30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Eiríkur Einarsson:

Herra forseti. Það er líklega bezt að láta sér þykja gott, að umr. verða um þetta mál til þess að vekja hv. þdm. til athugunar um ýmislegt, sem lýtur að þessu máli. En að ég tek til máls aftur, er af því, að ég á sæti í þeirri n., sem um þetta mál hefur fjallað. Það hefur verið talað um, að hún hafi látið álit sitt í ljós með nokkuð lítilli athugun á málinu. Það var annað frv. á dögunum, sem líkt þótti sumum hv. þdm. ástatt um, um próf. Sigurð Nordal og þann heiður, sem hæstv. Alþ. væntanlega vill sýna honum og vísindastarfsemi hans. Í því máli þótti það eðlilegt, úr því að fram á það var farið, að leita umsagnar háskólaráðs um það. Og ég verð að segja, að þótt umsögn hins ágæta háskólaráðs bærist um það frv., þá var maður ákaflega litlu nær um málið. Sú umsögn hljóðaði alveg eins og við mátti búast, að mælt var með frv. og búið. Það, sem gat orðið að álitamáli meðal alþm. um það, hvort samþ. skyldi það frv. eða ekki, það laut ekki að minni skoðun að umsögn háskólaráðs, heldur hinu, hvort próf. Nordal væri maklegur þess sóma eða ekki, sem um var að ræða. Og það var vissulega einkamat hvers hv. þm. að gera sér grein fyrir því, en ekki þörf um það að leita umsagnar út fyrir bæjardyr þingsins.

Nú, þegar vítt er nokkuð meðferð n. á þessu frv., þá hefur það sérstaklega verið sagt af þeim, sem slíkt hafa mælt, að ekkí hefði verið leitað eða beðið eftir umsögn þeirrar mþn., sem nú starfar í landinu að menntamálum. Þetta er rétt svo langt sem það nær. En þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., er komið fram í hv. Nd. frá einstökum þm. og lýtur upphaflega að því að fjölga um einn húsmæðraskólastað, sem lögfesta skyldi. En svo hefur það í þeirri hv. d. aukizt í meðförunum hjá áhugamönnunum, þangað til þessir staðir, sem til eru teknir í frv. sem staðir fyrir húsmæðraskóla, eru orðnir þrír eða kannske fjórir — (Raddir frá þm.: Þeir eru fleiri.), eða upp í sex eftir brtt., sem hér liggur fyrir. En hvað um það. Samkv. l. frá 1938 um húsmæðrafræðslu í sveitum er það spor þegar stigið, að viðurkennt er, að þeir skuli vera þó nokkuð margir dreifðir um landið á líklegustu stöðum. Nú er sýnt með þessu frv., að það er farið nokkuð lengra. Þessum héruðum, sem nú vilja fá lögfesta staði fyrir húsmæðraskóla hjá sér, er umhugað um að fá fullnægt áhuga sínum á húsmæðrafræðslu á sama hátt og hinum héruðunum, sem komin eru til lögfestingar. Og ég álít í raun og veru ekkert um það að segja annað en að samþ. það. Og um það, hvort þetta sé rétt markmið eða ekki, álít ég réttast að leita trausts og álits hjá þeim, sem búa úti um sveitir landsins, fremur en frá nokkurri mþn. Ég staðhæfi, að þar, sem ég þekki sérstaklega til, er áhuginn á aukning húsmæðrafræðslunnar almennur og ríkur, og sama veit ég er víða um land. Hann er líka góðum og öruggum rökum studdur. Það er fagleg og hagnýt fræðsla, sem veita þarf húsmæðraefnum. Sá tími er liðinn, að bændur og húsfreyjur þyki enga sérþekking þurfa, meðan sérhver iðnfúskari, liggur mér við að segja, þarf langt nám til að fá starfsréttindi í sinni iðn. Fólkið í hinum dreifðu byggðum óskar eftir að hafa þessar menntastofnanir ekki stórar og hafa þær heima hjá sér. Ég vil, að Alþ. taki svo frjálsmannlega á málinu, að ekki séu hindraðar mikilvægar framkvæmdir. Ég vil ekki vera svo sínkur að vera á móti skóla á eins góðum stað og Reykhólum, eins og ég er með skólunum á Helgafelli og í Ytri-Skógum. Auðvitað er ekki stærsta atriðið, að skólarnir verði svo margir, heldur að forstaða þeirra verði sem bezt og sem farsælast að stofnun þeirra unnið. Það er hamingjuhlið þessa máls og verður ekki tryggð með Alþingissamþykkt.

Það hefur komið hér fram, að þessu máli ætti að vísa til mþn. í skólamálum. Fyrir mörgum árum flutti ég frv. um bændaskóla á Suðurlandi. Þáv. landbrh. beitti sér manna mest til að drepa það, að vísu á kurteislegan hátt, vildi láta vísa því til þessarar ágætu mþn. Nú er þetta frv. orðið að l. án atbeina þeirrar n. Eins finnst mér eiga að leysa þetta mál, þótt till. mþn. um það efni hafi ekki komið fram, en vitað er, að hún muni leggja til að auka húsmæðrafræðsluna stórkostlega.

Ágreiningur er um, hvort húsmæðraskólar eigi að standa einir sér eða vera á stöðum, þar sem aðrir skólar eru við hlið þeirra. Borgfirðingar t. d. vildu helzt halda sínum skóla einangruðum, en á Laugum var húsmæðraskóli reistur við hlið héraðsskólans. Austan fjalls hneigjast menn að því að hafa marga skóla á einum stað í hvirfingu. Ég held, að það verði reynslan ein, sem úr því sker, hvort betra er.

Annað atriði, sem hér kemur mjög til greina, er bæði stofnkostnaður og rekstrarkostnaður, þótt það liggi raunar utan við ramma þessa frv. og það þurfi síðar endurskoðunar við, hver röð eigi að vera á framkvæmdum og með hverju móti í þær verði lagt. Það hefur lengi verið ein grundvallarskoðun mín í skólamálum, að ríkið eitt sé fært um að bera kostnað og ábyrgð skólahalds í landinu yfirleitt. Ég tel þurfa svo vandláta yfirstjórn og eftirlit alls skólauppeldis, að ríkið eigi að bera ábyrgðina, hafa þann veg og vanda og þar af leiðandi bera kostnaðinn. Því skiptari sem ábyrgðin er, því fleiri munu mistökin verða að jafnaði, en hvergi ríður meir á en hér, að vel takist til.

Ég fylgi þessu frv. eindregið þrátt fyrir ýmislegt, sem betur mætti þar fara og ætti að standa til bóta síðar meir.