05.12.1944
Neðri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (2841)

153. mál, hafnarbótasjóður

Pétur Ottesen:

Ég sé á brtt., sem fram eru komnar á þskj. 576 frá sjútvn., að þar hefur ekki náðst samkomulag um að afgreiða þetta mál í þeirri mynd, sem ég hafði lagt til. Það er rétt, sem fram er tekið í nál., að náið samband er milli tveggja frv., sem ég flyt um þessi efni, því að frv., sem þessar brtt. eru stílaðar við, er nauðsynlegur undanfari þess, að hægt sé að ráðstafa fé úr hafnarbótasjóði á þann veg, sem í hinu frv. er gert ráð fyrir. Mér þykir vænt um, að n. fellst á, að Alþingi setji ákvæði um, hvernig fé skuli varið úr sjóðnum. Hins vegar harma ég, að hún skuli ekki geta fallizt á till. mína um að verja úr honum fjárhæð til, hafnargerðar á Akranesi. Ég hafði bæði í grg. og framsögu gert fyrir því ljósa grein, að samkv. tilgangi sjóðsins væri eðlilegt, að fé hans yrði varið til þessarar hafnargerðar, sem er ekki einungis í þágu þeirra, sem þar búa, heldur jafnframt margra aðkomubáta, sem á vertíðum sækja sjó í Faxaflóa. Og eins og reynslan hefur sýnt, . hafa fiskimenn víðs vegar að af landinu sótzt eftir að fá aðstöðu til þess að geta stundað veiðar á þessum stað, og byggist það á því tvennu, hve gott er til fiskisóknar frá þessum stað, og annað það, að veiðarfæraslit er minna par en við sunnanverðan flóann. En það er alltaf, og ekki sízt nú, mjög veigamikið atriði í útgerðinni að geta komizt af með sem minnstan veiðarfærakostnað, með sérstöku tilliti til þess, hve erfitt er að afla veiðarfæra og þau dýr.

Ég ætla ekki að hefja neina árás á hv. n. fyrir þá niðurstöðu, sem hún, að þessu máli athuguðu, komst að, þótt ég harmi, að málið skyldi ekki fá þá afgreiðslu, sem ég lagði til, né heldur sú till., sem ég kom með síðar, vegna þess að n. hefur sýnt fulla viðleitni til þess að leysa vandræðin á þessum stað og annars staðar, þar sem nauðsynlegt er að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir. Það verður fyllilega að viðurkenna, að í þeirri brtt., sem n. ber fram og kemur til með að móta þetta frv. mitt, er fullkomlega gengið í þá átt að létta undir þessar framkvæmdir.

Við þekkjum það af gamalli og nýrri reynslu, að þannig er löngum ástatt á Alþ., að þar er ekki hægt í hvert skipti að mæta óskum einstakra aðila um fjárframlög, heldur hefur reynslan verið sú, að þeir, sem fyrir þessum fyrirtækjum standa, hafa orðið að taka lán fyrir þeim hluta kostnaðarins, sem ríkissjóði bar að leggja fram, og þetta er af því, að þær fjárhagsaðstæður eru ekki fyrir hendi, að fært þyki að leggja fram á einu ári þann hluta ríkisframlagsins, sem leiðir af þessa árs framkvæmdum, á hverjum stað fyrir sig. Þetta er vitanlega mjög bagalegt fyrir þá aðila, sem hlut eiga að máli og verða að standa undir 2/3 af heildarkostnaðinum eða 3/5 eða helmingi kostnaðar, þar sem aðstaðan er hagstæð í þessum efnum, en það er einkum á stöðum, þar sem um minni framkvæmdir er að ræða.

