03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2891)

4. mál, fjárlög 1945

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég vil byrja á því að færa hæstv. fjmrh. þakkir fyrir hina skýru greinargerð hans og láta í ljósi ánægju mína yfir þeirri venju, sem hann hefur upp tekið, að útbýta ársfjórðungsyfirlitum yfir hag ríkissjóðs.

Ég er lítt undir það búinn að gagnrýna ræðu hans, en þó vil ég benda á nokkur atriði.

Svo lítur út samkv. 3. blaðsíðu áramótayfirlitsins, að afkoma ríkissjóðs árið 1943 hafi verið hin glæsilegasta. En líti maður á 4. síðuna, er nokkuð öðru máli að gegna. Sú aðferð hefur verið viðhöfð, að 16,7 millj. kr. verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur, er komu til greiðslu á árinu 1943, eru taldar til reiknings á árinu 1942, og samsvarar þessi upphæð meiru en allur tekjuafgangurinn af árinu 1943 nemur. Er þetta eitt út af fyrir sig ærið umhugsunarefni, og mætti hæstv. ráðh. gefa nánari skýringar á þessu. Ef uppbæturnar hefðu verið taldar með gjöldum ársins 1943, hefði orðið um 400 þús. kr. rekstrarhalli í stað yfir 16 millj. kr. tekjuafgangs.

Annað atriði í ræðu hæstv. fjmrh. vildi ég minnast á nokkrum orðum. Hann sagði, að umframgreiðsla vegna strandferða hefði orðið 1818 þús. kr., og væri þessi halli svo hár, að engan veginn yrði við unað, svo að ríkisstj. hefði því gert ráðstafanir til úrbóta. Vildi ég leyfa mér að óska þess, að hæstv. ráðh. gæfi nánari skýringar á því, á hvern hátt þessar úrbætur verða framkvæmdar. Ég hef heyrt, að þessar ráðstafanir væru í því fólgnar, að leiguskipum þeim, sem Skipaútgerð ríkisins hefur haft til umráða að undanförnu, verði fækkað. Þetta mun hafa þær afleiðingar, að flutningar út um land verða miklu erfiðari en ella, en vörubirgðir þar hljóta að vera að þrotum komnar, enda hef ég heyrt, að svo sé allvíða vestan lands og norðan. Í þessu sambandi er vert að minnast þess, að hafís er mjög nærri ströndum landsins, og getur því auðveldlega farið svo, að flutningar á nauðsynjum út um land verði mjög ótryggir eða stöðvist. Þarf ekki að fjölyrða um þá hættu. Enn fremur er mér sagt, að flutningsgjöld með ströndum fram hækki eða hafi hækkað mjög mikið. Í því sambandi vil ég benda á eitt atriði. Vísitala sú, er gildir fyrir landsmenn alla, er miðuð við verðlag í Reykjavík. Hækkun flutningsgjalda frá Reykjavík út um land mun leiða til þess, nema stjórn og starfsmenn verðlagseftirlitsins verði enn röggsamari heldur en til þessa, að þær vörur, sem þessi háu flutningsgjöld koma á, verða dýrari út um land heldur en hér í Reykjavík. Þ. e. a. s. dýrtíðin verður þar meiri, án þess að það komi fram í hinni almennu vísitölu, sem miðað er við í landinu. Þetta er að sjálfsögðu ekki rétt. Vísitalan gefur þá ekki lengur rétta mynd af dýrtíðinni hjá því fólki, sem á við þetta verðlag að búa. Þetta þótti mér rétt að benda hæstv. ráðh. á og vil mega vænta þess, að hann láti þingið vita um, hverjar aðrar ráðstafanir heldur en þær, er hann hér nefndi, hann kynni að hafa ákveðið til þess að bæta úr halla við rekstur strandferðanna og einnig, hversu langt hefur verið gengið í þessum efnum, sem ég hef nú drepið á.

