23.02.1945
Efri deild: 135. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (2786)

129. mál, jarðræktarlög

Jónas Jónsson:

Ég er nú ánægður með ýmisleg, sem hv. þm. Barð. sagði um þessi mál. Við erum báðir aldir upp í dreifbýli og lítum því á málið frá líkum sjónarmiðum. En ég fæ ekki séð, að það sé nokkuð hættulegt, þótt málið gangi fram eins og það liggur fyrir nú.

Það, sem okkur ber ekki saman um, eru einkum söguleg atriði, og í því vil ég leiðrétta hv. þm. lítillega. Við erum sammála um það, að sá búskapur, sem verkalýðsflokkarnir mæla með, sé bæjarbúskapur og félagsbúskapur, sem rekinn sé í nágrenni kaupstaðanna. Á svona 100 hektara landi í Síberíu mætti koma á búskap, sem fyrir þeim vakir. En það hefur ekki verið gert, og það stafar ekki af því, að óheppilegir staðhættir séu fyrir hendi, heldur vegna þess, að hugur Íslendinga stefnir ekki til slíkra framkvæmda. Og það er aðalatriðið. Ég býst við, að hv. þm. Barð. viti, að helzti áróðursmaður þessarar stefnu, Halldór Kiljan Laxness, rithöfundur, hefur haldið því fram, að Korpúlfsstaðabúskapur væri sú fyrirmynd, sem hér ætti að stefna að. Ég hef skilið skáldið svo, að búið á Korpúlfsstöðum væri svo stórt, að þar væri hægt að nota allar hugsanlegar vélar, sem til búskapar eru notaðar, og það væri aðalatriðið. Í þessu sambandi álít ég, að ekki mundi spilla, þótt þessi búskapur Halldórs Kiljans og hans fylgismanna væri athugaður dálítið með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af ríkisbúunum á Kleppi og Vífilsstöðum og á bæjarbúunum á Siglufirði og Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Það er langt síðan byrjað var að reka búin á Kleppi og Vífilsstöðum, og þetta eru stórbú og myndarlega rekin. En þau bera sig aðeins þannig, að reksturinn rétt flýtur, þótt ríkið leggi til landið og húsin alveg án endurgjalds. Maður gæti hugsað sér, hver útkoman væri, ef búin ættu að standa undir landinu og byggingunum. En ástandið er nú þannig, að verkalýðsflokkarnir eru búnir að sprengja svo upp kaupið, að landbúnaðurinn er eiginlega ekki lengur arðbær atvinnuvegur. Í höndum einstakra manna yrði reksturinn allt öðruvísi settur en hjá ríkisbúunum. Þar yrði hann að standa undir kaupum á landinu og ræktun þess og byggingum og fleiri kostnaðarliðum. Þess vegna er það ekki sambærilegt vegna aðstöðumunar að bera saman búin á Kleppi og Vífilsstöðum og einstaklingsrekstur. En búin rétt hjá bænum bera sig ekki nema þau séu rekin af einstaklingum. Það má segja um búin á Siglufirði og Ísafirði, að þau séu illa sett vegna þess, að þau eiga að búa við mikinn skort á landrými og erfiðar kringumstæður. En reynslan af rekstri þeirra sýnir þó, að það er ekki nóg, að búin séu rekin rétt við kaupstaðina. Þó hefur búið í Vestmannaeyjum farið verst út úr þessu, því að það hefur verið að byggja hús og rækta. Ég vil nefna þessi dæmi til þess að sýna það, að á Íslandi ber ekkert bú sig, sem rekið er eftir fyrirmynd Halldórs Kiljans og hans manna. Það var þetta, sem ég ætlaði að sanna.

Það, sem sameinar okkur þm. Barð. og mig, er það, að við trúum því, að það sé ómetanlegt fyrir menningu þjóðarinnar, að dreifbýlinu sé haldið við með heimilum sínum og atvinnurekstri og húsakosti, eftir því sem kröfur tímans eru hverju sinni.

En svo er það sögulegt atriði, sem ég þarf að skýra fyrir hv. þm. Hv. þm. gengur með einhverja gamla hugaróra frá baráttuárunum um mjólkurlögin. Það virðist eins og þeir villi honum sýn. Hann vill halda því fram, að mjólkurl. og Framsfl. hafi drepið búskapinn hér í nágrenni Reykjavíkur og gert ómögulegt að reisa við búið á Korpúlfsstöðum. En ég vil minna hv. þm. á, að nokkru frá Korpúlfsstöðum rak Magnús á Blikastöðum mikið bú, og allt gekk vel, enda var Magnús duglegur og útsjónarsamur maður um þessi efni. Og það, sem fór með búskapinn á Korpúlfsstöðum, var ekki mjólkurlöggjöfin, heldur það, að á jörðinni urðu mannaskipti. Thor Jensen var orðinn gamall maður og gat ekki lengur haldið áfram að sjá um rekstur þessa mikla bús. En ástæðan til þess, að Reykjavíkurbær reisir ekki búið við, er blátt áfram sú, að kaupgjaldið er búið að sprengja búskapinn, ekki aðeins þar, heldur líka alls staðar undir áhrifum setuliðsvinnunnar og annarra slíkra breytinga, svo að heita má ómögulegt að reka bú annars staðar en þar, sem fjölskyldan heldur saman. Ef reisa á við búið að Korpúlfsstöðum, veltur mest á því að fá hæfan mann til að stýra því. Ef borgarstjórinn í Reykjavík bæði mig að útvega mann til þess að standa fyrir búinu, þá mundi ég svara, að ég væri ekki reiðubúinn til þess, þótt ég þekki menn víða um land og marga ágæta búforka. Það er búið að sprengja allan landbúnað í nágrenni Reykjavíkur og stærri kauptúna. Það er útskýringin.