07.12.1944
Neðri deild: 89. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1222 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

153. mál, hafnarbótasjóður

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þegar lauk 2. umr. um þetta mál, þá hafði hv. þm. N.-Ísf. veitt meiri hluta sjútvn. mörg högg og þung, og voru þó öll frekari vopnaviðskipti látin niður falla og svæfðar sakir allar, og er það ekki ætlun mín nú að taka upp neinar sérstakar deilur um málið.

Ég skil það vel, að hv. þm., sem í raun og veru er frumhöfundur að stofnun þessa sjóðs, sem um ræðir, hafnarbótasjóðs, beri nokkurn ugg í brjósti um meðferð hans, en þó er það álit mitt í fyrsta lagi, að sá uggur sé að mestu á misskilningi byggður, og í öðru lagi, að sú nauðsyn, sem hér kallar á eftir, yfirgnæfi í sjálfu sér það, þótt mönnum þætti að einhverju leyti eiga sér stað frávik frá því, sem lá til grundvallar í fyrstu, þegar gengið var að því verki að stofna hafnarbótasjóð.

Eins og áður hefur verið að vikið, hefur Alþ. í byrjun gert breyt. á þeirri, frumhugmynd, þannig að sjóðurinn gæti náð yfir víðari verkefni en höfundur hans upphaflega hefur hugsað sér. Til að víkja að þeirri hugmynd, sem hv. þm. ber nú fyrir brjósti, að eftir sé skilinn í sjóðnum jafnan kjarni nokkur, sem ekki sé til ráðstöfunar í þeim tilgangi, sem kveður á í brtt. sjútvn., þá vil ég fyrir mitt leyti leita samkomulags og hef þar stuðning nokkurn innan sjávarútvegsnefndar. Ég hef að vísu ekki getað náð til allra, en svo langt sem ég hef náð, þá er sá meiri hluti, sem stóð að brtt., því alls ekki mótfallinn, að tryggingarákvæði sé sett, eitthvað svipað því, sem hér var á minnzt. En hins vegar má líka geta þess að veikja ekki um of þá aðstöðu, sem skapast við að hrinda stórframkvæmdum í verk með brtt. sjútvn., og þætti mér hóflega í farið og mælist til við hv. þm. N.-Ísf., að hann. stilli brtt. sinni í hóf, og erum við allir ánægðir með, ef hann fellst á, að einn þriðji hluti sjóðsins stæði óhreyfanlegur í þessu efni og eins og tekinn frá. Með öðrum orðum, að til ráðstöfunar, eins og segir í 1. gr. frv. eins og það nú er orðað eftir 2. umr., sé á hverjum tíma ekki leyfilegt að grípa til meir en 2/3 hluta hafnarbótasjóðs.

Með því fyrirkomulagi, sem nú hefur verið lýst, vil ég fyrir hönd okkar nm., þeirra, sem til hefur náðst, lýsa yfir fylgi við þá brtt., sem hv. þm. N.-Ísf. hefur komið fram með, og vænti ég þá, að fullt samkomulag geti náðst um þetta deiluatriði, svo að málið fari með samþykki sem flestra þm. úr þessari hv. deild.