05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (2799)

244. mál, vernd barna og ungmenna

Sigurður Thoroddsen:

Herra forseti. — Þar sem hv. frsm. er veikur, hefur hann beðið mig um að fylgja fram nokkrum brtt., sem hann flytur, í samráði við heilbr: og félmn., á þskj. 1024, og ekki eru mjög veigamiklar.

1. brtt. er um það, að barnaverndarráðsmaður megi ekki veita forstöðu barnahæli né vera í stjórn þess.

Í 2. brtt. segir, að barnaverndarnefnd skuli vera skylt að hafa eftirlit með börnum og ungmennum, sem sérstök ástæða er til að fylgjast með sökum umkomuleysis eða annmarka, a. m. k. tvisvar á ári.

3. brtt. er við 37. gr. og er um það, að ríkisstj. skuli heimilt að setja á stofn og reka hæli, þar sem vistuð skuli börn og ungmenni, sem framið hafa lögbrot eða eru á annan hátt á glapstigum.

4. brtt. er við 43. gr. og er þess efnis, að eftirlitsmaður kvikmynda skuli stimpla úrskurð sinn á seðil, sem fylgi hverri mynd, og gildi sá úrskurður.

5. brtt. er við 56. gr. og segir þar, að barnaverndarráð skuli fela einum ráðsmanna eða sérstökum fulltrúa að vitja til eftirlits hvers hælis eða stofnunar eigi sjaldnar en einu sinni á ári. Ég vil svo mælast til, að brtt. þessar verði samþ.