11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (2953)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. — Einhver allra vandasömustu og viðkvæmustu deilumál, sem borið hefur að höndum á síðari tímum, eru hin svonefndu dýrtíðarmál, þetta veigamikla styrjaldarfyrirbrigði. Hjá íslenzku þjóðinni er á þessum málum gerólíkur svipur því sem verið hefur og er hjá flestum öðrum þjóðum veraldarinnar. Víðast meðal annarra þjóða hefur verið stríðsástand, sem hefur orsakað það, að allri orku hefur þurft að beita að sókn og vörn í stríði eða baráttu gegn ófyrirleitnum erlendum yfirgangi. Launum og verðlagi hefur þess vegna verið tiltölulega auðvelt að halda í skefjum. Fjármagnið hefur farið í stríðskostnað víðast hvar, og því hafa viðkomandi þjóðir þurft að takmarka öll lífsþægindi.

Hjá okkur hefur hamingjan verið það gjöful, að þjóð okkar hefur losnað við að taka þátt í stríði, þótt hingað hafi flutzt fjölmennar hersveitir annarra þjóða. En stríðið hefur orsakað gerbreytingu í fjárhags- og atvinnumálum okkar fátæka og fámenna lands. Fjárfúlgur, áður óþekktar á okkar mælikvarða, hafa streymt í hendur þjóðarinnar, að nokkru leyti á kostnað þjóðlegra menningarverðmæta og innlendrar atvinnu, en að öðru leyti sem hreinn vinningur í happdrætti stríðsins.

Eins og kunnugt er, hefur þetta orsakað mikla verðbólgu og launahækkun, sem ríkisvaldið hefur ekki getað stöðvað vegna samkeppninnar um vörur og vinnukraft. Stéttir og einstaklingar hafa háð kapphlaup um hinn stopula stundargróða, eins og fátækir og matarlitlir menn um óvænt höpp á hvalfjöru.

Allir vita, að aldan líður hjá og höppin berast burtu, ef eigi eru strax handfest. En hættan fyrir atvinnuvegi landsins er á næstu grösum vegna hins gífurlega rekstrarkostnaðar, sem ólgan hefur valdið.

Alþ. hefur ekki tekizt að undanförnu að taka þessi mál föstum tökum, að nokkru leyti vegna ágreinings flokka, en þó einkum vegna þess, að vilja þjóðarinnar hefur skort til að fylgja harðtækni á þessu sviði, sem meðfram er sprottið af hinni miklu og vel borguðu atvinnu hjá herjunum í landinu. Þess vegna hefur verðlag og kaupgjald hækkað á víxl. Þessi mál eru vandasöm og viðkvæm vegna þess, að hagsmunir og réttindi stétta og einstaklinga rekast á. Eins hagur er annars tjón í svipinn, þó að allir hafi sameiginlegra hagsmuna að gæta vegna framtíðarinnar að koma í veg fyrir framhald á kapphlaupinu.

Hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, að flokkarnir væru búnir að hafa þessi mál með höndum í tvö ár án þess að gera neitt. Náttúrlega hafa flokkar og ríkisheild haft þau til athugunar í fjögur ár og núv. ríkisstj. í tvö ár. Hún tók að sér að stjórna landinu bak við Alþ. og lofaði sérstaklega að koma þessum málum í rétt horf. — Ráðh. var að hæla stj. fyrir að hafa haldið verðvísitölunni óbreyttri á þessum tíma, en hann komst í nokkuð mikla mótsögn við sjálfan sig, þegar hann var líka að lýsa því óhófsverði, sem hér er orðið á iðnaðarvörum, veiðarfærum o. fl., jafnframt því sem hann nefndi þann kunna sannleika, að vísitalan er nú raunverulega um 300 stig, þótt henni sé haldið niðri með fjárframlögum ríkissjóðs.

Það er kunnugt, að frá upphafi hefur verið og er enn aðeins um tvær leiðir að ræða í dýrtíðarmálunum, sem vit er í. Önnur er sú að semja friðsamlega milli aðila, milli framleiðenda og launþega og fulltrúa þeirra innan og utan þings. Hin er sú að ákveða allsherjarlögfestingu, er byggð sé á fullu réttlæti.

