15.02.1945
Neðri deild: 130. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2744)

104. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Eysteinn Jónsson:

Ég hlýt að vekja athygli á einni áberandi veilu í röksemdafærslu síðasta ræðumanns, sem vill vísa málinu frá. Hv. þm. ber það fyrir sig, að ekki sé rétt að taka upp þá stefnu nú að ekki meira rannsökuðu máli, að húsmæðraskólarnir skuli vera margir og fremur smáir í stað þess að vera fáir og stórir. Hins vegar sagði hv. þm., að hann væri samþ. húsmæðraskóla í N.-Þingeyjarsýslu. Hann sagði enn fremur, að mþn. í skólamálum hefði fengið þetta mál til meðferðar og gefið upp álit sitt um, að hún mælti með stofnun þessa skóla. — Ég get ekki komizt hjá því að benda hv. þm. á, að með því að lýsa yfir, að hann sé samþykkur stofnun húsmæðraskóla í N.-Þingeyjarsýslu, og með því að lýsa yfir, að mþn. í skólamálum sé einnig samþykk stofnun þessa skóla, þá hafa bæði hv. þm. og mþn. valið milli þessara tveggja stefna, því að það er ekki hægt að vera með því að stofna húsmæðraskóla á þessum stað, þar sem þessi skóli yrði settur niður mitt á milli húsmæðraskólans á Laugum og húsmæðraskólans á Hallormsstað, nema sá, sem með því er, hafi valið þá stefnu að hafa húsmæðraskólana marga og fremur smáa. (SigfS: Ég tel ekki útilokað, að þessi skóli verði sóttur víðar að en úr N.-Þingeyjarsýslu.) Þetta er vægast sagt útúrsnúningur, því að það dylst engum, ef taka ætti upp þá stefnu að hafa skólana fáa og stóra, að ekkert vit væri í því — út frá þeirri stefnu — að setja niður húsmæðraskóla í N.-Þingeyjarsýslu mitt á milli Lauga og Hallormsstaðar. Það er alveg gefið mál, að með því að mæla með stofnun þessa skóla hefur mþn. tekið afstöðu varðandi þessar tvær stefnur. Og hver ímyndar sér, — þar sem mþn. er búin að mæla með stofnun húsmæðraskóla í N.-Þingeyjarsýslu, eins og þar er ástatt, — að n. gæti þá mælt á móti mörgum öðrum af þeim skólastofnunum, sem ráðgerðar eru í frv.? Með því að mæla með þessari skólastofnun í N.-Þingeyjarsýslu hefur verið valið milli þessara tveggja stefna, sem hér koma til greina, og er þess vegna alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að vísa þessu máli frá til frekari athugunar um það atriði. Stefnan hefur nú þegar verið tekin af mþn. í skólamálum og meiri hl. Alþ. með þeirri afgreiðslu, sem málið hefur fengið hér. — Um hitt má svo ræða, hvort tekizt hefur að setja inn í frv. heppilegar skólastofnanir, en ég mun ekki ræða það nánar, enda ekki stórfelldur skaði skeður, þótt endurskoðuð yrðu ein og önnur ákvæði l., þegar málið kemur til frekari meðferðar í sambandi við fjárveitingar til skólanna.

Vil ég því eindregið vonast eftir því, að þessu frv. verði ekki vísað frá.