23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2780)

129. mál, jarðræktarlög

Jónas Jónsson:

Ég vil segja fáein orð út af hinni stuttu ræðu hæstv. fjmrh.

Ég get vel skilið þann hluta ræðu hans, sem lýtur að því, að það sé örðugt með peninga. En á hinn bóginn er verið að tala um stórmiklar framkvæmdir á þessu sviði, t. d. að reisa nýjar síldarbræðslur á stöðum, þar sem ekki er höfn. Þannig að það, sem hlýtur að verða matsmál fyrir Alþ. og stj., er það, hvað þetta kosti fyrir framtíðina.

En fyrst hv. 3. landsk. þm. er kominn í d., vildi ég segja fáein orð út af hans ræðu. Hann hélt því fram, að honum litist ekki á það skipulag að halda við byggðinni eins og hún er. Hann hugsar sér, að þetta gæti verið öðruvísi, það væri hægt að taka það bezta af landinu o. s. frv. Þetta finnst mér vera mjög æskilegt, að sé tekið til athugunar nú meðan þetta mál er til umr., vegna þess að þessi röksemd sýnist vera mjög álitleg á yfirborðinu. En ég verð að hryggja hv. þm. og d. með því að segja, að allt, sem hefur verið gert í þessa átt með það bezta úr landinu, hefur endað þannig, að það er verri útkoma á því en jafnvel á býlum, sem búið er að basla við í þúsund ár. Ég ætla að taka tvö dæmi: Annað hefur hv. þm. átt nokkurn þátt í að framkvæma, en hitt dæmið er nær okkur, í Mosfellssveitinni. Hin svokallaða Síbería í Flóanum var gerð á þeim tíma, þegar hv. 3. landsk. var ráðh., þá var hann atvmrh. og sá um það, sem gert var á þessum stað. Með þessum framkvæmdum í Flóanum var stefnt að því, sem hv. þm. hefur alltaf verið að tala um. Ég þarf ekki að fara lengra út í þetta, og ég vil ekki segja, að þau missmíði, sem áttu sér stað í Síberíu, hafi verið hv. 3. landsk. að kenna, því að þá var samstjórn Framsfl. og Alþfl. Það voru þrír menn, sem aðallega virtust bera ábyrgðina á þessu verki, Ásgeir L. Jónsson, ráðunautur, Hermann Jónasson, landbrh. og Haraldur Guðmundsson, sem þá fór með atvinnumálin og lagði til vinnukraftinn. Þetta land var valið eftir þessum reglum. Það er samfellt sléttlendi og liggur rétt hjá akbrautinni til Eyrarbakka, og í þetta land hafa verið sett nokkur hundruð þúsund kr. En niðurstaðan er sú, að eftir mörg ár er þetta land ónothæft. Það er búið að grafa í það skurði, sem fyllast af vatni á vorin, svo að það er illfært þar um að komast. Nú vil ég benda hv. þm. á það, að þetta mun vera eina tilraunin, sem íslenzka ríkið hefur gert í þessa átt, og hún er þannig, að það er ekki enn kominn fram sá maður eða kona á Íslandi, sem veit, til hvers á að nota þetta land, því að það er alls ekki hægt að nota landið til búskapar.

