09.03.1944
Efri deild: 25. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

27. mál, skipun læknishéraða

Gísli Jónsson:

Það er auðséð, að sú stefna er orðin uppi hér að íþyngja dreifbýlinu um læknakost. Skal ég ekki ræða mikið um það, þeir bera ábyrgð á því, sem standa að þeim breyt., er gerðar hafa verið á læknaskipuninni. Er þess þá að vænta að mæta þeim sjálfsögðu kröfum frá þeim, sem íþyngt hefur verið með lagabreyt., og styrkja þá á allan hátt, ekki eingöngu til að koma upp læknisbústöðum, heldur einnig til að reka þá í framtíðinni. Ég skal ekki fara nánar út í það atriði, en ég mun ekki geta fylgt neinni af þessum brtt., en mun bera fram eina brtt. við frv. sjálft.

Í grg. frv. segir, að kosið hafi verið að fjölga íbúum Borgarfjarðarhéraðs með því að láta Loðmundarfjörð heyra þar undir að nafninu til. Ekki er hægt að sjá, að það sé að ósk þessara manna, og vitanlega er verið að þvinga þessa menn til að tilheyra öðru læknishéraði en þeir vilja sjálfir heyra til, enda kemur fram að síðustu, að þeir skuli hafa rétt til að sækja lækni jöfnum höndum til Seyðisfjarðar. Ég athugaði þessar vegalengdir í morgun, og ég tel fullvíst, að þessir menn muni alls ekki sækja lækni til Borgarfjarðar, sé nokkur möguleiki að fá hann á Seyðisfirði. Hvers vegna á að þvinga þessa menn til að tilheyra Borgarfjarðarhéraði og taka þátt í kostnaði við læknisbústaðinn þar, þegar þeim er á allan hátt miklu betra að tilheyra öðru læknishéraði? Ég skal taka fram, að ég er ekki í neinum kunningsskap við þessa menn. Ég þekki þá ekki neitt, en ég sé, hvernig aðstaðan er. Þetta getur ekki verið komið inn í frv. af öðrum ástæðum en þeim, að það eigi að réttlæta, að Borgarfjarðarhérað er gert sérstakt læknishérað. Hv. 1. þm. N.-M. skýrði svo frá, og voru rök hans um það tekin fullkomlega gild, að Borgarfjörður sé gerður að sérstöku læknishéraði, af því að íbúarnir þar væru svo einangraðir. En þessi sama ástæða á ekki við þá 44 menn, sem búa í Loðmundarfirði, því að með því að þvinga þá til að heyra til Borgarfjarðarhéraði er verið að einangra þá enn meira og gera þeim erfiðara um læknishjálp, auk þess sem með þessu er verið að skipa þeim að standa undir kostnaðinum með Borgfirðingum. Þar eru nú um 300 menn, og vafalaust fjölgar þar fremur en fækkar. Þeir eiga því að geta staðið undir sínum bústað, þó að annar hreppur sé ekki þvingaður til að hjálpa þeim, þótt þeir geti þar einskis góðs notið af sjálfir. Ég vænti því, að brtt. mín verði samþ., og leyfi mér að afhenda hæstv. forseta hana.