23.10.1944
Neðri deild: 69. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

87. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Ég skil það, að ef hv. þm. N.-Ísf. kemur íþróttastarfseminni þarna inn á eftir líknarstarfsemi, en að öðru leyti er gr. óbreytt, eins og forseti sagði úr forsetastóli (SB: Það er ekki rétt.) (Forseti les upp brtt. þm. N.-Ísf.) — Nú, þá er íþróttastarfsemin sett þarna inn í líka, og bendir þetta til þess, að hann geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh., Pétur Magnússon, sé svo sannfærður um, að íþróttastarfsemi sé ekki menningarstarfsemi, að það þurfi að taka það fram sérstaklega í gr. Það ber ekki mikinn vott um traust til Péturs Magnússonar, sem á að semja þessa reglugerð, ef taka þarf það hér sérstaklega fram, hvað eru menningarmál.

Ég þekki það marga menn, sem reyna að nota happadrætti Háskólans, þegar þeir komast í vandræði með skattaframtöl sín, að ég veit, að margir mundu telja fram gjafir til ýmiss konar starfsemi, sem ekki yrði hægt að kontrólera, til að útskýra framtöl sín. Þetta þekki ég af eigin raun. Það hefur oft verið hægt að kontrólera tekjur manna af happadrætti Háskólans, en þetta verður erfiðara viðfangs með gjafir til alls konar menningarmála.

Ég vildi gjarnan, að n. athugaði málið betur, og tel víst, að þá kæmist hún að raun um, að þetta frv. á engan tilverurétt. Það opnar svo vítt svið fyrir starfsemi, sem hægt er að telja til líknarstarfsemi, að það er ekkert vit í því. Og þó að hæstv. ráðh. reyni að bremsa það með reglugerð, þá getur hann það ekki, svo að skynsamlegt sé, því að til ýmiss konar líknarstarfsemi, sem rétt væri að hafa skattfrjálsa, væri önnur höfð það, getur hann ekki náð með reglugerð. Þess vegna er það eina rétta með þetta frv. að fella það.