05.02.1945
Neðri deild: 121. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (2800)

244. mál, vernd barna og ungmenna

Félags- og dómsmrh. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Þetta er mikill lagabálkur og virðist standa til bóta að mörgu leyti.

Þó vil ég benda heilbr.- og félmn. á, að í 16. gr. er barnaverndarnefnd gefin víðtækari heimild til yfirheyrslu en ég tel æskilegt. Segir þar m. a.:

„Barnaverndarnefndarmönnum, fulltrúa barnaverndarnefndar, starfsmönnum og öðrum, er barnaverndarnefnd kann að fela það sérstaklega, er heimilt að fara á heimili og hæli til rannsóknar á högum barns og ungmennis, taka skýrslur af foreldrum eða forráðamönnum þess og kveðja fyrir sig til yfirheyrslu hvern þann í umdæmi hennar, er um kann að bera.“

Nú kemur ekki fram í gr., að til þessa þurfi samþykki barnaverndarnefndar. Ég hefði þó talið viðkunnanlegra, að til slíkra rannsókna þyrfti löglegt samþykki hennar.

Ég hef fengið um þetta umsögn sakadómara, sem ég mun afhenda n., og vildi ég óska, að þessari umr. yrði frestað og n. taki þetta til sérstakrar athugunar.