11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Emil Jónsson:

Ég vil fyrst með nokkrum orðum gera grein fyrir, hvernig frv. það, sem hér liggur fyrir, ber að. Með bréfi dags. 30. f. m., mótteknu rétt um það leyti, sem Alþ. var að koma saman, var flokkunum sent frv. þetta sem algert trúnaðarmál til athugunar. Óskað var eftir, að svör flokkanna væru komin ríkisstj. í hendur eigi síðar en 10. þ. m. Virtist því mega álíta, að flokkarnir hefðu málið til athugunar þessa tíu daga og að ríkisstj. mundi að þessum tíma liðnum taka til athugunar svör flokkanna. En þetta fór á annan veg. Áður en kunnugt var um svar flokkanna, er málinu útbýtt á Alþ., eins og engra till. hefði verið leitað, 5. þ. m. að ég ætla, og útvarpsumr. ákveðnar, einnig áður en svörin komu.

Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstj., hvort hún álíti, að svona vinnubrögð séu vænleg til góðs árangurs í svo stóru máli?

En þetta er því miður ekkert nýtt. Hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft þessi vinnubrögð oft áður eða svipuð. Hún ákveður að fara sínar leiðir, hvað sem flokkunum líður og án samráðs við þá, og því fer oft sem fer, að árangurinn verður lítill eða enginn. Ef einhver alvara hefði fylgt, hefði vitanlega átt að reyna samvinnu við flokkana, gera a. m. k. tilraunina alvarlegar en hér hefur verið gert og sjá svo til, hver útkoman yrði.

Þetta er um formshlið málsins.

Enda þótt það hafi oft verið gert áður, bæði af mér og öðrum, í útvarpi og annars staðar, tel ég vera nauðsynlegt að rifja upp fyrir sér í upphafi í mjög stórum dráttum gang dýrtíðarmálanna í heild til þess að geta betur gert sér grein fyrir, hvaða ráð hafa verið ráðin í þessum málum, hvaðan þau hafa komið og hvernig þau hafa reynzt.

Ef við hverfum aftur til ársins 1939, finnum við fyrstu aðgerðirnar: 1) Hlutfallið milli kaupgjalds láglaunaðra verkamanna og verðlags landbúnaðarafurða var sett fast, eins og það var þá, 2) húsaleigan var fest, 3) verðlagseftirlitið skerpt og 4) bönnuð hækkun á útlánsvöxtum banka.

Árið 1940 voru tengslin slitin, sem bundin höfðu verið milli kaupgjalds og verðlags landbúnaðarafurða.

Árið 1941 fékk ríkisstj. þáverandi heimild til: 1) að lækka tolla á nauðsynjavörum og jafnvel fella þá niður með öllu af sumum vörutegundum, 2) að ákveða farmgjald af vörum, 3) verja fé úr ríkissjóði til uppbóta, styrktar og verðjöfnunar, 4) að innheimta ýmsar aukatekjur í þessu skyni. Þessar heimildir notaði ríkisstj. ekki nema að litlu leyti, og þó of seint, og dýrtíðin hélt áfram að vaxa.

Síðari hluta þessa árs bar Alþfl. fram sínar till.: 1) Samræming verðlagseftirlits hjá einum aðila og skyldi taka til innlendra jafnt sem erlendra vara, 2) fastari grundvöll fyrir verðlagseftirlitið að starfa á, 3) afnám tolla á ýmsum nauðsynjavörutegundum, 4) lækkun farmgjalda, 5) stofnun dýrtíðarsjóðs o. fl. Á þessu haustþingi 1941 gerðist þó ekkert jákvætt, og hvorki þessar till. né aðrar náðu fram að ganga.

Um áramótin 1941 og 1942 gerðust aftur þeir atburðir, sem öllum eru enn í fersku minni, þegar gerðardómsl. voru sett og stjórnarsamvinnan rofnaði.