Mér þykir mikils vert um þá úrlausn, sem n. vill gera í þessu máli, að til viðbótar því fjárframlagi, sem fæst á hverju ári til þessaxa framkvæmda, sé ráðherra gefin heimild til að verja úr hafnarbótasjóði því, sem á vantar, svo að þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, fái fullt framlag úr ríkissjóði á móti sínu framlagi á því ári, sem verkið er framkvæmt. Ég lít svo á, að með þessari tilhögun þjóni hafnarbótasjóður fullkomlega og réttilega því hlutverki, sem honum er ætlað að gegna. Hitt má svo segja, að það sé eðlilegt, þar sem hafnarbótasjóður verði notaður með slíkum hætti, að þá verði honum endurgreitt þetta fé, svo að það leiði ekki til beinnar skerðingar á sjóðnum, sem þarf að stækka og eflast.

Því var hreyft hér í sambandi við þessar umr., að ég ætla af hv. 2. þm. S.-M., að það mundi verða erfitt um greiðslu í sjóðinn aftur. Ég held, að ekki sé ástæða til þess að óttast um þetta, því að samkv. breytingu n., ef hún verður að l., þá er því slegið föstu, að það skuli gert. Þess vegna verður að inna þessa greiðslu af höndum til þess að uppfylla ákvæði l., og það getur náttúrlega vel verið, að sú skylda að inna þessa greiðslu af höndum hafi að öðru leyti í för með sér takmörkun á fjárframlagi ríkissjóðs, og við því er út af fyrir sig ekkert að segja. Hins vegar má gera ráð fyrir því, að hér verði ekki árlega um svo stórfelldar greiðslur úr hafnarbótasjóði að ræða, að þetta út af fyrir sig af þeim ástæðum þurfi að valda sérstökum vandkvæðum.

Ég vil því, eins og málum er komið, mæla með því, að þessi brtt. n. nái hér fram að ganga, því að með þeim hætti geri ég ráð fyrir, að svo fari, að þeim miklu framkvæmdum, sem fyrir hendi eru á Akranesi og líka á öðrum stað hér við Faxaflóann sunnanverðan, megi halda áfram eins og ráð er fyrir gert. Ég óttast, að svo geti ekki orðið, ef viðkomandi aðilar verða að taka lán fyrir utan eigið framlag, til þess að afla fjár með þeim hætti til þess hluta, þar sem ríkissjóðsframlagið á fjárlögunum ekki hrekkur til framkvæmdanna, og ég sé ekki neina ástæðu til þess, að hægt sé með rökum að mæla gegn því, að hafnarbótasjóður verði notaður með þessum hætti, því að það er vitanlega tilgangurinn með hafnarbótasjóði, að hann flýti fyrir nauðsynlegum framkvæmdum. Þess vegna á það að vera fagnaðarefni þeim, sem staðið hafa að því að koma honum á, að sem fyrst geti sézt í verki raunverulegur árangur af því, að þessi ráðstöfun hefur verið gerð.

Það er gott að eiga þetta fé í sparisjóði, en hitt er þó enn betra, að hægt sé að nota það til þess að koma á nauðsynlegum framkvæmdum, sem skapa skilyrði fyrir aukinni útgerð og öryggi. Ég býst ekki við, eins og sakir standa nú, að hægt sé að ávaxta fé þetta með betri árangri en þeim að tryggja bátaútvegi landsmanna og þá sjávarútveginum í heild, betri aðstæður og meira öryggi.

