03.03.1944
Sameinað þing: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (2900)

4. mál, fjárlög 1945

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Ég tel ekki viðeigandi, eins og sakir standa, að halda uppi deilum út af því, sem hv. þm. A-Húnv. drap á um afgreiðslu fjárl. Hv. þm. ættu sem minnst að vega að mér fyrir það, að fjárl. eru úr garði gerð eins, og þau eru.

Út af ummælum hv. þm. A-Húnv. (JPálm) vil ég taka það fram til leiðréttingar, að ríkisstj. hefur ekki gefið neinar skuldbindingar um það, að sú kauphækkun, sem orðið hefur hér, verði tekin í verðlagið. Það er verðlagsráð, er stofnað var með sérstökum l., sem á að fjalla um þessi mál, og það hefur vald til að ákveða, að hve miklu leyti kauphækkanir hafa áhrif á verðlagið.

Hv. 3. landsk. (HG) og hv. þm. A-Húnv. (JPálm) minntust á færslur á uppbótum landbúnaðarafurða 1942, og skal ég til skýringar í því sambandi taka fram, að samkv. l. um framkvæmdasjóð var megintekjuafgangi ársins 1942 ætlað að ganga til þess sjóðs. Það var því ekki hægt að gera hvort tveggja að leggja tekjuafganginn í framkvæmdasjóð og greiða uppbæturnar, enda var svo ráð fyrir gert í öndverðu, að uppbæturnar kæmu til frádráttar tekjuafgangi nefnds árs. Greiðsluna var raunar ekki hægt að inna af hendi að fullu, fyrr en seint á árinu 1943, þegar búið var að loka reikningum ársins 1942, en uppbæturnar komu eigi að síður til gjalda á reikningi ársins 1942. Get ég ekki séð, að þetta þurfi að rugla reikningana. Þetta er sérstök reikningsfærsla, sem getur ekki blandað málum á nokkurn hátt.

Hv. 3. landsk. (HG) spurði, hvort hugmyndin væri að minnka tap skipaútgerðarinnar. Ég get sagt honum, að talað hefur verið um að hækka farmgjöldin, en ég get ekki gefið honum frekari upplýsingar að svo stöddu, enda heyrir þetta undir atvmrn., og get ég ekki sagt nú, hvernig þetta muni verða framkvæmt.

Hv. 2. þm. S-M. (EystJ) spurði, hvernig horfði með uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir á þessu ári. Eins og flestum hv. þm. er kunnugt, hefur verið gengið frá samningum um sölu á útfluttu kjöti, og eftir útreikningi þeirra manna, sem þessu eru kunnugastir, er gert ráð fyrir, að greiða þurfi 6½ millj. með kjötinu eingöngu. Þá er þess að geta, að ull og gærur eru enn óseldar og óvíst, hvað fæst fyrir þær vörur. Fyrir nokkru var tíundi hlutinn af gærunum seldur fyrir sæmilegt verð, og menn vonuðu, að það, sem eftir var, mundi seljast sama verði, en nú er vissa fyrir því, að svo verður ekki. Er með öllu óvíst, hvaða verð fæst fyrir gærur, hvort það verður svipað verð og í fyrra eða lægra, og því er nú ómögulegt að segja, hver uppbótin verður.

Hv. 2. þm. Reykv. segir, að ég hafi í hótunum um að sleppa dýrtíðinni lausri. Ég var ekki með neinar hótanir, en talaði aðeins um kaldan veruleika. Hann virðist ekki hafa tekið eftir því, sem ég sagði. Ég sagði orðrétt: „Ef sýnilegt þykir, að kaupgjaldið í landinu verði knúið upp, svo að ekki sé hægt að halda verðlaginu í skefjum, þá er líklegt, að hætt verði að greiða niður dýrtíðina“.

Það einkennilega er, að þessi hv. þm. hefur jafnan áður talað mest á móti því, að verðlaginu sé haldið í skefjum með uppbótum, svo að mér skilst, að það ætti að vera í samræmi við stefnu hans og vilja, að þessu verði hætt. Það er því kynlegt, að hann rýkur upp einmitt nú út af þessu atriði, og fæ ég ekki skilið, hvers vegna það kemur svona illa við hann, að verðuppbótargreiðslum sé hætt og dýrtíðinni þar með sleppt lausri, eftir allt, sem hann hefur áður um þetta sagt.