Síðustu aðgerðir af hálfu Alþ. eru svo breyt. á dýrtíðarl. 1943, þar sem nefnd sex manna er falið að ákveða hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags, og ákvæðin um að greiða úr ríkissjóði það, sem á vantar, að bændur fái fyrir framleiðslu sína það verð, sem sex manna n. lagði grundvöllinn að og Hagstofan síðan reiknar út.

Þetta er í stuttu máli annáll þess, sem gerzt hefur í dýrtíðarmálunum frá ársbyrjun 1939 og til þessa dags.

Afstaða Alþfl. til þessara mála hefur alla tíð verið í meginatriðum hin sama og kemur fram í till. þeim, sem bornar voru fram í frv.formi 1941 og áður er lauslega getið.

Alþfl. átti þátt í, að húsaleigul. voru sett 1939, og má fullyrða, að þau hafi í aðalatriðum náð tilgangi sínum. Þó að þau í einstöku tilfellum komi óþægilega við og séu erfið í framkvæmd, hefur þó með þeim tekizt að hafa mjög veruleg áhrif í þá átt, sem til var stofnað, að halda dýrtíðinni niðri, — eða hvernig ætli húsaleiga væri í Reykjavík og reyndar víðar nú, ef hömlur hefðu ekki verið á hana lagðar?

Þá hefur flokkurinn ávallt haldið því fram, að réttlátast væri að binda verðlag landbúnaðarafurðanna við kaupgjald verkamanna, ef ætti að binda það á annað borð, í því hlutfalli, sem var á milli 1939, en ekki á þann hátt, sem gert var af sex manna n.

Þetta hefur svo oft verið rætt og rökstutt af okkur, að ég hirði ekki um að fara frekar út í það hér.

Hvað má svo af þessum aðgerðum læra? Hverjar hafa reynzt miður? Og hvernig verður stefnan bezt mörkuð í framtíðinni út frá þeirri reynslu, sem fengizt hefur?

Þessu er í raun og veru fljótsvarað. Húsaleigul., verðlagseftirlit, það sem það hefur náð, tollalækkanir og samræming á landbúnaðarafurðaverði og kaupgjaldi verkamanna, eins og það var bundið 1939, hefur yfirleitt verkað í rétta átt, eins og til var stofnað í upphafi. Gerðardómsl. reyndust afar illa, eins og Alþfl. sagði fyrir, enda voru þau fljótlega afnumin, eins og kunnugt er.

Verðlagning sex manna n. á landbúnaðarafurðunum virðist einnig stefna út í hreinar ógöngur, eins og Alþfl. hefur einnig sagt fyrir, og það svo, að hæstv. ríkisstj. hefur séð þann kost vænstan að koma hér fram með brtt. í því efni. Enda mun nú komið svo, að greiðslur úr ríkissjóði til uppbótar á það verð, sem þessar vörur eru nú seldar fyrir, munu nema um 22-25 millj. kr. á ári, og þegar enn bætist við um 10% hækkun, er sýnt, að annað hvort verður að ske: verðlagið og þar með vísitalan að hækka sem því svarar með þeim eftirköstum, sem það nú kann að hafa, eða greiðslurnar úr ríkissjóði verða að hækka sem þessu nemur til viðbótar við þær 22–25 millj. kr., sem þegar eru greiddar, og það er bersýnilega ríkissjóði ofviða með öllu, sjálfsagt nógu erfitt að standa undir þessum gjöldum, eins og er.

Þetta er orsökin til þess, að frv. ríkisstj. er nú fram komið, og er í sjálfu sér bein viðurkenning á því, að þetta sexmannanefndar-fyrirkomulag er þjóðinnni ofvaxin byrði.

