06.09.1944
Neðri deild: 45. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2906)

86. mál, Áfengisverzlun og Tóbakseinkasala

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Frv. skylt þessu var lagt fyrir síðasta Alþ., en náði þá ekki fram að ganga, og er því þetta frv. lagt fram nú, en í því er lagt til, að þessi tvö fyrirtæki verði sameinuð, þegar fjmrh. telur það hagkvæmt.

Sameining þessara fyrirtækja er hagkvæm af ýmsum ástæðum. Það er m. a. auðvelt að reka þau sameinuð með sömu stjórn og sama skrifstofuhaldi og nú er aðeins notað við annað þeirra. Það verður ekki hjá því komizt, áður en langt um líður, að byggja yfir bæði þessi fyrirtæki, en það, hvernig byggt verður, hlýtur að fara mjög eftir því, hvort þau verða sameinuð eða ekki.

Þessar framkvæmdir eru mjög aðkallandi, því að það er með öllu óverjandi að hafa áfengisverzlun ríkisins lengur í sömu húsakynnum, og kemur þar bæði til greina eldhætta og annað.

Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.