04.12.1944
Neðri deild: 86. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

153. mál, hafnarbótasjóður

Eysteinn Jónsson:

Ég hef sérstöðu um þetta mál í n. og skrifa undir nál. með fyrirvara og flyt brtt. á þskj. 591.

Þegar hafnarbótasjóður var lögleiddur, voru þau rök helzt færð til, að hann ætti að styrkja aukalega lendingarbætur og hafnargerðir á þeim stöðum, þar sem skilyrði væru góð til að gera hafnir og gott til fiskveiða, en lítil geta til kostnaðarsamra framkvæmda. Enn fremur held ég, að það hafi verið tekið fram, að einnig skyldi veita fé úr þessum sjóði til hafnargerða, þar sem menn sæktu mjög að með báta til fiskveiða og væru eins konar millistig milli landshafna og venjulegra hafna. Nú er ætlunin að byrja að nota þennan sjóð með nokkuð sérstökum hætti. Að vísu er ekki ætlunin að veita úr honum styrk eða framlag, en í þess stað er ráðgert að láta sjóðinn lána ríkissjóði fé, sem síðan sé lagt fram sem viðbótarframlag til hafnargerða.

Ég lít svo á, að þörf fyrir hafnarbætur á stöðum eins og Akranesi, Keflavík, Húsavík og Hornafirði og ýmsum fleiri stöðum sé ákaflega mikil og þær framkvæmdir séu mjög aðkallandi, en það er jafnframt mín skoðun, að nú á hinum mestu gróðaárum, sem þjóðin hefur lifað, verði þingið að hafa myndarskap til að veita svo mikið fé í fjárl. til þessara framkvæmda, að þessir staðir megi vel við una. Þess vegna tel ég það í mesta máta varhugavert að fara nú inn á þá braut að eta upp með lánveitingum í slíkar framkvæmdir sjóði, sem dregnir hafa verið saman á undanförnum árum, og ég álít það meira en varhugaverða stefnu, ég álít það beinlínis að fara inn á þá braut að afgreiða tekjuhallafjárl. Hér er verið að efna til ríkislántöku með þessum hætti og síðan ætlazt til, að það sé endurgreitt í fjárlögum. En vilja menn ekki hugsa um það rólega, hversu auðvelt það muni verða á næstu þremur árum fyrir ríkissjóð að ráða við allar fjárveitingar, sem þá þarf að inna af hendi til verklegra framkvæmda, og eiga líka að endurgreiða hafnarbótasjóði lán, sem ríkið hefur tekið á mesta góðæristímanum? Ég held, að við ættum að geta orðið sammála um, að ef ríkissjóður getur ekki nú án lántöku veitt nægilegt fé til hafnargerða á þeim stöðum, þar sem mest liggur á, þá verði ekki svo ástatt á næstu þremur árum, að hann geti gert þetta þá og bætt einnig við sig endurgreiðslum til hafnarbótasjóðs, sem tekið hefur verið á mesta góðæristímanum. Ég get sannfært hv. þm. um, að þetta fær ekki nema einn endi. Það er augljóst, að þær greiðslur, sem inntar eru af hendi úr hafnarbótasjóði, verða ekki endurgreiddar á næstu árum. Hvernig getur líka Alþingi ætlazt til, að ríkið á næstu þremur árum sé svo betur statt fjárhagslega, að það geti endurgreitt stórar fúlgur inn í hafnarbótasjóð og veitt ríflega um leið á hverju ári til nýrra hafnargerða? Við vitum, að verkefnin þar eru svo mikil og aðkallandi, að það verður á þeim árum engu minna sótzt eftir að fá framlög til hafnargerða en nú er gert. Að vísu kunna þá vissar hafnir að verða fullbúnar, en það koma þá aðrar í þeirra stað, sem þarf að sinna. Auk þess er á prjónunum a.m.k. ein landshöfn, sem kostar stórfé, jafnvel í byrjun, og þegar til greina koma fjárveitingar til þeirrar landshafnar, þá verður fyrst að marki þröng í fjárl. fyrir hendi í sambandi við hafnargerðir.

