06.03.1944
Efri deild: 22. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. minni hl. (Haraldur Guðmundsson.):

Ég verð að segja það, að mig furðar nokkuð á tóninum í þessari klukkustundarræðu hv. 6. þm. Reykv. — og eðlilega, þar sem hann þurfti að grípa til þess úrræðis að vitna til Framsóknarfél. Eyrarbakkahr. til þess að sanna mál sitt, því að hingað til hefur hann ekki vitnað til Framsfl., þegar þörf hefur verið á öruggum sönnunum. Því furðulegra þykir mér þetta, þar sem þessi tilvitnun hans var fullkomlega óþörf, því að samþykkt þessa ágæta framsóknarfélags var gerð til þess að fá læknissetrið flutt frá Eyrarbakka að Stokkseyri, og hefur enginn hér lagt til, að það verði gert. Minni hl. leggur til, að læknissetrið verði á Eyrarbakka, eins og verið hefur, og þarf ég því ekki að eyða mörgum orðum um þetta atriði í ræðu hv. 6. þm. Reykv. eða álitsgerð hins góða félaga, sem hann lagði svo mjög upp úr að þessu sinni.

Ég get ekki komizt hjá því að minnast á ummæli þau, er síðasti ræðumaður viðhafði um landlækni, þar sem hann sagði meðal annars, að hann hefði óhreint mjöl í pokahorninu og talaði um gikkshátt og embættishroka hans. Svona ummæli eru í alla staði ósæmileg. (BBen: Þau hafa sannazt af gögnum málsins.) Þetta er alls ekki rétt. Mér finnst þessi hv. þm. vera þekktur fyrir annað en sérstaka hógværð og lítillæti eða sérstaka varfærni í orðbragði í ræðum sínum. Auk þess verð ég að segja það, að ég þori að gera samanburð á staðarþekkingu landlæknis og þessa hv. þm. í þeim héruðum, er hér um ræðir, og sé um að ræða hroka hjá landlækni, væri hv. þm. nær að líta í sinn eiginn barm og athuga sín eigin ummæli en snúa sér að landlækni. Læt ég svo útrætt um þennan þátt í ræðu hv. þm.

Annars er það vissulega rétt, sem hv. þm. hélt fram í ræðu sinni, að hér er um að ræða, hvort þær ráðstafanir til að fjölga smáu læknishéruðunum séu líklegar til þess í heild sinni að bæta ástandið í læknamálum landsins. Þetta er aðalatriðið. Hann hélt því fram, að einmitt það að fjölga smálæknishéruðunum mundi verða til þess að gera þau eftirsóknarverðari, því að með því gæfist læknum kostur á embættum eða von um að geta flutt til annarra betri héraða síðar með tímanum. Ég hygg, a.m.k. eins og nú er ástatt, að þetta eigi ekki við. T.d. eru nokkur héruð á Vestfjörðum, sem um langan tíma hafa verið læknislaus, og að því er snertir stofnun nýs læknishéraðs á Snæfellsnesi, hygg ég, að litlar líkur séu til þess, að þangað fáist í bili læknir, þegar litið er á, hversu mörg héruð eru læknislaus.

Ég játa það fullkomlega, að ástandið í læknamálum landsins er óviðunandi, en álít, að sú leið, sem hér er farin, sé ekki líkleg til úrbóta. Mín skoðun er sú, að það, sem gera eigi í þessum málum, sé að fela þeim mönnum, sem líklegir eru til að bera skyn á þessi mál, að gera athuganir á skipun læknamálanna hér á landi í heild sinni og bera fram till. sínar. Hins vegar tel ég það mjög misráðið að gera einstakar breyt. að lítt athuguðu máli, eins og gert er ráð fyrir í frv. nú, eða þær breyt. við það, sem fram hafa komið og munu halda áfram að koma fram.

