07.12.1944
Neðri deild: 89. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1223 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

153. mál, hafnarbótasjóður

Sigurður Bjarnason:

Ég get þakkað hv. frsm. sjútvn. fyrir undirtektir hans undir þá brtt., sem ég orðaði hér. Honum finnst að vísu nokkuð djúpt tekið í árinni, að eingöngu megi verja slíku framlagi úr sjóðnum allt að helmingi hans. Þar greinir okkur að vísu nokkuð á, en ég vil þó til samkomulags, þar sem ekki er séð, hvort takast mundi að tryggja helming sjóðsins, ganga inn á þá miðlunartill., sem hann orðaði og kvað meiri hluta vera fyrir í hv. sjútvn. eða samkomulag mundi geta tekizt um.

Um leið og ég geng að þessari málamiðlunartill., þá vil ég ítreka það, sem ég hef áður sagt, að ég kem með þessa till. hér eingöngu til að bjarga því, sem bjargað verður. Skoðun mín er óbreytt, að hér sé óráðlega að farið, en þar sem þó tekst samkomulag um þetta atriði, þá mun ég láta frekari deilur um það niður falla, þótt ég geti ekki fylgt frv. sem heild, eins og ég hef tekið fram.

Ég vil leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa brtt. í samræmi við það, sem samizt hefur um milli hv. frsm. n. og mín.