07.02.1945
Neðri deild: 123. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Ég flutti þetta frv. fyrir hv. þm. N.-Þ., sem er veikur, og var frv. í fyrstu um það, að reisa skyldi húsmæðraskóla í N.-Þingeyjarsýslu. — Eins og bent hefur verið á, hefur frv. vaxið nokkuð í meðförum, og nú eru komin ákvæði í það um fleiri skóla. Ég get sagt það, að mér kemur þetta ekki á óvart. Það var við því að búast, að menn vildu koma á framfæri hugmynd sinni um húsmæðraskóla á ýmsum stöðum, þegar þessum málum var hreyft hér á hv. Alþ. Má hiklaust gera ráð fyrir því, ef þessi stefna verður ofan á, að margir húsmæðraskólar verði reistir úti um land, enda tvímælalaust, að svo á að vera. Verður þá ekki langt að bíða þess, að langflestar ungar stúlkur, sem ætla sér að gerast húsmæður, vilji ganga á slíka skóla. Er mjög óeðlilegt, að þær þurfi að fara langa leið til þess að afla sér þeirrar menntunar, auk þess sem það er mikið menningaratriði fyrir hvert stórt byggðarlag að hafa þessa fræðslu einmitt heima fyrir — og ef til vill þýðingarmeira en flestir gera sér grein fyrir, ekki sízt eins og nú horfir um þessi málefni.

Ég er því jafneindreginn fylgismaður frv., þótt inn í það hafi verið bætt svona mörgum skólum, og finnst mér, að þeir eigi allir fullan rétt á sér og enn fremur þær brtt., sem hér liggja fyrir, er ég hygg, að séu tvær, önnur frá hv. þm. A.-Sk. og hin frá hv. þm. G.-K.

Ég álít því, að hv. Alþ. eigi hiklaust að afgr. þetta mál til þess að greiða fyrir framkvæmd þess. Það er nokkuð langt, síðan málið kom frá hv. Ed., svo að hv. menntmn. Nd. hefur haft nokkurn tíma til þess að sjá, hvernig með málið hefur verið farið í hv. Ed., þannig að þeirra hluta vegna ætti ekki að þurfa að fresta málinu og vísa því til n. Hins vegar er ég ekki á móti því, að málinu verði frestað um stund, en það má ekki vera lengi, ef það á ekki að verða málinu til tjóns, og verði samþ. á því breyt. hér í hv. d., verður málið að fara til hv. Ed. Ég get því fallizt á, að málinu verði frestað um stundarsakir, en tel óþarfa að vísa því til hv. menntmn., enda ekki venja að vísa máli tvisvar til sömu n. á sama þ. Vil ég því stinga upp á, að n. taki málið fyrir, meðan fresturinn varir, og vona, að hæstv. forseti hafi hann ekki of langan, svo að málinu verði ekki teflt í tvísýnu með því.