15.02.1945
Neðri deild: 130. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (2740)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Þegar þetta mál var síðast á dagskrá, fór ég þess á leit, að umr. yrði frestað, með það fyrir augum, að málið fengi betri athugun í menntmn. hv. d. Þetta hefur ekki getað orðið enn og það af eðlilegum ástæðum, þar sem tveir nm., þar með formaður n., hafa verið mjög störfum hlaðnir. Nú þykir mér eðlilegt, að forseti vilji ekki tefja málið úr hófi fram, og mun ég því ekki fara fram á, að því verði frestað nú. En ég mun bera fram rökst. dagskrá í málinu, sem ég mun leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin leggi fyrir næsta þing frv. að allsherjar skólalöggjöf, þar á meðal um húsmæðrafræðslu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég mun nú leyfa mér að rökstyðja þessa afstöðu mína með nokkrum orðum. — Eins og ég benti á, þegar ég óskaði eftir frestun á málinu, kom þetta mál inn í d. þannig, að óskað var eftir, að einn húsmæðraskóli yrði stofnaður í sveit með l. til viðbótar við þá sjö, sem fyrir eru. Þetta mál fékk þá athugun í menntmn., sem leitaði umsagnar fræðslumálastjóra, en hann lét athuga málið í mþn. í skólamálum, sem er nú að fjalla um þessi mál. Að því búnu mælti n. með frv. í því formi, sem það þá var. Síðan hefur þessi eini skóli dregið eftir sér ekki færri en sjö aðra. Nú er lagt til, að þessum skólum verði fjölgað með l. um átta. Í stað þess, að þeir eru sjö, verða þeir fimmtán.

Það hefur komið fram í umr. hjá hv. 2. þm. S.-M., að í raun og veru skipti þetta ekki miklu máli, því að hér væri aðeins um heimildarl. að ræða. Þetta er að nokkru leyti rétt, en ekki að öllu. Það er rétt að því leyti, að hverfandi líkur eru til þess, að skólarnir taki til starfa, fyrr en veitt er fé á fjárl. til stofnkostnaðar þeirra. Eins og kunnugt er, greiðir ríkið þrjá fjórðu hluta stofnkostnaðar. Að þessu leytinu má til sanns vegar færa, að hér sé um heimildarl. að ræða. En hinu má ekki gleyma, að ef skólinn er reistur í héraði án tilkostnaðar ríkisins, við skulum segja upp á von eða vissu um, að hann yrði síðar tekinn upp í fjárl., þá ber ríkinu samkv. l. að styrkja hann eftir föstum reglum á myndarlegan, en þó ekki of myndarlegan hátt. Ekki ber að skilja orð mín svo. Og ef héruð sýndu þann myndarskap að koma skólanum upp, áður en fé er veitt til hans í fjárl., þá er um meira en heimildarl. að ræða. En hitt er rétt hjá hv. 2. þm. S.-M., eins og ég hef þegar tekið fram, að í reyndinni verða þetta heimildarl., sem koma ekki til framkvæmda, fyrr en ákveðið er fjárframlag til skólans í fjárl. En fyrst svona er nú, þá mætti spyrja: Hvað er unnið við að setja þessi l.? — Nú er vitað, að í fjárl. þessa árs eru 400 þús. kr. varið til húsmæðraskóla í sveitum. Eftir því, sem greint er í nál. fjvn., þá er þessi fjárveiting ætluð til skóla, sem þegar eru starfandi, skólanna að Laugarvatni, Laugum og Hallormsstað og eitthvað til skóla Árnýjar Filippusdóttur í Hveragerði. En í fjárl. þessa árs er ekkert fé, sem ætlað er til framkvæmda eða byggingar við þessa átta skóla, sem nú er ætlað að lögfesta. En hvað er þá unnið með því að samþ. þetta frv.? Eitt er unnið við það. Þá er ákveðin stefna í þessu máli, sú stefna, að húsmæðraskólar skuli vera margir og smáir. Ég hef verið að reyna að gera mér nokkra grein fyrir, hvað hugsanlegt væri, að margir nemendur kæmu til með að vera í þessum 15 húsmæðraskólum, ef þeir yrðu stofnaðir. Hv. 2. þm. S.-M. lét orð falla í þá átt, að stefna bæri að því, að öll húsmæðraefni ættu kost á að ganga í þessa skóla. Um þetta er ég honum fyllilega sammála. Ég tel þetta mark, sem stefna beri að að ná sem allra fyrst. Hver einasta kona, sem gegnir húsmóðurstarfi, á að hafa hlotið áður nokkra sérmenntun í þá átt. Út frá þessum forsendum hef ég reynt að gera mér grein fyrir því, hve skólaþörfin í landinu sé mikil. Ég hygg, að húsmæður í sveitum séu á milli 6–7 þúsund, og hér er um að ræða skóla fyrir sveitirnar, þar sem önnur l. gilda fyrir húsmæðraskóla í kaupstöðum. Mér þykir ekki ólíklegt, að meðalaldur húsfreyjunnar muni vera um 30 ár. Ég álykta, að um 200 stúlkur bætist í þessa stétt árlega. Ef ná á því marki, sem ég og hv. 2. þm. S.-M. teljum, að stefna beri að, verða skólarnir að geta tekið á móti 200 ungum stúlkum árlega. Því miður erum við ekki nærri búnir að ná þessu marki, að allar ungar stúlkur geti sótt skóla. Nú er gert ráð fyrir 7–14 mánaða starfi í skólunum í 1–2 vetur. Því má telja það ljóst, að það sé mjög hátt reiknað, að ,3–400 stúlkur dveljist á skólunum. Það þýðir, að 20–30 stúlkur dveljist þá í hverjum skóla, ef allt er talið til. Nú verð ég að segja það, — en það kann að stafa af því, að ég hef hugsað minna um þessi mál en aðrir þm., — að ég er ekki reiðubúinn að segja nú, að þetta sé rétt stefna, að rétt sé að hafa skólana svona marga og smáa, eins og hér er gert ráð fyrir. Það má færa mörg rök fyrir smáum skólum, og ég skal viðurkenna, að eftir minni hyggju má ná óvenjulega góðum árangri á slíkum skólaheimilum. Ég vil benda á skólann á Laugum í því sambandi. Hann bendir til mjög góðs í því efni. En ég vil líka taka það fram, að hægt er að færa mörg gagnrök gegn smáum skólum og mörgum. Það er nú fyrst og fremst það, að slíkir skólar standa og falla algerlega með einum manni, skólastýrunni. Það má að vísu segja, að svo sé um alla skóla, — það er, að hann sé það, sem skólastjórinn og kennararnir gera. En eftir því, sem skólinn er fámennari og minna kennaraval, skiptist ábyrgðin á færri herðar. Og þar veltur ekki allt á einni manneskju, eins og í fámennari skólum. Ég vil benda á það, að við eigum áreiðanlega ekki mikinn fjölda kvenna, sem hægt væri að fá til að standa fyrir þessum skólum og geta einnig kennt allt, sem kenna ber. En það sjá allir, að ekki er hægt að hafa marga kennara til að kenna 20–30 stúlkum. Ég held því það sé ekki að ófyrirsynju, þótt þetta mál sé athugað miklu betur frá öllum hliðum. Ég vil taka það fram, að ég vil ekki undir neinum kringumstæðum verða til þess að tefja framrás á þessu sviði. Ég get ekki séð, að dagskrártill. mín geti á nokkurn hátt tafið fyrir því, að stór skref verði stigin fram á sviði húsmæðrafræðslunnar. Ég sé ekki, að það þurfi að tefja málið nokkuð, þótt því sé frestað til hausts og fengið mþn. í skólamálum til nánari athugunar.