En svo kemur það merkilegasta af öllu: Hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst að kippa þessu í lag, því að um efnishlið frv. þess, er hér liggur fyrir, er það í stuttu máli að segja, að þar er stungið upp á að fara þá einu leið í dýrtíðarmálunum, sem þegar hefur sýnt sig að vera ófær. Það er búið að reyna þessa leið eða svipaða, og það var hætt við hana aftur, vegna þess að hún reyndist þeim, sem fyrst prófuðu hana, alófær, fyrir utan allt annað, sem segja má um hana. Höfuðstefna frv. er nefnilega sú að ákveða með l., hvert kaupgjald skuli vera í landinu, og ákveða þetta einhliða án viðræðna við þann aðilann, sem við þetta fyrirkomulag á að búa. Þetta var reynt með setningu gerðardómsl. um áramótin 1941 og 1942, og allir muna, hvernig þeirri tilraun lauk. Sams konar eða svipaða aðferð er gert ráð fyrir að viðhafa um verð landbúnaðarafurðanna.

Ég hélt satt að segja, að hverjum heilskyggnum manni ætti að vera ljóst, að þessa leið er ekki hægt að fara aftur. Það eru engar minnstu líkur til þess, að svona tilraun mundi reiða öðruvísi af nú en þá. Þegar af þessari ástæðu er óþarft að rekja efni frv. miklu nánar, enda hafa þeir gert það nokkuð, sem talað hafa hér á undan mér. — Eitt aðalákvæði frv. er, að kaup skuli lækka um 10% frá því, sem nú er, eins og segir í 3. gr. frv.:

„Frá byrjun næsta mánaðar eftir gildistöku laga þessara, skulu laun eða kaup fyrir hvaða starf, sem vera skal, eða annað, sem dýrtíðaruppbót hefur verið greidd af, reiknuð með aðeins 90% af gildandi framfærsluvísitölu, þó aldrei af hærri vísitölu en 270 stig, sbr. 2. gr. Næsta mánuð á eftir skal reiknað með 90% af gildandi vísitölu og þar til öðruvísi kann að verða ákveðið.“

Þetta þýðir, að rúmum mánuði eftir, að l. ganga í gildi, verður allt kaupgjald lækkað um 10%, og þessi lækkun getur orðið meiri, ef vísitalan fer yfir 270, því að aldrei skal reikna af hærri vísitölu en 270 stigum.

Enn fremur er ákveðið, að á grunnkaupshækkanir, sem eiga sér stað á tímabilinu 1. sept. 1944–1. júlí 1945, skuli enga grunnkaupshækkun greiða. Af þessu mundi t. d. leiða það, að félög, sem nýlega hefðu fengið einhverja hækkun á kaupi sínu fyrir 1. sept., mundu fá 90% vísitöluhækkun á hana, en hin ekkert, sem hækkunina hafa fengið eftir þann tíma eða eru að fá hana nú, kannske til samræmingar við hina, sem áður höfðu hækkað. Þetta ósamræmi er líka beinlínis stórhættulegt, því að það ýtir undir alls konar skæruhernað, en það fyrirbrigði álít ég einna hættulegast fyrir hvort tveggja í senn, heilbrigt atvinnulíf í landinu og raunhæfa verkalýðsbaráttu. Hann skapar óvissu, glundroða og upplausn, sem engum er til gagns, þegar til lengdar lætur, en öllum til ills.

Að þessi leið sé opin, leiðir af því, að í frv. er grunnkaupshækkun þó hvergi bönnuð, og að hún verði notuð, hefur reynslan sýnt á tíma gerðardómsl. Allt í allt má segja, að þessi einhliða ákvörðun kaupgjaldsins sé leið, sem ekki komi til greina, nema stórkostleg vá sé fyrir dyrum og engin önnur leið til úr ógöngunum.

Nú má að vísu segja, að hér sé voði á ferðum fyrir þjóðfélagið, ef svo heldur áfram til lengdar sem nú horfir í dýrtíðarmálunum, en ég vil á hinn bóginn halda því fram, að ekki hafi verið reyndar til hlítar aðrar leiðir, sem aðgengilegri eru og ég mun minnast á síðar. Af þessum ástæðum get ég ekki fylgt frv., og vegna þess grundvallarmismunar, sem er á milli skoðunar okkar Alþýðuflokksmanna á því, hvernig leysa beri málið, og stefnu þeirrar, er í frv. kemur fram, geri ég tæpast ráð fyrir, að því verði breytt í það horf, að við getum við unað.