Þess vegna vænti ég þess, að till. hv. sjútvn. fái einróma undirtektir hér í þessari d., annars verð ég að álíta, að það sé byggt á rangri skoðun á því, sem er hlutverkið með því að safna þessu fé og leggja til hliðar. Í brtt. hv. 2. þm. S.–M. er alveg gengið inn á þessa hugmynd, en ég álít það ágalla á þeirri brtt., að hún mun skapa reipdrátt innan þ. um það, að þá vilji hver ota sínum tota, og það er vitað, að okkur hendir það oft og iðulega hér á Alþ. að vera ekki jafnskarpsýnir að takmarka okkur við aðalatriðin í málunum á hverjum tíma, heldur berum fram brtt., sem geta orðið til þess að hefta eða torvelda slíkar framkvæmdir, án þess að það gefi hlutfallslega úrlausn á öðrum sviðum. En með því að hafa ákvörðun um þetta í höndum þess ráðherra, sem þessi mál heyra undir og að sjálfsögðu byggir till. sínar og ákvarðanir um þessa hluti í samráði við vitamálastjóra, sem hefur umsjón með þessum málum, ætti að fást algerlega óhlutdrægur dómur um nauðsyn framkvæmdanna í hverju tilfelli. Ég ætla þess vegna, að það sé hyggilega ráðið hjá n. að hafa einmitt þessa tilhögun.

Það kom fram í umr. um þetta mál í gær, að með þessum hætti mundi ef til vill ekki verða haldið jafnfast á þessum málum og nauðsynlegt væri, þannig að einstaklingar eða stjórnarvöld á einstökum stöðum geti eflt aðstöðu sína til þess að draga nokkuð mikið, á hverjum tíma, í sinn hlut. Ég held, að þeir menn, sem halda þessu fram, hafi ekki athugað, að það er ákaflega mikill hemill á þessum framkvæmdum, þar sem um svo stórar framkvæmdir er að ræða, að þeir, sem hlut eiga að máli, verða í sumum tilfellum að bera uppi 2/3 af öllum kostnaði við fyrirtækið, í öðrum tilfellum af öllum kostnaði, og þar, sem hlutföllin eru hagstæð, 1/2 af kostnaðinum við fyrirtækið. Þessi stóri hluti, sem viðkomandi aðilar á hverjum stað verða að standa undir, er svo mikill, að það er ekki ráðizt í framkvæmdir fram yfir það, sem alveg óhjákvæmilegt er að gera á hverjum tíma. Það þekkja þeir, sem staðið hafa í slíkum framkvæmdum, að það er ekki alveg hrist fram úr erminni að koma þeim á. Það kostar mikið þrek og mikið átak, meðan á því stendur.

Eins og sakir standa nú, hlýtur það líka að vera keppikefli allra manna, sem gætnir eru í fjármálum og hyggnir eru og forsjálir í þeim efnum, að reyna sem allra mest að greiða sem ríflegastan hluta af þeim kostnaði, sem nú er lagt í, en komizt sé hjá því að stofna til skulda svo sem mögulegt er. Þess vegna er það, að eins og það er eðlilegt að nota þann ávinning, sem fengizt hefur nú, frá sjónarmiði einstaklingsins, er það líka eðlileg og heilbrigð aðstaða hjá Alþ. að veita þann fjárhagslega stuðning, sem ríkinu er ætlað að veita í slíkum tilfellum, reyna sem sagt að gera þetta sem allra mest fyrir þá fjármuni, sem einstaklingar, félög eða ríkissjóður hafa handbæra á þessum tíma, en hliðra sér sem mest hjá því að stofna til skulda upp á framtíðina.

Ég þarf svo ekki að segja fleiri orð um þetta. Úr því að svo fór, að hv. n. gat ekki fallizt á þær till., sem ég hef í mínu frv. um hafnargerð á Akranesi, og till., sem ég siðar bar fram við n. um lausn á þessum málum, þá tel ég þó, að í þessari brtt. n. felist svo veruleg úrlausn í þessu máli, að eftir atvikum geti bæði ég og aðrir, sem eiga mikið undir þátttöku og úrlausn Alþ., sætt okkur vel við málalokin.

Mér er það líka ánægjuefni, að mér er kunnugt um, að n. hefur flutt þessa till. í samráði við hæstv. samgmrh., sem hefur um langt árabil fengizt við þessi mál f.h. ríkisins og er þess vegna gagnkunnugur öllum aðstæðum, og í hans höndum tel ég, af langri reynslu og samstarfi við hæstv. ráðh., að þessu máli sé vel borgið.