07.02.1945
Neðri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að bera fram smábrtt. um, að við 1. gr. frv., á eftir orðunum „í Borgarfirði“, komi: „í Gullbringusýslu, enda samþykki ráðherra val staðarins.“

Ég geri ráð fyrir, að eftir því sem þetta mál stendur nú, verði ekki sérstök ástæða til þess að beita sér gegn þessari till. minni, og án þess að ráðast á neinar þær till., sem samþ. hafa verið í hv. Ed. í þessum efnum, þá verð ég að segja, að það, sem hér er farið fram á í till. minni, er að minnsta kosti fullkomlega eins á rökum og þörfum reist og þær till., sem þegar hafa verið samþ.

Að baki þessarar till. stendur samþykkt frá kvenfélagasambandi Gullbringu- og Kjósarsýslu, er gerð var á fundi sambandsins fyrir báðar sýslurnar í sumar. Var þar einróma samþ. að beita sér fyrir því, að stofnaður yrði húsmæðraskóli Suðurnesja og að honum yrði valinn staður í Gullbringusýslu. Er gert ráð fyrir, að þetta verði heimavistarskóli fyrir 12–20 stúlkur til að byrja með, en að öðru leyti stofnaður á grundvelli þeirra l., sem hér um ræðir. Hér á hlut að máli fjölmennt sýslufélag, og hygg ég, að það megi til sanns vegar færa, að að baki þessari till. standi þær sanngirniskröfur, sem hægt er að færa fram frá sýslufélögum. — Ég get ekki verið á móti því, sem hv. 8. þm. Reykv. (SigfS) sagði. Hann er sérstaklega góður stuðningsmaður þessa málefnis, og vil ég í trausti þess styðja það, að málinu verði vísað til hv. menntmn. til nánari athugunar, og leyfi mér að leggja fram hina skrifl. brtt. mína.