Um önnur atriði frv., verðlagningu landbúnaðarvaranna og eignaraukaskattinn, er það að segja, að fyrra atriðið er bundið við launaákvæðin og verður því ekki tekið upp sjálfstætt og síðara atriðið, eignarskatturinn, heyrir eiginlega ekki þessu máli til beinlínis og virðist tekið upp til þess eins, að samræmi nokkurt verði í meðferðinni á eignamönnum, launþegum og bændum, og er út af fyrir sig ekki nema gott um það að segja. Reyndar er ég hræddur um, að ef ákvæðin um eignaraukaskattinn yrðu lögfest eins og þau eru í frv., yrði framkvæmd þeirra l. talsverðum erfiðleikum bundin, en ég tel þýðingarlaust að ræða það á þessu stigi málsins.

Þá verður þeirri spurningu auðvitað varpað fram: Hvað er hægt að gera? Eða er ekkert hægt að gera? Þessari spurningu vildi ég svara á þá leið, að ég tel miklar líkur fyrir því, að leið í þessum málum, sem ég vil kalla samningsleið, sé ekki útilokuð og hana beri að reyna, a. m. k. áður en farið er inn á þær brautir, sem í frv. eru markaðar og næstum með óyggjandi vissu er hægt að gera ráð fyrir, að leiði til sundurlyndis og skæruhernaðar og nái þar að auki ekki tilgangi sínum. Þetta úrræði, sem hér er tæpt á, er í meginatriðum á þá leið, að leitazt verði við með samningum við hlutaðeigandi aðila, þ. e. Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendafélagið annars vegar og bændur hins vegar, að fá bæði verðlag landbúnaðarafurða og kaupgjald í meginatriðum fest á núverandi grundvelli og samið um, að þetta gildi í 1–2 ár.

Eru nokkrar líkur til, að þetta takist? Þýðir nokkuð að tala um þetta? — spyrja menn. Og ef svo er, hvernig stendur á, að þetta hefur ekki verið reynt fyrr? — Þessu er aftur því til að svara, að það er ekkert leyndarmál lengur, að viðræður hafa farið fram milli flokkanna allra um möguleika á myndun fjögurra flokka samstjórnar. Eitt af þeim málum, sem þar þarf fyrst að leysa á viðunandi hátt, er einmitt þetta mál, því að engin stj. getur setið með því, að allt fari fram eins og gert hefur hingað til. Í þessum umr. hefur komið fram, að leita þurfi þessara aðila til viðtals á þeim grundvelli, sem nefndur er hér að ofan, og þessu hefur verið vel tekið, fyrst af flokkunum öllum og síðan af aðilum þeim, sem náðst hefur til. Stjórn Alþýðusambands Íslands hefur lýst yfir því, að hún sé fyrir sitt leyti meðmælt því, að gerðir verði heildarsamningar um kaup og kjör til tveggja ára í meginatriðum á grundvelli núverandi samninga stéttarfélaganna með nauðsynlegum lagfæringum kaups og kjara á hinum ýmsu stöðum og starfsgreinum, og að hún væri reiðubúin til að hefja viðræður við fulltrúa atvinnurekenda um þetta efni og leita umboðs sambandsfélaganna til samninga, ef líkur eru til, að samkomulag náist, enda verði um leið samkomulag um verð landbúnaðarafurða í sanngjörnu hlutfalli við almenn launakjör á grundvelli þess verðs, sem verið hefur undanfarið, og gerðar ráðstafanir til að tryggja stöðuga atvinnu og fyrirbyggja atvinnuleysi með öllu eftir nánara samkomulagi um þessi atriði o. fl. Vinnuveitendafélag Íslands hefur einnig fyrir sitt leyti lýst sig samþykkt viðræðum um þetta efni, og þær hafa verið hafnar fyrir atbeina þingflokkanna.

