22.11.1944
Neðri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2828)

145. mál, iðnaðarnám

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Það stendur ekki á meiri hl. n. að leggja fram þau plögg, sem hafa borizt í þessu máli. En ég hefði haldið, að hv. dm. kærðu sig ekkert um þá tímatöf, sem af því mundi leiða, að kynna efni þeirra skjala, sem fyrir liggja, því að í nál. meiri hl., sem ég vísaði til, er frá því skýrt, til hverra hafi verið leitað og hvernig þessir aðilar hafa tekið í málið með og á móti, og veit ég, að hæstv. ráðh. véfengir ekki þá skýrslu. Hitt taldi ég tímatöf að fara að tíunda þau löngu erindi, sem fyrir liggja í málinu. Annars má, ef það málefni er vakið, gjarnan gera það fyrir mér. Sem sagt, meistarafélag járniðnaðarmanna mælir með samþ. frv., og meiri hl. iðnfulltrúanna mælir með því, og minni hl. fulltrúanna mælir þó ekki á móti framgangi frv., en óskar lítils háttar breyt. á því. Um meistarafélagið skal ég svo bæta því við, að það telur frv. ekki nema góða byrjun til lagfæringar á iðnlöggjöfinni. En þeir, sem leggja á móti, eru Alþýðusambandið og Samband iðnnema. Þetta mega hv. þdm. lesa á þskj. 506. Hvað það snertir að bíða eftir áliti minni hl., þess hl. af honum, sem mætti á nefndarfundinum, þá er það að segja, að hv. 11. landsk., sem þar mætti, er utanlands. En ég veit, að hæstv. ráðh. lítur svo á, að fleiri geti komið þar í skarðið heldur en hann.

Þetta mál hefur verið nokkuð lengi á döfinni, vegna þess að það hefur ekki legið fyrir nál. nema frá öðrum hluta n., og hefur dregizt að taka málið á dagskrá þess vegna. Ég vildi þess vegna frekar, ef hæstv. ráðh. gæti fallizt á það, að málið fengi að ganga áfram til 3. umr., og væri þá auðvelt fyrir minni hl., þann part af honum, sem innanlands er, að gefa út álit á milli umr. Áður en ég heyri, hvernig hæstv. ráðh. tekur á þessu, skal ég spara þá tímatöf, sem af því mundi leiða að lesa upp álit meistarafélagsins og að öðru leyti að fara rækilega út í málið, ef hæstv. ráðh. gæti á það fallizt, að málið fengi að ganga til 3. umr.