30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í C-deild Alþingistíðinda. (2712)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Frsm. (Jónas Jónsson):

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Dal. vildi ég taka það fram, að ríkið er ekkert fremur skuldbundið af húsmæðraskólal. en t. d. hafnarl. En eins og kunnugt er, hefur einatt þurft stór átök til að hefja hafnarframkvæmdir, og eru það þó mannvirki, sem gefa beinan arð. Þess vegna er alls óþarft að óttast, að of langt verði gengið í þessu efni. Mér virðist, að hv. þm. Dal., sem hefur lengi stýrt sýslu, ætti öðrum fremur að vita um erfiðleika héraðanna í slíkum málum sem þessum.

Þá vildi ég segja nokkur orð, sem mættu verða til umhugsunar fyrir æðsta mann höfuðborgarinnar, en það er um nauðsyn þess að hafa gistihús í sveitunum um sumartímann — og það ekki sízt nú, þegar sumarleyfi eru lögboðin. Það er útilokað, að heimili í sveitum geti tekið á móti öllum þeim, er leita í sveitirnar á sumrin. Það er sitt hvað, hvort við óskum eftir því að verða ferðamannaland eða hitt, hvort þeir, sem hingað koma, geti fengið sómasamlega gistingu. Ætla mætti, að orlofsl. yrðu til þess að skapa gistihús í sveitunum, en svo mun þó ekki verða. Má í því sambandi benda á umsókn, sem nú mun liggja fyrir Alþ. um styrk til að stækka gistihúsið Valhöll á Þingvöllum. Þar er hinn fjölsóttasti staður í sveit á Íslandi, og má af því ljóst vera, hver verður hlutur annarra sveita í þessu efni. Það er alls kostar ómögulegt að láta slík gistihús bera sig af 6–8 vikna tíma, sem þau yrðu sótt. Þessir skólar gætu leyst þetta vandamál, ef sameinazt er um þá leið, og raunar ætti borgarstjórinn í Reykjavík að vera þar fyrstur í flokki.

Mér tókst ekki að sannfæra hv. þm. Dal. um eitt atriði, en það var, að á þennan hátt fá okkar gömlu höfuðból stuðning, sem verður er til að halda uppi minningu þeirra. Skálholt hefur nú fengið þennan stuðning, og verði þessir staðir studdir á svipaðan hátt, þá er miklu bætt. Þannig er nú og búið að Hólum í Hjaltadal, þótt biskupar sitji þar ekki lengur. Ég vænti, að hv. þm. Dal. og aðrir vitrir menn sjái, að mþn. hefur annað að starfa en sinna þessu máli. En hins vegar hníga að því mörg rök, sem ég nú hef sum talið, að þetta mál verði skjótt ráðið. Og má þar ekki gleyma, hve þetta mega verða heppilegir og nauðsynlegir gististaðir fyrir erlenda gesti og orlofsfólk úr Reykjavík.