02.12.1944
Neðri deild: 85. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í C-deild Alþingistíðinda. (2849)

145. mál, iðnaðarnám

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Það er aðeins út af einu atriði í því, sem hv. þm. Vestm. sagði, sem ég vildi segja örlítið. Það er alveg rétt hjá honum, að það er sjálfsagt að reyna að tryggja ungum mönnum aðgang að iðnum. Það er sjálfsagt að reyna að tryggja þeim í því efni bæði menntun og atvinnu. Og það verður tryggast gert á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að tryggja það, að þeir geti komizt inn í iðnina, lært hana og unnið við hana, meðan þeir eru nemendur, og síðan með því að tryggja, að þegar þeir eru búnir að taka sveinspróf, þá geti þeir starfað áfram í þessari iðn.

Ástandið, sem við höfum búið við áður fyrr, hefur verið það hvað eftir annað, að ungir menn hafa farið inn í iðn og útskrifazt sem sveinar og verið svo sagt upp vinnu daginn eftir að þeir tóku sveinsprófið, en nemendur fengnir í staðinn, til þess að fá ódýrt vinnuafl. Og ef svo hefði gengið koll af kolli, þá hefði þeim ungu mönnum aftur verið sagt upp vinnu, þegar þeir væru orðnir sveinar, og svo áfram. Og þetta er ekki að tryggja mönnum vinnu við iðnað. Við erum allir sammála um það, að við þurfum að hafa eins marga faglærða menn og við getum mögulega fyrir komið við hverja iðngrein og sömuleiðis eins mikið af tækjum og við getum til þess að láta þá vinna með. En enginn okkar er interesseraður fyrir því að fá svona og svona mikið af nemendum inn í iðngreinarnar til þess að reka þá burt, þegar þeir eru orðnir sveinar. Því að með því móti mundum við aldrei fá þá faglærðu verkamenn, sem verður að sækjast eftir. Hagsmunir þessara manna, sem vilja verða faglærðir, rekast á á þessum tveimur sviðum. Það vilja eðlilega margir ungir menn læra þessar iðngreinar. En þeir vilja líka allir saman fá vinnu sem lengst, það sem eftir er í þessum iðnaði, eftir að þeir eru búnir að læra. Því að alltaf verða þeir fullkomnari og fullkomnari í iðn sinni. Og það er þjóðfélaginu líka fyrir beztu, að þeir fái að vera áfram við sínar iðngreinar. Þessa tvo póla verðum við að samríma. Við verðum að hafa iðngreinarnar mátulega opnar, til þess að við getum fengið nægilega mikið af faglærðum verkamönnum, og við verðum að sjá til þess, að þeir faglærðu verkamenn séu ekki reknir burtu úr iðn sinni, þegar þeir eru orðnir góðir í sinni iðn. En þetta er nokkur vandi að samríma, og þennan vanda er brýn þörf að leysa, sem hæstv. ríkisstj. mun hafa hug á að beita sér fyrir. Og í sambandi við afstöðu Alþýðusambands Íslands, sem hv. þm. Vestm. talaði um, að þarna hafi verkamenn yfirleitt þeirra hagsmuna að gæta, að þeir vilji gjarnan fá sem flest af mönnum inn í þessar iðngreinar og gefa ungum mönnum tækifæri til að læra þær, þá er það að segja, að þeir eru ekki heldur interesseraðir í því, að þessir menn séu reknir aftur úr iðninni. Fyrir 4 árum var það svo, að margir af faglærðum mönnum, bæði í byggingaiðnaðinum og sumir fleiri, urðu að vinna annað en að sinni iðngrein, taka upp mó o. þ. h. Þetta er mikið vandamál fyrir verkamannastéttina sem heild eins og fyrir þjóðfélagið. Og ég ber það traust til ríkisstj., að hún muni vinna að því að samríma það tvennt, sem samríma þarf í þessu efni og ég hef talað um, og leggi fyrir hæstv. Alþ. árangurinn af þeim athugunum.