Hæstv. ríkisstj. hefur hvoruga þessa leið reynt. Með því frv., sem hér er til fyrstu umr., er hún á sömu villigötum sem hún hefur áður verið, með því að flytja till. um hálfgerða lögfestingu, sem hvorki er byggð á réttlæti né er líkleg til að ná tilgangi sínum.

Aðferðin í þetta sinn er næsta furðuleg. Ríkisstj. og almenningur veit, að umboðsmenn þingflokkanna hafa undanfarnar vikur verið að reyna samninga um friðsamlega lausn þessara mála. Hvort þeir takast, er enn í óvissu. En þegar þingið kom saman 2. þ. m., er lagt fyrir þingflokkana bréf frá stj. með þeim till., sem þetta frv. felur í sér, og beðið um svar fyrir 10. þ. m.

Á næsta þingfundi, þann 4. þ. m., er till. kastað inn í þingið í frv.formi og heimtaðar útvarpsumr., áður en fresturinn er liðinn. Á þeim hefur nú að vísu orðið nokkur bið. Allt þetta bendir í þá átt, að þessar útvarpsumr. séu stofnaðar til þess að etja fulltrúum þingflokkanna út í deilur til að koma í veg fyrir friðsamlega samvinnu, er yrði stj. að bana. Við þessu væri ekkert að segja, þótt aðferðin sé óvanaleg, ef það lagafrv., sem um er að ræða, væri viturlegt og aðgengilegt. Þessu er því miður ekki að heilsa, og skal ég nú færa nokkur rök að því áliti.

Samkv. 1. gr. frv. á að verðleggja landbúnaðarafurðir 10% lægra frá 15. þ. m. en lög standa til samkv. útreikningi Hagstofunnar.

Eftir sömu gr. er ríkisstj. heimilt að halda núverandi verðlagi óbreyttu með ríkisframlagi til næstu áramóta, en þá skal milligjöfinni hætt eftir frv. að dæma.

Samkv. 2. gr. skal engin dýrtíðaruppbót greidd af hærri vísitölu en 270.

Eftir 3. gr. skal greiða 95% þeirrar dýrtíðaruppbótar fyrsta mánuðinn, sem l. gilda. Annan mánuðinn og þar til öðruvísi verður ákveðið, skal greiða 90% af hinni ákveðnu dýrtíðaruppbót, sem er að hámarki miðuð við vísitöluna 270, og þar eru grunnlaun auðvitað í.

4. gr. frv. hljóðar þannig: „Fari framfærsluvísitala yfir 270 stig, skal verð landbúnaðarafurða til framleiðenda lækka í sömu hlutföllum og dýrtíðaruppbót skerðist vegna hámarksskuldbindingar vísitölu í sambandi við kaupgreiðslur; sbr. 2. gr.

Í 5. gr. segir svo, að enga dýrtíðaruppbót skuli greiða af kauphækkunum, sem verða á tímabilinu 1. sept. 1944 til 1. júlí 1945.

Hvað þýða nú þessi ákvæði? í fyrsta lagi það, að dýrtíðaruppbót er lögfest með hámarki og takmörkun, en engin bönd eru á hækkun grunnlauna eða launadeilum. Kaupkröfur og vinnustöðvanir eru heimilar eftir sem áður. Hæstv. ráðh. taldi nú, að hann gæti fallizt á að setja á þetta frekari bönd, en auðvitað hljótum við hér að ræða þetta frv. eins og það liggur fyrir.

Lögbindingin gildir að fullu fyrir fastlaunaða menn, en ekki aðra og verður að því leyti ósanngjörn í framkvæmdinni. Ef vísitalan væri t. d. 300, fengju þeir greiðslu miðað við 243 stig annan mánuðinn, sem lögin giltu. En þetta miðar ekki að því að sætta eða setja niður þau verkföll, sem nú eru, heldur er miklu hættara við hatrömmum launadeilum eftir en áður, og gefur ræða síðasta ræðumanns (EOl) nokkra hugmynd um það efni. Grunnkaupshækkanir mundu því koma í stað dýrtíðaruppbótanna.

