13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2755)

129. mál, jarðræktarlög

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. — Ég hafði ekki ætlað að taka til máls um þetta frv. En af því að hv. form. landbn. beindi til mín fyrirspurn um, hvaða leið stjórnin hygðist fara í þessu máli, vil ég segja nokkur orð.

Hér er um mikið nauðsynjamál að ræða. Það er nauðsynlegt að keppa að því, að allur heyskapur fari fram á ræktuðu landi, og virðist boginn ekki spenntur of hátt í þessu efni með þessu frv. Á þeim 25 árum síðan jarðræktarl. voru sett, eða einkum síðustu 20 árin, hefur jarðrækt aukizt mjög, enda má segja, að ekki var um nokkra ræktun að ræða áður eða svo að nokkru næmi. Eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, hefur verið sléttað og nýræktað land, sem nemur 21500 ha. á síðustu 20 árum, því að ekki mun hafa kveðið mikið að ræktun fyrstu 5 árin eftir að jarðræktarl. voru sett. Það liggja einnig fyrir upplýsingar, sem ég á raunar bágt með að trúa, sem sé, að meðalbýli gefi af sér 200 hestburði af töðu. Þetta mun vera tekið eftir niðurstöðum fasteignamatsnefndar. Virðist þetta svo lág tala, að um lágmark hlýtur að vera að ræða. Vantar því 400 hesta heyskap á meðalbýli til þess að hafa 600 hesta heyskap af véltæku landi, og svarar það til þess, að þyrfti að rækta 6,6 ha. á hverju býli eða 33687 ha. Er það álit ræktunarráðunautarins, að til þess að frv. þetta nái tilgangi sínum þurfi að auka ræktunina þetta mikið, og er þá miðað við, að 1 ha. lands gefi af sér 60 hestburði í meðalári, og þykir mér það undarlega há tala, þegar miðað er við, að nú er talið, að árið 194~4 sé stærð túna talin vera 37000 hektarar og töðufengur 1300000 hestburðir, eða rúmlega 30 hestburðir af hektara. Það verður að gera meira til að ná þessu setta marki. Þótt ég efist ekki um, að menn greini ekki á um, að heyskapur verður að fara fram á ræktuðu landi, ef vel á að fara, þá greinir menn á um, hvernig á að ná þessu marki. Hv. form. landbn. vill láta hækka jarðræktarstyrkinn til þess að örva bændur til að leggja vinnu í jarðabætur.

Hv. þm. A-Húnv. og hv. 1. landsk. vilja láta ríkið annast frumjarðvinnsluna, en láta félög bænda taka þá við. Það má færa ýmis rök með og móti þessum aðferðum. Ég hefði helzt aðhyllzt þá stefnu, þá trú, sem bent er á í nál. 630, af því að ég hef þá trú, að með því móti verði ræktunin framkvæmd meira en annars eftir ákveðnum reglum, en ekki að láta ábúendur sjálfa ákveða, á hvern hátt ræktunin er framkvæmd og láta ríkið svo taka að sér fjárhagshliðina. Ef sú leið yrði farin, sem bent er á í nál. 630, færi fram athugun á því, hvernig heppilegast væri að rækta, og framkvæmdirnar yrðu bundnar þeim stöðum, sem bezt eru til ræktunar fallnir. Sums staðar hafa jarðir, sem búið var að vinna töluvert mikið af jarðabótum á, farið í eyði og ekki byggzt aftur. Er ömurlegt til þess að vita. Þótt ég játi, að nauðsynlegt er, að áfram sé haldið með ræktun landsins, efast ég um, að mál þetta sé nægilega undirbúið til þess að ráðizt verði í framkvæmdir á þeim grundvelli, sem hér um ræðir. Mér finnst ekki liggja fyrir nægar upplýsingar um, hvað það kostar ríkið að standa undir þeim kostnaði, sem af framkvæmdunum leiðir, hvor leiðin sem valin yrði.