Án þess að mig langi til að lengja þessar umr., get ég ekki látið vera að drepa nokkuð á annað atriði í ræðu hv. þm. Hann virðist vera þeirrar skoðunar, að það sé fyrst og fremst fjárhagsatriði að fá lækna út á landi, og það sé mikið að kenna heilbrigðisstj., að sum héruð séu læknislaus. Um það skal ég ekkert fullyrða. Það kann vel að vera, að með því að gera þessi embætti girnilegri væri auðveldara að fá þangað lækna. Mér er þó nær að halda, að þetta sé ekki meginástæðan, heldur hitt, hversu þessi héruð eru lítt eftirsóknarverð frá sjónarmiði fagmannsins, mannsins, sem er fullur áhuga í fræðigrein sinni og vill halda við og auka við menntun sína. Úti í þessum afskekktu héruðum er lítt um sjúkratilfelli, lítið af tækjum til nauðsynlegra læknisaðgerða og engin sjúkrahús, svo að læknar fá þar ekki tækifæri til þess að fá góða æfingu í starfi sínu. Ég hygg því, að um leið og þessi mál eru athuguð í heild, þyrfti einnig að reyna að búa svo um, að í dreifbýlinu væru nauðsynleg tæki til taks til þess að gera læknisaðgerðir, og jafnframt, að flutningur í sjúkraskýli væri auðveldur. Það þarf því ekki aðeins að bæta launakjör héraðslækna, heldur einnig starfsskilyrði þeirra. En þetta verður að sjálfsögðu stórum erfiðara, ef sú stefna verður upp tekin að búta læknishéruðin niður í smáheildir með nokkrum hundruðum manna í hverju læknishéraði, en ef um stærri héruð væri að ræða. Það er sjálfsagt rétt hjá hv. 6. þm. Reykv. að taka tillit til samgangna og staðhátta, en þessu atriði, sem ég hef nú drepið á, má ekki gleyma. Landlæknir bendir einmitt á það í bréfi sínu, hvernig þróunin eigi að verða í Eyrarbakkalæknishéraði og á Reykjanesi. Hann telur, að það sem skipti mestu máli, sé einmitt það, að þarna verði komið upp myndarlegu sjúkrahúsi með sem beztum starfsskilyrðum og að ráða þangað sérstakan sjúkrahúslækni. Ég hef litið svo á, að skipun aðstoðarlækna sé alls ekki til þess, að héraðslæknaburgeisarnir geti arðrænt fátæka aðstoðarlækna, eins og hv. 6. þm. Reykv. hélt fram, heldur vakir fyrir landlækni í fyrsta lagi, að læknir sé til taks, þegar embættislæknir þarf að taka sér frí, í öðru lagi að koma upp sjúkrahúsum úti um héruð landsins og að þar sé þá nauðsynlegt, að tveir læknar séu við höndina, og í þriðja lagi mætti á þennan hátt fá aðstoðarlækna í bili til þess að gegna störfum í læknislausum héruðum, ef ekki væri önnur leið. Þetta væri með öðrum orðum öryggisráðstöfun vegna þess, hversu illa hefur gengið að fá lækna út í sum héruð landsins.

Hv. 6. þm. Reykv. hafði um það ýmis orð, að landlæknir hefði komið ósæmilega fram gagnvart íbúum Snæfellsneshéraðs, og minntist á oddvitafund, er þar var haldinn á sl. sumri, en fundargerð hans er nú birt á þskj. 146. Hann hélt því fram, að með þessu væri verið að gera þm. Snæf. að minni manni og þessir oddvitar hefðu verið leiksoppar í höndum landlæknis og gert einhverja skyssu. Ég verð nú að segja, að mér þykir þetta kuldaleg ummæli í garð þessara oddvita, ef hann álítur þá ekki meiri menn en svo, að þeir hafi látið landlækni nota sig til slíks, enda veit ég ekki, hvort átti að skilja ummæli hans svo, að einhverjir þeirra hafi látið af störfum. Fyrir mitt leyti finnst mér þessi fundargerð, alveg eins og hún kemur fyrir frá oddvitunum, ekkert annað en skynsamleg rök í þessu máli.

