07.12.1944
Neðri deild: 89. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

153. mál, hafnarbótasjóður

Sigurður Bjarnason:

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá flutti ég við 2. umr. þessa máls rökst. dagskrá í málinu, þar sem ég taldi þetta frv. og þá brtt., sem kom frá hv. sjútvn., hin háskasamlegustu fyrir meðferð þessa sjóðs í framtíðinni. Nú fór það svo, að þessi rökstudda dagskrá var felld hér við 2. umr. í hv. d., en ég hef ekki talið mér fært að láta við svo búið standa í meðferð þessa máls og vil við þessa síðustu umr. hér í d. gera tilraun til að bjarga því, sem bjargað verður í sambandi við sjóðinn.

Þess vegna vildi ég leyfa mér, án þess að hafa um þetta fleiri orð, að spyrjast fyrir um það hjá hv. frsm. sjútvn., hvort meiri hluti n. væri ekki fáanlegur að taka til athugunar að setja inn í 1. gr. frv. ákvæði, sem setji ákveðið hámark fyrir því, hvað lána megi úr hafnarbótasjóði í þeim tilgangi, sem þar um ræðir. Ég vildi leyfa mér að spyrja hv. n. að því, hvort hún væri ekki reiðubúin að taka til athugunar t.d. að setja inn ákvæði um það, að aldrei mætti slíkt framlag úr sjóðnum nema hærri upphæð en helmingi höfuðstóls hans. Ég tel svo bráðnauðsynlegt að setja slíkt ákvæði, að ég vil ekki láta ófreistað að beina þessu til hv. n., og hygg að minnsta kosti, að það mundi að einhverju leyti fyrirbyggja, að sjóðurinn yrði á skömmum tíma gersamlega þurrausinn og þannig gerður að eyðslueyri á næstu mánuðum.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta, en beini því til hv. frsm. n., hvort n. sjái sér fært að taka þetta til athugunar.