Það, sem hér hefði átt að gera, er að veita fé í fjárl. það ríflega til hafnargerða, sem menn hafa í huga í sambandi við þetta mál, svo að unnt yrði að vinna að framkvæmd þeirra af miklum áhuga og krafti, og ef menn treysta sér ekki til að veita þannig í eitt skipti svo mikið sem gert er ráð fyrir að þurfi samtals, þá hefði verið rétt að mínum dómi að skipta þeirri áætluðu fjárhæð á fjárl. nokkurra ára, svo að það stæði t.d. í þessum fjárl., að þetta væri fyrsta greiðsla af tveimur eða þremur, því að það yrði til þess, að þessum málum yrði haldið í fullu sambandi við afgreiðslu fjárl., og væri þá komizt hjá að fara út á þá braut að eta upp hafnarbótasjóð til þessara framkvæmda. Ég álít einmitt fulla þörf á þessum sjóði, þegar þrengja fer meira um fjárhaginn en nú er, og þá mun hjálpa að hafa aðeins í höndum kvittanir frá ríkinu fyrir að hafa tekið á móti fé sjóðsins til framkvæmda, sem nú er verið að gera.

Ég lít svo á, að þessi ráðstöfun, að ríkissjóður fari að taka hafnarbótasjóð að láni til slíkra framkvæmda, sé viðurkenning þess, að nú sé komið í þrot með afgreiðslu fjárl. og því sé nú farið að taka lán til framkvæmda, sem hefði átt að sjá borgið með tekjum ríkisins á gróðatímanum. Ég ætla, að þetta verði til þess, að hafnarbótasjóður verði raunverulega etinn upp og verði ekki endurvakinn á ný. Ef einhver efast um þetta, þá vil ég vísa til þeirra raka, hvort menn geti gert ráð fyrir, að ef nú er ekki hægt að veita ríflega til hafnargerða, hvort þá muni verða hægt á næstu árum að veita ríflega til þeirra og endurgreiða þar að auki það fé, sem nú á að taka til láns úr hafnarbótasjóði. Eftir að félagar mínir í sjútvn. höfðu kynnt sér ástæðurnar í fjvn., ákváðu þeir að fara þessa leið til að greiða fyrir þessum hafnarmálum, og sá ég því inn á, að þessi stefna mundi verða tekin, og sneri ég mér þá að því að gera till. um, hvernig ég teldi þessu heppilegast fyrir komið, ef á annað borð ætti að fara þessa leið, og um það fjallar brtt. mín á þskj. 591.

