16.01.1945
Neðri deild: 106. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 207 í C-deild Alþingistíðinda. (2793)

244. mál, vernd barna og ungmenna

Frsm. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Árið 1932 voru fyrst sett lög um barnavernd. Þeim var svo breytt ári síðar. Næsta skref var stigið 1942, þegar sett eru lög um eftirlit með ungmennum og m. a. ákvæði um ungmennadómstól. Þriggja manna nefnd, er ráðh. hafði til þess kvatt, tók löggjöfina alla um þessi mál til endurskoðunar, og vann hún það starf á síðari hluta ársins 1942. Í ársbyrjun 1943 flutti svo þáv. ríkisstj. frv. til 1. um vernd barna og ungmenna. Það frv. fór til allshn. þessarar hv. d. N. tók málið til mjög ýtarlegrar athugunar, aflaði um það umsagnar fróðustu manna og flutti margar brtt. við það, sem allar voru samþ. Málið fór svo til hv. Ed. og dagaði þar uppi. — Nú hefur heilbr.- og félmn. þessarar d. tekið málið upp og haft það til meðferðar um alllangt skeið, rætt það við fyrrv. dómsmrh., Einar Arnórsson, við dómendur ungmennadóms, barnaverndarráð og barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Eftir þessar umr. hefur n. þótt rétt að flytja málið að nýju, í meginatriðum eins og frá því var gengið og það afgreitt héðan úr hv. d. 1943, en með nokkrum breyt., aðallega eftir till. hæstv. dómsmrh. Meginbreyt., sem er í þessu frv. frá því frv., sem samþ. var hér 1943 frá þessari hv. d., er sú, að niður eru felld úr frv. ákvæðin um ungmennadóm. Það hefur verið upplýst, að framkvæmd þess ákvæðis hefur legið niðri, þannig að ungmennadómur er raunverulega lagður niður síðan haustið 1943. Hefur hann ekki starfað síðan. Hefur þess vegna ekki þótt rétt að halda í lögunum slíkum ákvæðum, sem alls ekki væri fram fylgt.

Breyt. þær, sem í þessu frv. að öðru leyti eru gerðar frá gamla frv. og frá gildandi löggjöf, skal ég ekki fara út í á þessu stigi málsins. — Þetta mál var rætt ýtarlega hér í hv. d. á sínum tíma, og vísa ég til grg., sem þá fylgdi frv.

Vænti ég þess, að málið fái góða afgreiðslu. En ég beini því til hæstv. forseta, að það mun vera ósk hæstv. ríkisstj. að ræða þetta mál nokkuð við n. áður en það kemur til 2. umr., og óska ég þess vegna, að það verði ekki tekið á dagskrá alveg næstu daga.