Eftir þeim áætlunum, sem landbn. hefur haft fyrir sér, virðist kostnaður fyrir ríkissjóð með þeirri aðferð, sem frv. gerir ráð fyrir, vera 2555 kr. á hvern ha. Aftur á móti, ef farin er hin leiðin, sem gert er ráð fyrir á þskj. 630, virðist þessi kostnaður mundi verða 2790 kr. eða 235 kr. hærri á ha. en eftir till. frv. En af kostnaði samkvæmt brtt. er áætlað, að þurrkunarkostnaðurinn einn verði 2330 kr. á hvern ha., en jarðvinnslan ekki nema 460 kr. Það liggur því í augum uppi, að þar sem hægt er að taka þurrt land til ræktunar og ekki þörf framræslu, verði kostnaðurinn miklum mun minni. Nú liggja hins vegar engar upplýsingar fyrir um það, og ég held ekki þeirra að vænta, því að til þess þarf mikla reynslu, að hve miklu leyti mundi verða hægt að vinna þurrt land, og að hve miklu leyti þyrfti að ræsa fram. En á þessu veltur það mjög, hvor aðferðin yrði ríkissjóði hagkvæmari fjárhagslega. Ef gert væri nú ráð fyrir því, sem að vísu liggja enn engar áætlanir fyrir um, að hægt væri að vinna helminginn á þurru landi, aðallega þar sem enga framræslu þyrfti, og hinn helminginn á mýrum, þar sem þyrfti fulla framræslu, þá skilst mér, að samkvæmt till. á þskj. 630 mundi heildarkostnaðurinn, þ. e. a. s., ef við höldum okkur við það, að hver ha. af unnu landi gæfi af sér 60 hestburði, verða 35 millj. og 750 þús. kr. Ef gert er ráð fyrir, að þetta eigi að fara fram á tíu árum; þá múndu þau útgjöld nema 3 millj. kr. á ári. En það er ákaflega hætt við, að þetta sé of lágt áætlað, því að það er ekki mjög víða, sem þannig hagar til, að nægilega mikið sé heima við gömlu túnin af landi, sem hægt er að taka til vinnslu án þess að þurfi að ræsa það fram. Víða kannske hagar þannig til, að hægt er að fá smá landsvæði, sem ekki þarf að ræsa fram, en sennilega verður það þó miklu óheppilegra í framkvæmdinni að hafa hið ræktaða land á fleiri stöðum en í beinu áframhaldi af gömlu túnunum. Aftur á móti finnst mér, þó get ég ekki áttað mig á því, að ég fari rétt með, en hv. form. n. leiðréttir þá, að í þeim áætlunum, sem hér liggja fyrir, sé gert ráð fyrir, að jarðræktarstyrkurinn geti komizt upp í 6 millj. og 650 þús. kr. (BÁ: Það er lagt til grundvallar, að allt sé fullframræst.) Það er sennilegt. Það sýnist of djarft að áætla ekki nema helming landsins, sem þurfi að þurrka, en aftur á móti sýnist nokkuð hátt farið, að það þurfi fulla framræslu á öllu landinu. Þótt þessi kostnaður verði talsvert lægri, þá verð ég að segja það, að eins og hag ríkissjóðs er nú komið, þá veit ég ekki vel, hvar á að taka það fé, og það er að minnsta kosti ekki langt síðan að heyrðust nokkuð margar raddir um það, að erfitt mundi að standa undir öllum þeim útgjöldum, sem þegar er búið að skapa ríkissjóði, enda er það sjálfsagt rétt, og það mundi þá líka verða þungt fyrir fæti, ef ætti að bæta svo stórfelldum útgjöldum við sem hér er um að ræða. Þegar þessa alls er gætt, og þá fyrst og fremst, að það er ákaflega mikið á reiki, hvað þetta í raun og veru kostar, enda naumast hægt a telja, að nægileg athugun hafi farið fram á því, hvor af þessum tveim leiðum, sem stungið var upp á, væri heppilegri, því að það eru ekki nema nokkrir dagar síðan stungið var upp á síðari leiðinni, að láta ríkissjóð annast alla framræslu, — þegar þessa alls er nú gætt, eins og ástandið er nú, þá er ekki hægt að benda á, hvar taka ætti svo mikið fé sem frv. gerir ráð fyrir. Og þar sem þetta mál er talið svo mikilvægt, þá verð ég að segja, að mér finnst, að undirbúningur þess sé tæplega svo góður, að hægt sé að svo stöddu að láta þetta mál ná framgangi, og mér finnst réttara að taka það til rækilegrar athugunar fyrir næsta þing, á hvern hátt sem það yrði gert. Maður gæti látið sér koma í hug, að því væri vísað til nýbyggingarráðs eða til ríkisstj. til frekari athugunar, eða búnaðarþings, ég skal ekki segja um, hver af þeim leiðum væri skynsamlegust. Það yrði þá jafnframt athugað, á hvern hátt væri hægt að ná nægilega miklu fé í ríkissjóð til þess að standa undir þeirri byrði, sem með þessu yrði lögð á ríkissjóð.