23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (2779)

129. mál, jarðræktarlög

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Mér þótti viðkunnanlegra að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég býst við, að í sjálfu sér séu ekki skiptar skoðanir um, að nauðsyn sé fyrir landbúnaðinn að auka ræktun landsins. Ég hef lengi ekki verið í neinum vafa um, að framleiðslan til landbúnaðarins veltur á því, hvort honum tekst að koma nægilega miklu landi í ræktun og heyskapur geti að mestu leyti farið fram á ræktuðu véltæku landi. Þetta eru sem sagt ekki skiptar skoðanir um. Hitt geri ég ráð fyrir, að séu frekar skiptar skoðanir um, að hve miklu leyti bændastéttin sé fær um á eigin spýtur að annast ræktun lands síns. Því verður ekki neitað, að á síðari árum hafa orðið geysilegar breyt. á efnahag bændastéttarinnar. Hún hefur losnað úr skuldum og að því er virðist aflað sér talsverðra sjóða. Samt sem áður dreg ég ekki í efa, að mjög æskilegt væri, að ríkissjóður gæti veitt meira fé en gert hefur verið á undanförnum árum til ræktunar landsins. Á síðasta ríkisreikningi, 1941, eru gjöld samkv. jarðræktarlögunum nálega 320 þús. kr. Síðan hafa þau aukizt nokkuð við lækkað peningagildi, en í frv. því, sem liggur fyrir hér á þskj. 708, er gert ráð fyrir, að þessi útgjöld hækki upp í 6 millj. kr., eða eftir því, sem fram kom í Nd., rúmlega það á ári.

Það líður nú varla sá dagur, að ekki heyrist rætt um það hér á hæstv. Alþ., að fjárhagur ríkisins sé kominn í öngþveiti og að teflt sé á tæpasta vaðið um fjárhagsafkomu ríkissjóðs á yfirstandandi ári. Þó að þetta sé að ýmsu leyti orðum aukið að því leyti, að hagur ríkissjóðs er í sjálfu sér engan veginn slæmur núna, og hefur jafnvel kannske 2 til 3 síðustu áratugina aldrei verið þetri en nú, þá verður því hins vegar ekki neitað, að eins og nú stendur, á ríkissjóður í talsverðum fjárhagserfiðleikum. Eins og reynslan hefur sýnt, er mjög erfitt að afla þeirra tekna, sem óhjákvæmilegar eru til að standa undir þeim útgjöldum, sem ríkissjóði er bakað á síðari árum. Ég sé ekki, hvernig á að afla tekna til þeirra útgjalda, sem ætlazt er til með þessari löggjöf. En ég vil hins vegar ekki láta ríkissj. taka á sig skuldbindingar, sem ekki eru horfur á, að hann geti staðið við. Ég geri einnig ráð fyrir því, ef horfið yrði að því ráði að auka svo mjög sem hér er lagt til framlög til ræktunar landsins, þá mundi reynast óhjákvæmilegt að skera niður önnur framlög, sem nú eru veitt til landbúnaðarins. Samkvæmt fjárl. 1945 eru þessi útgjöld 8 millj. kr., þar með talin skógrækt, sem ekki er hægt að segja, að gangi beinlínis til landbúnaðarins, en fyrir utan allar uppbætur rúmar 8 millj. kr. Ef horfið yrði að því ráði að auka framlag til jarðræktar og skera niður eitthvað af þeim framlögum, sem nú eru veitt til landbúnaðarins, þarf athugunar við, hvaða liði ætti helzt að skera niður, en það hefur enn þá ekki verið athugað nægilega. Auk þess tel ég frv. þetta þurfa nánari athugunar en það hefur fengið, og mun ég því, þrátt fyrir það þó að ég viðurkenni fullkomlega þá nauðsyn, sem á því er að auka ræktun landsins, greiða atkv. með dagskrártill. annarri hvorri, sem fyrir liggur. Ég tel ekki miklu máli skipta, hvor dagskrártill. yrði samþykkt.