda honum á, að mál, sem hann hefur haft nokkur afskipti af hér í d., nefnilega málið um embætti Sigurðar Nordals, var borið fram af n. í Nd. og það einróma, og þó kom í ljós, að þrátt fyrir gagnrýni hans hafði það ekki haft nægilegan undirbúning.

Aftur á móti er fyrst að segja um þetta mál, að l., sem mig minnir, að séu frá 1938, um húsmæðraskóla, tóku til greina þá staði, sem sumpart var þá byrjað að byggja á, og sumpart tvo skóla, sem er í raun og veru byrjað að reisa síðan og hefur verið safnað og veitt fé til, annar í Borgarfirði og hinn á Suðurlandsundirlendinu. Á hinn bóginn gera þessi l. ráð fyrir því, að það sé eingöngu fjárlagaatriði, hvað veitt er til þeirra, og þess vegna, eins og einn hv. þm. skaut inn í, algerlega á valdi þingsins, hvað byggt er. Í þessum l. frá 1938, hygg ég, að segi svo í 10. gr.: „Ríkissjóður greiði helming alls stofnkostnaðar, eftir því sem fé er veitt í fjárl.“ — Þessu síðasta er breytt þannig, að ríkið greiðir 3/4, en ekki lögð meiri skylda á ríkissjóð.

Nú er, eins og ég tók fram við 2. umr., þannig ástatt í þessum efnum, eins og borgarstjóra Reykjavíkur er vafalaust kunnugt um af því, sem gerist hér í bænum, að þessir skólar, sem til eru, eru svo allt of litlir bæði í bæjum og sveitum, að slíks eru engin dæmi um nokkra aðra skóla á landinu. T. d. rúmar sá elzti af þessum nútímaskólum, sem er á Laugum í Þingeyjarsýslu, aðeins 15 eða 18 stúlkur, — ég held, að 18 séu teknar nú orðið. Venjulega snemma á árinu eru komnar um 100 umsóknir, og ég veit ekki, hve margar umsóknir yrðu um þann skóla, ef nokkur von væri til, að hægt væri að taka fleiri. Þetta eru einu skólarnir á Íslandi, sem eru sambærilegir við ríka prívatskóla í Englandi, þar sem sækja þarf um inntöku mörgum árum áður. Þetta gildir ekki eingöngu um skólann í Þingeyjarsýslu, heldur alla húsmæðraskóla á landinu, Hallormsstað, Blönduós, Staðarfell og víðar. Þess vegna er miklu meira virði en nokkur nefndarundirbúningur, að það er kvenfólkið sjálft í landinu, bæði í bæjum og sveitum, sem vill fá þessa fræðslu og þykir hún allt of lítil. Það þarf ekki að bíða eftir öðrum dómi á það eða neinni nefndarrannsókn.

Aftur á móti er mér að vísu ekki ókunnugt um störf þeirrar n., sem hv. þm. talaði um, og ég hygg, að ef þetta mál er tilviljanakennt, þá sé sú n. enn þá meiri tilviljun. Það var gömul þál., sem Pálmi rektor og Bjarni á Laugarvatni báru fram endur fyrir löngu, um athugun á skólamálum. Það var ekkert gert, fyrr en hinn mjög gáfaði og lærði kennslumálaráðherra, Einar Arnórsson, fann í gömlum skjölum, að þessi þál. var til og skipaði n. alveg af handahófi til þess að athuga skólamálin. Eitt dæmi um, að þessi n. hefur ekki grandskoðað hlutina ákaflega djúpt, er það, að hún starfaði t. d. í sumar á einum héraðsskóla, bjó á gistihúsinu á Laugarvatni, og aðeins einu sinni talaði n. við skólastjórann þar lauslega um kennslumál, en samt leggur hún til að gerbreyta um átta héraðsskólum alveg frá stofni, sem reistir hafa verið víða með miklum fórnum af héraðsbúum, og taka þá undan stjórn héraðanna og láta þá gera allt annað verkefni en ætlazt var til.

Ég vil taka fram við hv. 6. þm. Reykv., að þessi n. hefur svo stór og mikil verkefni, að hún hefur ekkert yfirlit yfir þetta, svo að ég hygg, að hún mundi engu breyta í þessu.

Svo að ég snúi mér að öðru efni: Í Norður-Þingeyjarsýslu hafa í nokkur ár verið samskot um þetta. Í Skagafirði er farið að leggia fram fé og byrjuð kennsla á þeim stað, sem skólinn væntanlega verður. Á Snæfellsnesi hafa Snæfellingar lengi haft augastað á að hlynna að Helgafelli, og ég hef heyrt, að einn efnaður Snæfellingur hafi keypt jörðina, til þess að hún gæti orðið til opinberra þarfa í þessu skyni. Á Kirkjubæjarklaustri er mér kunnugt um, að í einu lagi hafa verið gefnar 10 þús. kr. í slíka stofnun, sem á að vera á Klaustri. Ég verð að segja, að þar sem aðsókn kvenna að þessum skólum er svo mikil, sýnist mér engan veginn ofaukið að stefna að því, þegar Vestfirðingar hafa efni á, að skóli verði reistur á Vestfjörðum. Nú er gert ráð fyrir, að skólinn á Ísafirði fái betri húsakost, og meira en tvo skóla á öllum vesturkjálkanum er ekki talað um.

Ég álít því till. hv. þm. Barð. í alla staði réttmæta, þar sem sérstaklega er komið jöfnum höndum undir áhuga manna í héraðinu og getu Alþ., hvað veitt er til skólans. Ég vildi helzt nota tækifærið til þess að skjóta því til þess unga og efnilega borgarstjóra í Reykjavík, sem hefur átt mikinn þátt í, að hér komst upp húsmæðraskóli, sem er að vísu gott, en ég hélt, að mundi vel hæfa rausn hans og bæjarfélagsins, að það væri meira gert í þessum málum og hv. þm. leitaðist við að styðja enn þá stærri átök en enn hafa verið gerð.