Á afurðasölu og tekjum okkar bændanna er tekið heldur öðrum tökum. Þar er dyrunum lokað að fullu. Fyrsta bandið er það að verðleggja vöruna frá 15. þ. m. 10% lægra en lög standa til. Þetta er vara, sem búið er að framleiða með þeim hækkaða tilkostnaði, sem þekktur er og reiknað hefur verið með. Að lækkunin verði borguð með lækkuðum tilkostnaði vegna þessa frv., er ekki einungis óvíst, heldur ólíklegt. Kaupgjald getur staðið í stað, meiri líkur þó, að það hækki, ef frv. þetta yrði samþ. Þetta ákvæði er þó mest í samræmi við frv. að öðru leyti, og við bændur vitum fyrir fram, hvað það gildir. Það er 77,6 aura á hvert kjötkg., 13,4 aura á mjólkurlítra og 11,60 kr. á kartöflutunnuna. — En það er heldur meira blóð í kúnni. Eins og stendur, eru landbúnaðarafurðir lækkaðar í verði til neytenda um 20,7 vísitölustig, eftir því sem Hagstofan gefur upp, — kjöt sem svarar 9,1 stigi, mjólk 5,7 stigum og kartöflur sem svarar 5,9 stigum. — Þessu á að hætta á næsta nýári, en vörurnar mega ekki hækka til neytenda; sem þýðir tilsvarandi lækkun til framleiðenda. Þetta er af því, að þá mundi vísitalan hækka um 20,7 stig, sem allt yrði fyrir ofan 270, og samkv. hinni makalausu 4. gr. frv. á öll skerðing á launum, vegna þess að vísitalan fer yfir 270, að borgast launþegum með tilsvarandi lækkun á landbúnaðarvörum. Að öll hækkunin yrði fyrir ofan 270, ef útsöluverðið yrði hækkað sem svarar ríkisframlaginu, þegar því er hætt á nýári, er augljóst mál. Vísitalan er nú 266 stig, og sú hækkun, sem orðin er á kartöflum að fráteknu ríkisframlaginu, gildir 5½ vísitölustig. Að nokkrar vörur hafi lækkað síðasta mánuðinn, er ekki vitað, og þá er vísitalan komin upp í 271–2 stig og verður það frá 1. þ. m. Væri ríkisframlaginu hætt nú þegar og landbúnaðarvörurnar verðlagðar lögum samkv., þá væri vísitalan nú full 300 stig. Ef frv. ríkisstj. væri lögfest, þá ættu landbúnaðarafurðir að lækka til framleiðenda á næsta nýári frá lögboðnu verði sem svarar 20,7 vísitölustigum fyrir utan þau 10%, sem rætt er um í 1. gr. frv. Það gildir um 28% á kjöti og 12% á mjólk miðað við útsöluverð. En það er ekki þar með búið. Ef vísitalan ætti að hækka af öðrum ástæðum, t. d. hækkuðu verði aðfluttrar vöru, þá yrði sú hækkun þrátt fyrir þessi 1. ofan við 270, og þá ættu launþegarnir að fá hana greidda með tilsvarandi lækkun á landbúnaðarafurðum samkv. 4. gr. frv. Eins og áður er sagt, eru litlar eða engar líkur til, að nokkur ákvæði þessa frv. hefðu í för með sér lækkaðan tilkostnað við landbúnað, svo að allt er þetta á eina leið: óréttlátt og mótsagnakennt.

Það hefur nú oft verið rætt um það, að okkur bændum væri ekki alltaf gert hátt undir höfði, en ég minnist þess ekki nýlega, að stétt okkar hafi verið réttur slíkur löðrungur, sem hæstv. ríkisstj. gerir með þessu frv. Ég verð að segja það, að hann er ekki lítið vinsamlegur landbrh., sem er meðflm. að svona till. Ég held nú samt, að þetta sé ekki sprottið af illvilja í garð bændastéttarinnar, heldur hinu, að í þessari hæstv. ríkisstj. er enginn maður, sem hefur þekkingu eða skilning á landbúnaði og högum bændastéttarinnar.

