30.01.1945
Efri deild: 114. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (2716)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Magnús Jónsson:

Mér finnst ákaflega undarlegt, ef málið verður afgr. án þess að leita umsagnar mþn. í skólamálum. Þótt komið sé að síðustu umr. í síðari þd., er alls ekki um seinan að gera það, fyrst rödd um það hefur komið fram. Frv. er ekki sambærilegt við frv. um einn bændaskóla til viðbótar við þá, sem fyrir voru, því að hér er lagt til að lögfesta fjölda skóla, heilt skólakerfi, sem nær um allt landið, að fornspurðri þeirri mþn., sem er einmitt sett til þess að gera till. um skólakerfi landsins. Sennilegt er, að n. gæti þegar gefið svör um, hvort frv. riði nokkuð í bága við till. hennar, og líklega gerir það það ekki. Með einu pennastriki gæti n. veitt þann úrskurð um frv., að það yrði hér samþ. án mótatkvæða. Mér skildist hv. þm. S.-Þ., sem hér hefur aðallega talað móti þessari lausn, hafa það eitt út á hana að setja, að þetta væri svo afleit nefnd, með hana væri ekkert gerandi nema láta hana svelta í óbyggðum eins og uppi við Hvítárvatn, — þetta væru menn utan við lífið og starfið álíka og afdankaðir gamlir embættismenn. Hverjir eru í n.? Mér sýnist n. einmitt þannig saman sett, að tryggt sé, að þar sé fyrst og fremst kunnugleiki á lífi og starfi í skólunum. (JJ: Hvar er Aðalbjörg?) Þar er fulltrúi fyrir háskólann, og er það eðlilegt, fyrst hann er meðal þeirra skóla, sem n. fjallar um. Sá fulltrúi, formaður n., er náinn samstarfsmaður og vinur Sigurðar P. Sívertsens, sem hv. þm. S.-Þ. talaði fagurlega og maklega um (JJ: Sívertsen er ekki í n. og það af heiðarlegum ástæðum.) Þessi maður mun því vera sá fulltrúi háskólans, sem hv. þm. S.-Þ. treystir bezt, kannske að undanskildum Níelsi Dungal. Þá eru fulltrúi menntaskólanna, Kristinn Ármannsson yfirkennari, og fulltrúi gagnfræðaskólanna, Ingimar Jónsson skólastjóri, sem þm. minntist mjög lofsamlega. Fyrir barnaskólana, umfangsmesta svið n., er sjálfur fræðslumálastjórinn fulltrúi, Helgi Elíasson, sem er ritari n., og einnig er þar skólastjóri eins stærsta barnaskólans, Ármann Halldórsson, vel menntaður maður. Fulltrúi fyrir þá skóla, sem hér er um að ræða, er frú Aðalbjörg Sigurðardóttir, sem þeim málum er mjög kunnug, þótt hún kenni ekki nú við skóla, og var hún á sínum tíma skipuð af hv. þm. S.-Þ. í skólanefnd Reykjavíkur. Hlýtur hann að bera til hennar fyllsta traust, svo sem raunar mþn. allrar, er hann hugsar það mál. Það er furðulegt, að hann skuli á þessum stað hafa þau orð, sem hann lét heyra til sín um nefndina. Ég hygg, að þm. hafi hnykkt við. Og þetta eigum við að taka gilt í röksemda stað.

Mþn. hefur ekki tekið húsmæðrafræðsluna fyrir enn. Það er m. a. af því, að landsfundi kvenna í vor er ætlað að láta í ljós álit sitt um þau mál, áður en n. tekur afstöðu. Allir eru sammála um, að hér er þarft mál á ferð, en framkvæmdir verða ekki verulegar í sumar, sem kemur. Hvað er þá tapað, þótt frv. bíði til hausts og um málið verði fjallað bæði af landsfundinum og síðan mþn.? Ég hef ekki gert rökst. dagskrá um að vísa frv. til þeirrar n., en mundi fylgja slíkri dagskrá, ef fram kæmi. Það er ekki af því, að ég sé á móti málinu á nokkurn hátt.