25.01.1945
Efri deild: 110. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

153. mál, hafnarbótasjóður

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Hv. þm. Barð. hefur hér viðhaft, að því er mér finnst, furðulegt orðbragð og furðuleg rök. Það kann að vera hans venja, en ég kann ekki við það.

Hann kallaði það, sem ég bar fram, falsrök og að einhver rammbyggður hringur mundi skipta milli sín peningunum úr sjóðnum og ég væri þátttakandi í því. Þetta eru ósæmileg ummæli og óviðeigandi. Ekkert af þessu á sér stað. Rökin í málinu eru skýr og glögg. Það kann að vera, að þetta orki tvímælis frá hans sjónarmiði, en að vera að tala um falsrök nær engri átt. Skal ég svo ekki fara fleiri orðum um það, en víkja nokkrum orðum að því, sem hann sagði um málið.

Hann sagði, að eins vel mætti verja þessu fé til búnaðarframkvæmda eins og að lána nokkurn hluta þess um stuttan tíma, meðan það væri ekki notað til annars. Höfuðtilgangur sjóðsins í framtíðinni er að styrkja hafnarbyggingar, þannig að verja megi fé úr sjóðnum til viðbótar því framlagi, sem í fjárl. er ætlað til þeirra. Um þetta hefur þingið ekkert sagt nú, allra sízt neitt lokaorð. Og að það eigi að vera einhver goðgá og langt frá aðaltilgangi sjóðsins að nota það til sams konar framkvæmda, sem sérstök þörf er að létta undir með, það nær engri átt. Aðaltilgangur sjóðsins er að létta undir með lánum eða styrkjum með þeim hafnarframkvæmdum, sem Alþ. hefur samþ., og það er það, sem hér er um að ræða, ekkert annað.

Ég vil einnig benda hv. þm. á, að hér er ekki farið inn á óvenjulega braut. Það er altítt, að unnið hafi verið að hafnargerðum fyrir miklu meira fé en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlögum. Það er algeng venja, að þó að veittar hafi verið t.d. 50 þús. kr. til einhverrar hafnar, sem á að vera 2/5 hlutar, svo að þar eru fyrir hendi 250 þús. kr. til framkvæmdarinnar, þá hefur oft verið unnið fyrir hálfa millj. á þeim stað, og þá verður viðkomandi staður að útvega sér féð að láni í bili með þeim skilyrðum að greiða það fljótlega aftur.

Það eru falsrök að segja, að ríkissjóður geti skotið sér undan því langt fram í tímann að inna þessar greiðslur af hendi, því að þegar hægt er að vinna þessi verk, þá getur ríkissjóður ekki skotið sér undan því, hvort sem sú greiðsla fer fram gegnum hafnarbótasjóð eða á annan hátt.

Hv. þm, minntist á Akranes og sagðist illa trúa því, að sá þm., sem er fyrir það kjördæmi, mundi skilja mikið eftir af þeim millj., sem frv. hans gerði ráð fyrir, svo að það væri fyrir fram vitað, að það þyrfti að veita þetta fé á þessu ári. Ég vil segja honum, að um það getur hann ekkert sagt. Ég geri ráð fyrir, að þeim verði veitt það, sem þeir komast yfir að vinna fyrir, hvort sem það verður hálf eða heil millj. Til Akraness er nú veitt í fjárl. 300 þús. kr., og verður því heildarupphæðin þar til að vinna fyrir 750 þús., og fyrr en þeir hafa unnið fyrir 750 þús. fá þeir enga aukaveitingu á Akranesi. Ég tel sáralitlar líkur fyrir því, að fyrir alla þá upphæð yrði unnið á einu sumri. Svona eru rök þessa hv. þm. Og þó leyfir hann sér að kalla það falsrök, sem aðrir bera fram í málinu. — Þá fór hann inn á tekjuöflun hafnarsjóðs á Akranesi. Ég sé ekki, að það komi þessu máli við. Það er ekki um annað að ræða en ríkissjóðshlutann af kostnaðinum. Hvernig Akurnesingar standa undir þeim kostnaði, sem þeir bera, er annað mál. Hvort rétt er eða forsvaranlegt að láta sjómenn í Borgarfjarðarsýslu borga 6% til hafnarsjóðs af aflanum og Akurnesinga 1%, kemur ekki málinu við. Ef það er ekki rétt, þá á að breyta hlutfallinu í hafnarlögum fyrir viðkomandi stað. En það kemur ekki þessu við. Og það er tillit tekið til þessa í hafnarl. þessara staða, þar sem Borgarfjörður fær tiltölulega meira úr ríkissjóði en Akranes. Mál þetta liggur ljóst fyrir, og það, sem frekar kynni að vera um þetta að segja, geri ég ekki ráð fyrir að upplýsist nú, heldur yrðu framhaldandi umræður um þetta aðeins karp.

Ég vildi þá minnast á brtt. hv. þm. S.-Þ., þó að hann hafi enn ekki talað fyrir henni. Hún er einföld og skýrir sig sjálf. Ég álít henni fylgja hættu, að hafnarbótasjóður fái ekki sitt fé fyrr en hver veit hvenær. Þá er hann ekki þess megnugur að inna af hendi hlutverk það, sem honum var ætlað. Það er þá fyrst, þegar endurgreiðsluskyldan er numin burt, að hætta er á, að hann geti ekki þjónað þeim tilgangi, sem upphaflega var ætlazt til. Hvað því viðvíkur að draga framkvæmdir nú eða fresta þeim, þá er hvorki þessi hv. þm. né ég þess umkominn að segja, hvort rétt sé. Það getur vel farið svo, að eftir nokkur ár verði talið óhyggilegt að hafa staðið í ýmsum verkum, sem nú er verið að láta framkvæma. En það getur líka svo farið, að það verði talið hyggilegt. Um þetta tel ég engan geta dæmt enn þá.