Hv. 6. þm. Reykv. hafði þau orð, að landlæknir hefði verið að fá þá til þess að óska eftir vetrarvegum um Snæfellsnes, en það veit ég, að ekki hefur þurft að finna það upp að benda oddvitunum á, að þeir þyrftu að fá þennan veg, og um það get ég fullvissað hv. 6. þm. Reykv., að það hefur ekki kostað landlækni neitt erfiði að fá þá til þess að óska eftir vegi yfir þessa tvo fjallgarða, sem um er að ræða. Hitt er svo augljóst mál, að mjög litlar líkur eru til, eins og nú er ástatt, að íbúum hinna hreppanna tveggja, sem aðallega er ætlazt til, að verði í þessu sérstaka læknishéraði, auðnist að fá lækni, og reynist það svo, er héraðið engu betur sett, heldur getur það jafnvel verið verra að gera þessa breyt.

Ég skal svo ekki tefja tímann og ræða meira um málið almennt, en vildi aðeins gera þessar aths. við ræðu hv. 6. þm. Reykv., sem mér fannst fara fram á nokkuð óvenjulegan hátt.

1. brtt. minni hl. hef ég þegar rætt, en hún er við 1. gr. frv., eins og það kom frá Nd. við 3. umr., og álítum við, eins og nú er ástatt, að hún komi ekki að neinu haldi, og leggjum því til, að gr. verði felld niður.

Um 2. gr. erum við alveg sammála meiri hl., að læknissetrið, sem hingað til hefur verið á Brekku, verði framvegis á Egilsstöðum, en um Bakkagerðishérað er nóg að vísa til þess, er ég hef áður sagt og enginn ágreiningur hefur verið um.

Að því er snertir 3. gr., leggur minni hl. til, að gr. verði felld niður, þar sem við erum mótfallnir, að læknissetur héraðsins verði flutt, en viljum, að Eyrarbakkahérað fái aðstoðarlækni.

4. gr. frv. leggjum við til, að verði felld niður. Skiptingin þar þykir okkur fráleit, þar sem um er að ræða, að íbúar Hafnahrepps sæki lækni til Grindavíkur gegnum Keflavíkurhérað, og hefur meiri hl. lagt til, að breyt. verði á þessu gerð. Hins vegar teljum við enga ástæðu til þess nú, að Grindavík verði sérstakt læknishérað, þar sem héraðið er svo fámennt og aðeins 15–20 mín. akstur til læknis í Keflavík, og finnst okkur því sú breyt. óþörf. Annars vil ég í þessu sambandi vísa til bréfs landlæknis, þar sem hann lýsir, á hvern hátt hann telur þessum málum nú bezt komið á Reykjanesi, en hann leggur til, að byggt verði sjúkrahús í Keflavík með föstum lækni við það, og er enginn vafi á því, að þarna er bezta lausnin á þessu máli.

Aðrar brtt. við 7. og 8. gr. frv. eru afleiðing af fyrri brtt., og þarf ég því ekki að gera frekari grein fyrir þeim.

Ég skal þá að lokum geta þess, að rætt var um það í n. að flytja till. til þál. um að fela ríkisstj. að skipa n. til þess að framkvæma athuganir á skipun læknishéraða landsins í heild og hvað hægt væri að gera til úrbóta. Mér fyrir mitt leyti þótti rétt, áður en till. kæmi fram, að sjá hvaða afgreiðslu frv. fengi hér. Og ef brtt. minni hl. yrðu samþ., geri ég ráð fyrir, að n. í heild muni flytja þessa till. til þál. Verði hins vegar brtt. meiri hl. samþ., tel ég eðlilegt og réttmætt, að fleiri breyt. verði gerðar á frv.

Ég skal t.d. benda á læknishéruð eins og Suðureyri, Hrútafjörð og Raufarhöfn, sem við álítum, að hafi a.m.k. jafnmikla ástæðu, ef ekki meiri, til þess að óska eftir sérstökum lækni og ýmis þau héruð, sem hér eru tekin upp í frv., og gætu ef til vill fleiri komið til greina, áður en meðferð málsins er lokið.

Ég vil eindregið ráða hv. d. að samþ. till. minni hl. og athuga ákvæðin í nál., sem ég hef drepið á, áður en hrapað er að því að gera jafnstórfelldar breyt. á læknaskipun og að virðist stefnt hér.