03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2896)

4. mál, fjárlög 1945

Einar Olgeirsson:

Ég vil aðeins minnast á eitt atriði í sambandi við þær tekjur, sem gefur að líta á yfirlitinu um afkomu ríkissjóðs árið 1943. Það er auðséð, að fulltrúar Sósfl. í fjvn. voru ekki of bjartsýnir, eins og álit margra var, þegar tekjur voru áætlaðar 70 millj. kr. Nú hefur það sýnt sig, að tekjurnar urðu ekki 70 millj., heldur 109 millj. Annars er ekki ástæða til þess að eyða mörgum orðum um útkomu ríkissjóðs eða yfirlit hæstv. fjmrh., sem hann gaf um afkomu ársins 1943.

Hins vegar er annað atriði í ræðu hans, sem ég get ekki að mér gert að gera að umtalsefni og kom mér á óvart. Hæstv. fjmrh. talaði um það — og með hita — að svo framarlega sem verkamenn ætluðu að fara að hækka kaup sitt, eins og gert var nú nýlega, væri ekki um annað að gera en að sleppa öllu lausu og láta dýrtíðina vaxa í landinu og láta þjóðina fá að kenna á því, hvað af slíku mundi leiða. Mér finnst undarlegt, að hæstv. fjmrh. skuli bera slíkt fram, eftir að sá sami fjmrh. hefur tekið á móti þeim fjárl., er taka „faktiskan“ þátt í að láta nokkra tiltölulega efnaða menn fá aðra eins verulega hækkun á sínum tekjum eins og gert er með afgreiðslu síðustu fjárlaga. Það er undarlegt, ef kauphækkun verkamanna á endilega að vekja hæstv. fjmrh. til þess að kasta fram hótunum um, að nú sé verið að leiða atvinnuleysi yfir þjóðina, en kröfum frá nokkrum vel efnuðum mönnum í landinu, sem eiga fylgismenn innan veggja hins háa Alþ. og fara fram á tugi millj. úr ríkissjóði, sem teknar eru úr vösum alþýðunnar, er sjálfsagt að verða við til þess að halda niðri dýrtíðinni. Mér finnst þetta því koma úr hörðustu átt, þegar vitað er, að kauphækkun verkamanna þarf ekki að hækka verðlagið. Hins vegar er vísitalan beinlínis fölsuð með þessum fjárframlögum á kostnað launþega í landinu, því að þeirra fé er notað til þess að greiða niður verð landbúnaðarafurða í þeim tilgangi að halda niðri vísitölu og kaupgjaldi. Það er því sízt af öllu ástæða fyrir hæstv. fjmrh. að koma fram með hótanir í sambandi við þessa kauphækkun verkamanna, sem nýlega átti sér stað. Ég verð að segja það, að það er af einhverjum öðrum ástæðum heldur en af umhyggju fyrir afkomu ríkissjóðs, að slíkar hótanir skuli koma fram í sambandi við kauphækkun verkamanna, og eiga þær heima á öðrum stað og á öðrum tíma. Ég fæ því ekki betur séð en að þessar hótanir frá hæstv. fjmrh. um, að þessi kauphækkun þurfi að leiða atvinnuleysi yfir þjóðina, séu hótanir gegn því, að verkamenn fái bætt kjör, en ekki aðvörun til þjóðarinnar út af dýrtíðinni.

Ég tel þetta því mjög óviðeigandi af hæstv. fjmrh., þótt hins vegar sé gott að vita, hvað undir býr og hvað ríkisstj. hefur í huga með þess háttar pólitík.

Þess vil ég geta hér, einmitt út af ummælum hæstv. fjmrh. viðvíkjandi tekjuöflun og hvernig fjárl. fyrir árið 1944 voru búin í hendur honum, að Sósfl. hefur tekið heldur dauflega í að aðstoða ríkisstj. við það, sem hún hefur farið fram á. Sósfl. álítur sem sé, að það séu verk hinna 28 manna, sem gerðu hér hið alræmda samsæri, hvernig fjárl. fyrir árið 1944 voru útbúin, og að samþ. voru hinar háu verðuppbætur. Það er nú verk þessara sömu 28 manna að útvega fé til þess að greiða þau útgjöld, sem ákveðið er samkvæmt fjárl., og það er þeirra að segja til um, hvar peningar séu til þess að greiða þau með. Við getum skorað á hæstv. ríkisstj., hafi hún möguleika á, að láta þessa menn standa við það, sem þeim bar að gera. Sósíalistar greiddu atkv. á móti fjárl. eftir þá samþykkt, sem meiri hl. þingsins hafði veitt þeim, og þeir lýstu yfir því, að ríkisstj. sæti á ábyrgð þess meiri hluta.

Út af hótun hæstv. fjmrh. um að sleppa dýrtíðinni lausri vil ég taka það fram, að ég álít, að hæstv. ríkisstj. bæri að kveðja Alþ. til fundar til að tilkynna það, ef hún hefur slíkt í hyggju, svo að þingið geti athugað, hvort ekki væri unnt að gera einhverjar aðrar ráðstafanir til að halda dýrtíðinni niðri. Það er t. d. vitað, að viðskiptaráðið er skipað einhliða þeim mönnum, sem standa hæstv. ríkisstj. næst og henni finnst eiga að ráða vöruverðinu, en það eru heildsalarnir og þeir, sem þeim eru skyldir. Enginn fulltrúi er þar frá neytendum eða alþýðusamtökunum. Það er ekki hægt að álíta, að unnið sé að lausn þessara mála eins og hægt er að gera kröfur til, meðan vitað er, að heildsalarnir raka saman milljónagróða og setja upp firma erlendis til að hækka vöruverðið, án þess að viðskiptaráðið geri nokkurn hlut í málinu. Meðan slíku fer fram, virðist óþarfi að tala um það sem ástæðu til að sleppa dýrtíðinni lausri, þó að verkamenn fái nokkra hækkun á kaupi sínu. Ég vil láta það koma fram, að sé það hugmynd hæstv. ríkisstj. að framkvæma þessa pólitík, þá væri réttast að kveðja Alþ. saman, svo að það gæti gert sínar ráðstafanir í málinu.