09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

27. mál, skipun læknishéraða

Eiríkur Einarsson:

Ég þarf ekki að segja nema örfá orð um smávægilega till., sem ég flyt á þskj. 186. Hún er eingöngu til samræmis við þá breyt., sem nú er orðin á frv., og lýtur að því, að núverandi héraðslæknir í Eyrarbakkahéraði eigi, þegar til kemur, völ á, hvort hann vill heldur þjóna sem héraðslæknir í Eyrarbakka- eða Selfosshéraði. Ég þarf ekki að eyða neinum orðum að því, að það sýnist sjálfsögð kurteisi og sanngirni, að lögfest sé, að hann eigi völ á þessu, þó að ég sé ekki í efa um, að heilbrigðisstj. mundi líta eins á það, þó að það stæði ekki skráð, því að þessi héraðslæknir er alls góðs maklegur og hefur slitið kröftum sínum við að þjóna héraði, sem er einum manni ofviða. En mér finnst þó, að ekki megi minna vera en tekið sé fram, að hann eigi ákveðið kost á að velja þar á milli í samræmi við það, sem tekið er fram um lækninn á Fljótsdalshéraði, þegar Egilsstaðahérað verður stofnað.

Að öðru leyti læt ég ekki málið til mín taka og læt atkv. mitt segja til um hinar nýju brtt., sem fram eru komnar.