23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2782)

129. mál, jarðræktarlög

Frsm. 2. minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hefði löngun til að ræða við hv. þm. S-Þ. um það efni, sem hann tók til meðferðar í ræðu sinni, því að ég hygg, að þar gæti nokkurs misskilnings á báða bóga. En tími gefst ekki til þess. Þó vil ég minna hv. þm. á það, að þegar talað er um landbúnað á Íslandi, er rétt að gera sér grein fyrir því, að það gildir ekki það sama um sauðfjárrækt og kúabú og ýmislegt annað, sem landbúnaðurinn hefur tekið yfir á seinni árum, svo sem ræktun alifugla o. fl. Til þess að nokkur von sé til þess, að nautgriparækt gefi þann arð, sem þarf til þess að menn vilji stunda þann atvinnuveg, hygg ég, að allir séu sammála um, að það sé nauðsynlegt, að innanlands séu nærtækir markaðir fyrir slíka framleiðslu. Það mun sýna sig, að framleiðslan gefur betri arð með því að hún sé stunduð að mestu leyti á ræktuðu landi heldur en á hálfræktuðu eða óræktuðu landi. Þess vegna á fyrst og fremst að taka það land til ræktunar, sem bezt hentar fyrir hverja framleiðslugrein fyrir sig. Nautgriparækt á að stunda þar, sem það hentar bezt, og sauðfjárrækt þar, sem hún hentar bezt. Á öðrum stöðum, þar sem sauðfjárræktin er meginþátturinn í búskapnum, má nota víðáttuna og beitilöndin. Það verður að meta landið eftir því, til hvers það er nothæft.

Ég geri ekki ráð fyrir, að það hafi átt að skilja ræðu hv. þm. þannig, að hann álíti, að halda ætti búskapnum áfram í svipuðu formi og verið hefur, enda þótt vel mætti skilja hana svo.

Raunar er það svo, að sú tækni, sem víða er komin á, sýnir svo ljóslega yfirburði vélavinnunnar fram yfir það, sem verið hefur, að ekki mun líða á löngu, unz nýtízkubúskapur verður rekinn víðast hvar. Ég hef séð búskap, þar sem allt var unnið með vélum, ekki bundinn nokkur baggi né snertur ljár. Með slíkum aðferðum sparast vinnukraftur, og tilkostnaður við framleiðsluna verður miklu minni. En slík vinnubrögð heimta, að hver tegund búskapar sé rekin þar, sem skilyrðin eru bezt, á þann hátt fæst mest fyrir sem minnsta vinnu. Hv. þm. sagði, að sú reynsla, sem fengin væri af stórbúskap hér á landi, sýndi, að þetta væri vitleysa, og tók tvö dæmi því viðvíkjandi. Annað var Síbería í Flóanum, en það er áveitusvæði frá 1937. Hann taldi þetta landsvæði nú einskisvert. Ég hygg þó, að þetta sé ekki rétt. Það mun vera mikið sótt eftir þessum spildum, meðal annars frá Eyrarbakka, enda fæ ég ekki séð, þótt spildurnar séu ekki meira en 75 m breiðar og skurðir á milli, að það torveldi á nokkurn hátt nytjar þessa lands, því að auðvitað má brúa þessa smáskurði. Í öðru lagi mun það svo, að ekkert hefur verið gert til að þetta land yrði nytjað sem skyldi. Það hefur meðal annars verið látið vanta áburð.

Af þessu er ljóst, að hér er ekki um heppilegt dæmi að ræða.

Sama máli gegnir einnig um Korpúlfsstaði. Um búskap bæjarins á þessu landi verður enn ekkert sagt, þar eð hann er naumast byrjaður. Þar munu vera um 50 gripir, sem voru taldir heppilegur stofn, en eru enn þá í uppvexti. — Varðandi það, að ræktunin þar sé að engu orðin, þá er það vitanlega ofmælt. Meðalheyfengur af túnum er 50 hestar af hektar. En eftir því sem upplýst er nú, er verið að undirbúa þar búrekstur, og ég veit ekki til, að ræktun þar hafi spillzt að verulegu leyti. Hitt, til hvers húsin eru nú notuð, kemur þessu máli ekki við.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að sinni. En viðvíkjandi ummælum hæstv. ráðh. um vafasama getu ríkissjóðs, þá virðist mér auðsætt, að því meiri nauðsyn sé að verja þessu fé rétt og láta það koma þar niður, sem heppilegast er.