Það er gert ráð fyrir því af meiri hluta nefndarinnar, að stjórnin geti veitt þessi viðaukaframlög úr ríkissjóði, ef hún telur það rétt. Er það algert einsdæmi um fjárveitingar til hafnargerða úr ríkissjóði. Ég hygg, að alltaf hafi verið höfð sú venja að taka til í fjárl., hversu miklu fé ríkið skyldi verja til þessara framkvæmda. Mér þykir óviðkunnanlegt að breyta um stefnu í þessu efni og að ríkisstj. geti veitt þannig fé allt að 3 millj. til þeirra hafnargerða, sem hún telur verðugar þess að fá slík framlög. Ég skal taka fram, að brtt. mín er ekki borin fram vegna þess, að ég vantreysti núverandi hæstv. samgmrh. til að sjá um þetta. Mín reynsla af honum frá hans fyrra starfi, sem er mjög hliðstætt þessu, er þannig, að ef hann ætti að ráða einn hér um, þá mundi ég ekki óttast neina hlutdrægni. Ég tel aðeins, að ekki sé rétt fordæmisins vegna að ganga inn á þessa braut, og því síður tel ég það rétt, þar sem ráðh. mundi með þessum fjárveitingum algerlega binda hendur Alþingis um að veita fé á næstu árum til þessara hafnargerða, því að sjóðnum er ætlað að fá féð til baka, svo að ráðh. fengi þá með þessu móti vald til að veita þetta fé úr ríkissjóði. En ef svo færi hins vegar, að sjóðurinn fengi þetta fé ekki endurgreitt, sem ég óttast mjög, þá er hér um raunverulega fjárveitingu að ræða, um leið og féð er greitt af hendi. Hér er því verið að fá stj. í hendur fjárveitingarvaldið að þessu leyti, og tel ég það mjög óheppilegt fordæmi. Ég legg því til, þar sem er sýnilegt, að farið verður inn á þessa braut, að þessum fjárveitingum verði komið fyrir í fjárl., og ætlast ég til, að það verði gert á þann hátt, að í 22. gr. fjárl. verði sett heimild handa stj. til að verja tiltekinni fjárhæð til þessara hafnargerða, sem fjvn. og Alþ. telja, að mest séu aðkallandi og mest skorti á að fá sæmilega úrlausn í fjárl. sjálfum. Hv. frsm., þm. Vestm., andæfði nokkuð þessari leið, áður en ég hafði gert grein fyrir þessu, og hafði ég því ekki komizt að með þá útskýringu, að ég ætlaði, að þessu yrði bezt fyrir komið í 22. gr., og yrði þá gripið til þessa fjár aðeins samkvæmt heimild Alþingis og eftir því, hvaða framkvæmdir teldust nauðsynlegastar. Hv. þm. segir, að erfitt sé að gera sér grein fyrir, hvaða hafnargerðir helzt ættu að koma til mála. Ég tel, að ekki sé hægt að setja fyrir sig þá erfiðleika. Ég hygg, að fjvn. muni ekki eiga erfitt með að gera sér grein fyrir, hvaða heimildir væri réttast að setja á 22. gr., og hún hefur fullkomlega myndugleika til að gera upp á milli þeirra till., sem um það kynnu að berast, eftir því hve mikil sanngirni mælti með þeim. Það væri því enginn vandi á höndum í þessu sambandi, auk þess sem ég hygg, að það sé í raun og veru nokkurt samkomulag um það meðal þm., hvaða hafnargerðir það séu, sem mest ástæða væri að auka fjárveitingar til. Ég hygg því, að þetta mundi ekki valda erfiðleikum, og a.m.k. er ómögulegt fyrir Alþingi að vísa frá sér fjárveitingarvaldinu að þessu leyti með þeim rökum, að þar sé erfitt að gera upp á milli, því að ef inn á slíka braut væri gengið, þá mundi það enda með því, að fjárveitingarvaldið væri dregið smátt og smátt úr höndum þingsins. Ég geri því ekki mikið úr þessari mótbáru hv. þm. Vestm., og ég þykist vita, af því að ég hef fengið um það góðar upplýsingar bæði í n. og annars staðar frá, að nú sé kunnugt um flestar eða allar þær hafnarframkvæmdir, sem til mála mundu koma á sumrinu 1945, og það er augljóst, að ef einhverjir væru svo síðbúnir með þessi mál hjá sér, að þeir væru ekki enn búnir að koma á framfæri sínum málum, þó að komið sé að árslokum, þá búa þeir þannig í haginn fyrir sig að þessu leyti, að engin ástæða er til að hafa neinar áhyggjur af þeim.

Ég vil því fastlega skora á hv. alþm. að taka þá aðferð í þessu máli, sem ég hef lagt til, að verði viðhöfð, ef á að fara að taka nú hafnarbótasjóð, sem ég tel ástæðulaust, en ef menn ganga inn á þá stefnu, sem ég geri ráð fyrir, að verði, að menn hafi þá þessa aðferð, sem ég hef lagt til í brtt. minni á þskj. 591.