Ég þarf ekki að lýsa því, hversu geysiþýðingarmikið atriði það væri fyrir þjóðfélagið í heild, ef þessir samningar gætu tekizt, verðlagið og kaupið yrði fest um ákveðið tímabil, segjum 1–2 ár. Vinnufriður og festa fengist í allar framkvæmdir. Flokkarnir hafa allir lýst sig fylgjandi þessari tilraun, eins og áður er sagt, svo að enn þá ætti a. m. k. að vera von um, að þetta mætti takast. Þetta mundi þýða, ef samningar takast á þessum grundvelli, að samið yrði í meginatriðum á þann hátt, sem samkomulag hefur orðið um síðast hjá stéttafélögunum, og samræmt hjá hinum, sem ósamið eiga. Að vísu eru alltaf til ævintýramenn, sem annaðhvort enga samninga vilja eða þá a. m. k. hlíta ekki því, sem bezt þekkist annars staðar, en þess er að vænta, að atvinnuöryggi og trygging fyrir því óskertu, sem þannig fæst, vegi þyngra á næstunni hjá verkamönnum og launþegum, vel flestum, en ævintýrapólitík, sem fyrr eða síðar leiðir til glundroða og ófarnaðar.

Í frv. ríkisstj. er farið fram á lækkun á kaupgjaldinu, og þær raddir munu áreiðanlega heyrast háværari mjög bráðlega, sem lækkunar krefjast. En á meðan ástandið helzt í atvinnumálum okkar svipað og nú og aðalútflutningsvörurnar er hægt að framleiða með núverandi tilkostnaði, væri vænlegra til árangurs að reyna fyrst að stöðva hækkanirnar og festa verðlagið í því formi, sem það er, meðan verið er að bíða eftir að sjá, hvernig hlutunum verður skipað í heiminum að stríði loknu, en sá tími er nú vonandi ekki langt undan. Ef leysa á þessi mál með samkomulagi við aðila, — og það er sú eina heilbrigða og varanlega lausn, sem til greina kemur að mínu áliti, — verður áreiðanlega að halda sér við festingu með lagfæringum til samræmis, en ekki við lækkun.

Um möguleikana til að ná samkomulagi um svipaða festingu á landbúnaðarvöruverðinu, eins og hér hefur verið nefnd viðvíkjandi kaupinu, skal ég ekkert segja með vissu, en ekki fyndist mér óhugsandi, að svipuðum árangri væri hægt að ná þar og það af þessum ástæðum:

1. Ríkssjóður getur ekki hækkað meðgjöfina með þessum vörum úr þeim 22–25 millj. kr., sem nú eru greiddar, og veruleg hækkun á verðinu nú mundi koma af stað nýjum glundroða.

2. Verðlagningin og verðtryggingin samkv. útreikningi sex manna n. gildir aðeins, „meðan núverandi ófriðarástand helzt“, en fellur niður að því breyttu eða loknu. Væri því mikið öryggi fyrir bændur að fá tryggingu fyrir sama verði 1–2 ár eða jafnlengi og kaupsamningar eru ákveðnir.

3. Það hefur komið í ljós af útreikningum hagstofunnar, að um skeið hefur verðlag landbúnaðarafurða verið tiltölulega miklu hærra en það hefði átt að vera, jafnvel samkv. útreikningi sex manna n., að vísu áður en hann gekk í gildi, og gefur það tilefni til að ætla, að einhver tilslökun á verðinu nú ætti þess vegna að geta orðið auðveldari en ella.

Ég vil því ætla, að á þessu sviði, landbúnaðarvöruverðinu, sem raunar hefur mest áhrif á framfærsluvísitöluna af öllu, séu einnig möguleikar til samkomulags á þeim grundvelli, sem ég hef hér minnzt á. Af öllu þessu vil ég svo draga þá ályktun, að hæstv. ríkisstj. sé á rangri braut með frv. sitt, þar sem í meginatriðum er farið inn á að lögbjóða kauplækkun; hin aðferðin sé réttari og vænlegri til varanlegs árangurs, að ná samningum um að festa það, sem er, fyrst um sinn, á meðan séð er, hverja stefnu og hverja þróun atvinnuvegir okkar geta tekið í nánustu framtíð.