Hæstv. fjmrh. vék að því, að það væri ekki ofmælt, að fjárl. þau, er afgreidd voru hér á síðasta þ., hafi verið ógætileg. Ég vil taka undir þetta. Ég hef áður látið í ljós, að mér hefði verið það undrunarefni, að hann skyldi taka við þeim þannig. Sérstaklega furðar mig á því, að hann skyldi sætta sig við það, að lítill þingmeirihluti setti inn í fjárl. á síðasta augnabliki 10–14 millj. kr. upphæð til verðuppbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir. Hæstv. ráðh. hlaut að sjá og var enda á það bent, að slík samþykkt hlaut að leiða til þess, að kröfur um hliðstæðar og svipaðar fjárveitingar til annarra þarfa mundu einnig fram koma. Og einmitt þarna er að finna, eins og ég veit, að hæstv. ráðh. gerir sér nú ljóst, meginorsakirnar til hinnar mjög ógætilegu afgreiðslu á fjárlögunum.

Við þessa ógætilegu afgreiðslu fjárl. bætist svo það, að ekkert fé er þar ætlað til greiðslu uppbóta á verði kjöts og mjólkur á innlendum markaði, en þau gjöld áætlaði ríkisstj. 10–12 millj. kr. Yrðu þá þessar uppbótargreiðslur á þessu ári um 25 millj. alls, eða nærfellt sama upphæð og s.l. ár.

Hugmyndir hæstv. ráðh. um það, að dýrtíðin haldi áfram að magnast af þeim sökum, að kaupgjald verði sprengt upp, sé ég ekki ástæðu til að taka til umr. nú að þessu sinni. Mun síðar gefast tækifæri til þess. Get ég þó ekki stillt mig um að benda á það, að ég hygg, að sú kauphækkun, sem samþykkt var hjá Dagsbrún, þurfi ekki að hafa nein áhrif á dýrtíðina, ef verðlagseftirlitið og hæstv. ráðh. neytir aðstöðu sinnar til fulls, og vildi ég beina því til hæstv. ráðh. að taka þetta til athugunar.

Hæstv. ráðh. lét svo um mælt í sambandi við hin ógætilegu fjárlög, sem nú eru í gildi, að það væri ekki ætlun hans að taka lán til þess að standast útgjöld fjárl., heldur, að því er mér skildist, teldi ríkisstj. sig hafa rétt til þess að meta, hvaða útgjöld fjárlaga skyldu sitja á hakanum, ef ekki væri fé fyrir hendi að annast þessar greiðslur. Ég tók að vísu eftir síðar í ræðu hans, að hann gerði þó ráð fyrir, að lögboðin útgjöld yrðu innt af hendi, enda get ég ekki látið mér detta í hug, að hæstv. ráðh. álíti, að ríkisstj. geti stöðvað greiðslur á lögboðnum útgjöldum. Ég vil taka það skýrt fram, að ég get alls ekki á það fallizt, að ríkisstj. eigi að hafa í hendi sinni, ef lítið er um fé í ríkissjóði, að ákveða, hvað af útgjöldum fjárl. skuli inna af hendi og hver ekki. Ef ríkisstj. telur einhvern tíma á árinu, að sýnt sé, að tekjur ríkissjóðs hrökkvi ekki til þess að inna af hendi þær greiðslur, sem fjárl. ákveða, og hún telur sig ekki hafa heimild til eða vill ekki taka lán til þess að annast greiðslurnar, er ekki um annað að gera fyrir ríkisstj. heldur en að kalla Alþ. saman til fundar, leggja málið fyrir Alþ. og láta það svo ákveða, hvort gera eigi einhverjar breytingar á fjárl. eða ráðstafanir til tekjuauka. Ríkisstj. getur ekki tekið sér sjálfsvald og ákveðið, að einum skuli greiða 50%, öðrum 75% eða 100% af upphæðum fjárlaganna, og einhverjum ef til vill ekkert. Slíkt vald á engin ríkisstj. að hafa. Ætti að vera óþarft að fjölyrða um þetta. En vegna ummæla hæstv. ráðh. þótti mér rétt að taka það skýrt fram, að ég er algerlega ósamþykkur ummælum hans um þetta atriði.