Kemur þá hitt dæmið, sem er annars eðlis. Thor Jensen tekur sér fyrir hendur að sýna það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Hann kemur á stórfelldri ræktun á Korpúlfsstöðum, hér nærri Reykjavík, þar sem hægt er að hafa fullkomnustu véltækni. Hann ræktar og ræsir fram stóra landfláka, og þetta er betra land til ræktunar en Síbería. Hann byggir stórhýsi og rekur þarna eitthvert stærsta kúabú á Íslandi. En svo kaupir bæjarstjórn Reykjavíkur þessa jörð, Korpúlfsstaðina, og þó að verkamannaflokkarnir hafi ekki nema 7 fulltrúa þar á móti 8, er ótrúlegt annað en að þeir hefðu getað komið því til leiðar að hafa þar þann búskap, sem þeir telja, að eigi að koma í stað gamaldags búskapar, og þarna eru þau allra beztu skilyrði til nýtízkubúskapar, sem hægt er að hugsa sér. En nú skal ég segja hv. þm., hvernig er ástatt í þessu dæmi, þar sem ætti að vera fyrirmyndarbýli. Nú eru örfáar skepnur á Korpúlfsstöðum, túnið var í sumar leigt til slægna, og þegar búið var að flytja burtu töðuna, var túnið leigt út sem hestabeit. Húsnæðið hefur verið notað til geymslu fyrir skran úr Reykjavík og sumpart verið leigt fyrir fávita. Þó var þar allt, sem nauðsynlegt var til þess að reka nýtízkubúskap. En þetta er frá búskaparlegu sjónarmiði versta meðferð, sem nokkurn tíma í sögu landsins hefur verið viðhöfð við nokkurt stórbýli.

Ég verð að segja það um hv. 3. landsk. og ræðu hans, að það hefði getað verið skemmtilegt að hlusta á hana, ef maður hefði ekkert vitað um málið annað en það, sem hann sagði. En það er sá beizki sannleikur, að ríkið hefur gert þessa tilraun, og nú er þetta býli í höndum bæjarstjórnar Reykjavíkur, og ég sé ekki annað en að þessi dæmi séu það eina, sem til eru til þess að sanna, hvernig slíkur stórbúskapur hefur gengið. Ég get tekið dæmi til viðbótar. Í Vestmannaeyjum er verið að byggja fjós yfir 50 kýr, og þeir, sem þar eru kunnugir, telja, að mjólkurlítrinn þurfi að kosta 4 kr., vegna þess hvað framleiðslukostnaðurinn er mikill. Fólkinu í bæjunum fjölgar alltaf, og það mun komast að þeirri niðurstöðu, að ef það getur ekki fengið mjólkina frá Ameríku, þá verður það að sætta sig við að fá hana frá þessum búskap, sem dreifður er um allt landið. Ég vil segja hv. 3. landsk. og þeim, sem segja, að allt sé óskaplega ófullkomið í sveitunum, hvernig véltæknin er hjá okkur hér í Reykjavík. Muna menn, hvernig það var hér við höfnina áður en Bandaríkjamenn komu? Sjómenn urðu stundum að draga fiskinn á sjálfum sér eða kasta honum úr bátunum upp á bryggjuna, og þar tók annar við. Við skulum játa, að okkur vantar á öllum sviðum, bæði í bæjum og sveitum, meiri tækni.

Fyrst verið er að tala um þessa hluti, er ekkert á móti því að segja eitt dæmi úr sveit, þar sem ég var kunnugur s.l. sumar. Það er oft talað um, að það vanti smjör og mjólk. Þarna var nokkuð myndarlegur búskapur, en fólkið var fátt og það vann ákaflega mikið. Konan fór á fætur kl. 5 á morgnana, mjólkaði kýrnar og fór svo 3 tíma út að raka. Svo þurfti hún að hugsa um matinn, þurfti svo aftur að mjólka á kvöldin og fór ekki að hátta fyrr en kl. 12–1 á kvöldin. Það má segja, að þetta sé þrældómur, en þetta er þó alveg rétt lýsing á því, hvernig þetta fólk vinnur. Ég álít, að kenningar hv. 3. landsk. og margra fleiri þm. séu byggðar á röngum hugmyndum um það, hvað hægt er að gera hér á landi í þessum efnum. Þeir halda, að það sé hægt að koma hér á stórfelldri ræktun með vélum í kringum bæina, en reynslan hefur sýnt, að sú tilhögun er ekki heppileg.

Það verður að taka tæknina í þjónustu framleiðslunnar úti um hinar dreifðu byggðir landsins, það hlýtur að verða veigamikill grundvöllur undir íslenzku þjóðlífi.