26.02.1945
Efri deild: 136. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (2817)

244. mál, vernd barna og ungmenna

Jónas Jónsson:

Herra forseti. — Ég álít, að það sé vel til fallið, sem hv. meiri hl. allshn. leggur til, að málið verði rannsakað nánar. Ég vil taka það fram, að undir vissum kringumstæðum er nauðsynlegt að hafa eftirlit með börnum á vandræðaheimilum. En ég veit ekki til þess, að þetta hafi verið leyst á annan hátt hér en að koma þessum börnum fyrir á völdum sveitaheimilum, og þetta hefur reynzt heppilegt fyrir börnin. En hins vegar er það ekki lítil fórn fyrir heimili að taka slík börn, og þótt þetta hafi reynzt vel, þá er þetta mikill vandi fyrir heimilin og jafnvel niðurlægjandi.

Þetta kann að virðast sem meðmæli með frv., en þetta, sem hér er lagt til, er algerlega órannsakað og óreynt og því óhæfa að ætla að lögfesta það. Erlendis hefur þetta reynzt hið mesta vandræðamál og hælin orðið vandræðaheimili, því að fólk hefur ekki fengizt til þeirra, og hafa þau verið sem mild fangelsi, sem vantaði allt hið milda, sem fæst ekki nema með sambúð barna og foreldra. Og ég vil benda á, að hér eru mörg mál, sem eru mjög aðkallandi og þess eðlis, að hægt er að ráða fram úr þeim, svo sem með geðveika menn, fávita og drykkjumenn. Í Vestmannaeyjum eyddi bæjarfélagið 6 þús. kr. til að geyma geðveikan mann, og þetta er svo algengt og liggur svo nærri, að það er höfuðnauðsyn að bæta úr þessu og koma slíkum mönnum á hæli, en til þess vantar húsnæði og fólk til að annast þá. Og það er nú meira að segja svo komið, að ekki er hægt að fá starfsfólk að Kleppi.

Það munu vera um 200 fávitar, sem ekkert hefur verið gert fyrir, nema hvað ein dugleg stúlka rak heimili í Grímsnesi fyrir slíka menn, með þýzku starfsfólki, sem hafði kunnáttu til að annast þá. En þegar starfsfólkið fór, var heimilið lagt niður, og er það skaði, að ekki hefur fundizt brú á milli þjóðfélagsins og þessarar stúlku, sem er þó eina konan, sem hefur þekkingu á þessu.

Ég vil benda hæstv. forseta þessarar d. á það, hvernig fer, þegar mál eru illa undirbúin sem þetta. Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er náskylt því, þegar taka átti húsið á Kleppjárnsreykjum fyrir hæli og kastað 120 þús. kr. til þess að gera læknisbústaðinn í stand. Hér var sett á stofn n. og fáeinir unglingar teknir og settir í hald og síðan sendir upp í Borgarfjörð, að Kleppjárnsreykjum, en urðu þó aldrei fleiri en 10 stúlkur. Þá kom í ljós alger vöntun á skilyrðum til að reka þetta. Forstöðukonan, læknisekkja, vel menntuð og dugleg, og var skynsamlega ráðið, að hún veitti þessu forstöðu, gat ekki við neitt ráðið, eins og þetta var í pottinn búið. Eitt sinn struku stúlkurnar yfir Hvítá, og gekk mjög erfiðlega að handsama þær, en þó gáfust þær upp með þeim skilyrðum, að bíll frá Borgarnesi yrði fenginn til að flytja þær til baka. Forstöðukonan vildi þá ekkert eiga við þetta og tilkynnti það stjórninni, sem þá var þjóðstjórn, en hún gat ekki fengið neitt fólk. Þá kvaðst forstöðukonan mundu koma með stúlkurnar suður, ef ekki yrði úr ráðið, og sendi stjórnin þá konu til þess að taka við hælinu. En nokkru síðar gafst stjórnin upp á þessu, og hælið var lagt niður. Mér skilst, að núv. stj. standi algerlega í sömu sporum og þá, er þetta gerðist, og samt er í ráði að lögfesta stóran lagabálk án frekari athugana á þessu.

Ég skal þá aftur víkja að fávitunum, því að ekki er léttara að fást við þá. Sú eina kona, sem þekkingu hefur á þessu, hyggur að leysa megi þetta vandamál með því að byggja smáhús á Kleppjárnsreykjum fyrir fávita, svo að þarna kæmi nokkurs konar þorp, og væri gott að nota til þessa skála, sem nú fást, og mætti ef til vill fá erlent starfsfólk, ef annars væri ekki kostur: Mér finnst þetta svo mikið böl, að hjá því verði ekki komizt að ráða bót á því sem allra fyrst. Ég minnist í þessu sambandi tveggja heimila á Norðurlandi. Á öðru þeirra er það tvíburi, og er hinn tvíburinn látinn gæta hans, og er auðvelt að skilja, hvaða erfiðleikum slíkt er bundið. Og úr þessu verður ekki bætt nema með hæli fyrir þetta fólk.

Mér skilst, að út frá þessari reynslu væri ekki vanþörf á að láta mál það, sem hér um ræðir, vera lengur til athugunar, því að hér er ekkert tekið fram, hvernig á að taka á þessu. Það hefur ekki einu sinni verið reynt að hafa fræðslumálastjóra með í ráðum um þetta. Menn verða fyrst að gera sér það ljóst, hvernig á að framkvæma þetta, en á meðan ekkert slíkt liggur fyrir, þá tel ég skynsamlegra að leysa fyrst málin um fávita- og geðveikrahælin. Ég skal nefna dæmi um reynslu erlendis í þessu. Mér er kunnugt um eitt heimili fyrir vandræðabörn, nálægt Bergen, þar sem röskur maður var fenginn til forstöðu. Erfiðleikarnir reyndust miklir. Það var reynt að nota kristindóminn til þess að mýkja hjörtu barnanna. Forstöðumaðurinn var alvörumaður, og börnin byrgðu andlit sín, en gerðu gys og hlógu að forstöðumanninum. Þetta sýndi erfiðleikana við starfið, þar sem umhyggju foreldra vantaði. — Það hefur komið til mála, að Reykjavíkurbær keypti eyju á Breiðafirði í þessu skyni, en verið hikað við það af sömu ástæðum og með Kleppjárnsreyki.