Ég vil líka benda á annað atriði í þessu sambandi, sem athuga þarf í sambandi við þetta mál. Þeirrar stefnu gætir í þessu frv. og hefur áður gert, að reisa eigi þessa skóla í sambandi og á sömu stöðum og héraðsskólana. Slíkir skólar hafa verið reistir að Laugarvatni og Laugum, og í frv. er gert ráð fyrir, að sumir rísi í sambandi við fyrirhugaða héraðsskóla. Þetta þarf m. a. að athuga, hvort stefna beri algerlega í þessa átt eða fara skuli bil beggja, að sumir skuli reistir í sambandi við héraðsskóla, en aðrir ekki.

Ég vænti, að enginn skilji orð mín svo, að ég vilji tefja þetta mál. Ég vildi fá að heyra frá hæstv. ríkisstj., hvort hún hefði í hyggju að leggja fyrir þingið á næsta hausti frv., þar sem sumpart væri fylgt samþykkt mþn. í skólamálum. En n. hefur ekki enn fullgert þau ákvæði frv., sem varða húsmæðrafræðsluna. Það er enn á undirbúningsstigi og n. ekki búin að gera það upp við sig, hvaða stefnu þar beri að taka, hvort fara beri inn á þá leið, sem þingið vill beina málinu inn á, ef það samþ. þetta frv., að hafa skólana marga og smáa eða færri og stærri.

Þar sem almennur áhugi er á því að auka húsmæðrafræðsluna, þá álít ég, að setja beri almennar reglur um þetta mál, en ekki hafa það þannig, að þingið bæti einum og einum skólanum við á þessum eða hinum staðnum. Ef sú skipan er viðhöfð, er hætt við því, að þm. hinna einstöku kjördæma og sveita oti fyrst og fremst sínum tota og sinna umbjóðenda án þess að hafa næga yfirsýn yfir málið.