13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2764)

129. mál, jarðræktarlög

Skúli Guðmundsson:

Hv. frsm. svaraði fyrirspurnum mínum og taldi undir atvikum komið, hvort félög bænda eða ríkið hefðu framkvæmdirnar með höndum. Ég held, að óheppilegt sé að hafa þetta hvort tveggja saman, og hefur hv. þm. Borgf. bent á, hve varhugavert fyrirkomulag það sé. Töluverðir gallar fylgja því, ef allt yrði unnið af ríkinu. Hitt, að allt sé unnið af samtökum bænda, hygg ég sé raunar eina færa leiðin. Við vitum ekki, hvað ríkið leggur fram til kaupa á ræktunarvélum. En farið gæti það svo, að ýmsum bændum í landinu þætti nokkuð löng biðin ef tir því, að ríkið léti vinna fyrir þá með vélum sínum og vinnuflokkum. Ég teldi það illa farið, ef þannig yrði gengið frá málinu, að bændur eða félög þeirra gætu ekki fengið stuðning til að koma á ræktun hjá sér, heldur yrðu að bíða, þangað til ríkið hefði hentugleika til að senda þeim þá vinnuflokka, sem það héldi í þjónustu sinni. Það mun bezt fara, að bændur hefðu þarna frumkvæðið og framkvæmdirnar.