08.03.1944
Efri deild: 24. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

27. mál, skipun læknishéraða

Páll Hermannsson:

Herra forseti. — Ég kvaddi mér hljóðs sérstaklega til þess að láta í ljós það álit mitt, að umr. og sennilega umhugsun um þetta mál hefði snúizt meira um aukaatriði en aðalatriði. Mér finnst, að aðalatriði þessa máls sé það, að svo stendur nú á í þessu landi, að allmargir þegnar í landinu eiga engan aðgang að læknisþjónustu. Ég veit ekki, hve sá hópur manna er stór, en ég gizka á, að 5–10% allra landsmanna séu svo settir, að svo megi að orði kveða, að þeir geti ekki fengið læknisþjónustu. Ég efast ekki um, að allir hv. þm. viðurkenna, að úr þessu þurfi að bæta. Menningarþjóðfélag getur ekki horft á það aðgerðarlaust, að slíkt geti átt sér stað. En mér virðast þessar umr., sem hér hafa farið fram um það mál, sem hér liggur fyrir, ekki hafa snúizt aðallega um þetta, sem var þó tilefni þess, að málið var flutt á hæstv. Alþ., heldur miklu frekar um annað, sem sé, hvernig og hvar beri að skipta læknishéruðum, t.d. eins og hér í Árnessýslu og á Reykjanesi. En fólkið, sem enga læknishjálp getur fengið, býr ekki í Grindavík og ekki heldur á Stokkseyri eða Eyrarbakka. Hitt skal svo játað, að um leið og reynt er að ráða bót á þessu mikla vandamáli, algerri vöntun á læknishjálp til handa allmörgu fólki í landinu, þá er eðlilegt, að læknishéraðaskipunin í landinu yfirleitt sé nokkuð yfirveguð líka og reynt að bæta úr ágöllum, sem smærri eru en þessi algera neyð, sem sumt af landsfólkinu býr við í þessu efni.

Ég vil vekja athygli á því, að Fljótsdalshérað stendur líklega einna verst að vígi í þessu efni. Þar eru tvö læknishéruð. Annað þeirra hefur læknisbústað, en engan lækni, en hitt hefur lækni, en engan læknisbústað. Ég upplýsi það hér, að fólkið í þessum héruðum kemur sér ekki saman um þær umbætur, sem þarna þarf að gera, þ.e.a.s., fyrir umbótum í þessu efni fæst ekki meirihlutafylgi þar heima í héraði, nema læknissetrið sé fært til. Og það er ekki fullkomlega samkomulag um það heldur. En það er varla meira en einn fjórði partur hlutaðeigandi fólks, sem vill láta reisa aftur læknisbústað á Brekku, en sennilega þrír fjórðu hlutar, sem vilja láta flytja læknissetrið. Hér í þessu frv. er því tekið á réttan hátt á málinu, það sem það nær. Í frv. er sem sagt lagt til að flytja lækninn þangað, sem hann er betur settur fyrir fjöldann af íbúunum. Ástæður hafa breytzt þannig, að læknirinn, sem var vel settur með því að vera á Brekku í Fljótsdal, þegar miðað var við að fara á hestum, hann er illa settur þar nú, þegar miðað er við bílferðir. Og auk þess er hann miklu betur settur við Lagarfljótsbrú, þegar tekið er tillit til þess, að hann á að þjóna báðum héruðunum.

Ég vil biðja hv. þdm. að taka það til fullkominnar íhugunar, að ef frv. þetta stöðvast, þá er fólkið á Fljótsdalshéraði ráðþrota um að gera tilraun til þess að bæta úr hinu slæma ástandi hjá sér í þessum efnum. Þarna eru tvö læknishéruð. Í öðru er læknir að lögum, en enginn læknisbústaður og engin lækningastofa, en í hinu læknisbústaður, en enginn læknir. Og sennilega fer þessi læknir burt, sem þarna er í öðru héraðinu á verðgangi, ef ekki er hægt að ráða bót á í þessu efni. Til þess að bæta úr þessum vandræðum fólksins þarna á þessum stöðum þarf að setja nú þegar lagafyrirmæli á þessum þinghluta, þ.e.a.s., áður en þingi verður nú frestað.

En í sambandi við aðra staði, sem till. hafa komið um viðkomandi skiptingu læknishéraða, er það að segja, að þar er ekki um það að ræða að bæta úr neyð slíkri sem þeirri, er var tilefni þess, að frv. var flutt. Mættu ákvarðanir um að skipta slíkum læknishéruðum því bíða til hausts, því að mér sýnast þau mál ekki vera nægilega vel undirbúin, til þess að varanleg og hyggileg lagafyrirmæli gætu komizt á um þá staði nú.

Að lokum vil ég svo segja þetta: Það má ekki hugsa um þessi mál líkt eins og einn hv. þdm. talaði hér um þau, líklega nú fyrir þrem dögum, — og ég er viss um, að sá hv. þm. hugsar öðruvísi um þau, því að hann sagði, að þetta mál væri merkilegt, og hann tiltók, að það væri merkilegt fyrir afskipti landlæknis af því. En málið er merkilegast vegna þess, að það fjallar um að veita allt að 10% af fólkinu í landinu læknisþjónustu, sem hefur nú enga eða sama sem enga læknisþjónustu.