Þegar ríkisstj. flutti sitt fræga dýrtíðarfrv. á vetrarþinginu 1943, þá var eitt aðalatriði þess að þrengja kosti bænda með ósanngjarnri verðfestingu á afurðaverði. Þessu frv. fylgdi enginn þm. hér í þessari d. Það fór í ruslakörfuna, eins og hæfilegt var. En þá varð um það samkomulag fyrir forgöngu okkar í fjhn. að rannsaka, hvert væri hið rétta hlutfall milli kaupgjalds og verðlags landbúnaðarafurða. Skyldi niðurstaðan gilda sem lög til stríðsloka, ef samkomulag næðist milli fulltrúa bænda og launastétta. Þetta tókst, eins og kunnugt er, og mátti ætla, að þá væri fenginn réttur og eðlilegur grundvöllur til niðurfærslu á báða bóga. Deilunum átti að vera lokið. Báðir aðilar höfðu samþykkt útkomuna. En hæstv. ríkisstj. getur ekki unað þvílíku, jafnvel þótt ekki standi á bændum um niðurfærslu dýrtíðarinnar á réttlátan hátt.

Það var auðheyrður tónninn í hæstv. fjmrh. hér áðan. Hann sagði meðal annars, að öll dýrtíðarhækkunin 1942 hefði stafað af hækkuðu verði landbúnaðarafurða. Þó vita allir, sem vilja vita, að áður en þær vörur voru hækkaðar, hafði kaupgjald og öll laun hækkað stórkostlega vegna æsinganna út af gerðardómsmálinu.

Þá var ráðh. að harma það, hve sex manna n. samkomulagið hafði styrkt mikið aðstöðu bænda og valdið ríkisstj. miklum örðugleikum í dýrtíðarmálunum. Náttúrlega er það verra að níðast sérstaklega á bændum þessa vegna, af því að það kostar lögbrot. Það harmar ráðh. mjög.

Fulltrúar bænda á búnaðarþingi hafa lýst þeim vilja að lækka afurðaverð í réttu hlutfalli, ef kaupgjald og annar tilkostnaður fengist lækkað.

Ég hef ekki hitt einn einasta bónda, sem telur það ekki sjálfsagt mál. Margir þeirra mundu meira að segja vilja fórna án endurgjalds í lækkun einhverju af lögbundnu verðlagi, ef það gæti skapað fullan frið í þjóðfélaginu og tryggt atvinnuvegina framvegis. En að lækka afurðaverðið jafnstórkostlega og hér er lagt til, án þess að nokkrar líkur séu þess vegna fyrir lækkuðum tilkostnaði, er fjarlægt allri sanngirni. Þegar till. eru að öðru leyti þannig, að þær mundu verka sem olía í eld launabaráttunnar og valda því, að flóðalda stéttastríðsins mundi enn meira en áður streyma yfir alla bakka, þá þarf enginn að ætla, að hér séu till. til bóta. Slíkt og þvílíkt er ekki til að fjarlægja þá hættu, sem nú steðjar að atvinnulífi okkar. Ef fara skyldi út í lögfestingu til stöðvunar dýrtíðinni, þá verður sú lögfesting að byggjast á samræmi og réttlæti. Hún verður að vera heil, en ekki hálf. Með henni verður að leggja bann við atvinnustöðvun á öllum sviðum, og með henni verður að banna verðhækkun og grunnlaunahækkun o. s. frv. og láta gerðardóm skera úr ágreiningi.

Það getur orðið, að stéttabaráttan og atvinnustöðvanirnar verði til þess að neyða Sjálfstfl. til að fylgja þvílíkri harðleikni og afdráttarlausum höftum. En hann mun aldrei gera slíkt nema sem neyðarúrræði. Flokkurinn hefur, eins og kunnugt er, verið með í tilraun, er gekk í þessa átt. Sú tilraun reyndist óframkvæmanleg þá, og ég býst við, að flokkur okkar leggi ekki út á þá braut aftur, fyrr en hann er sannfærður um, að öll sund séu lokuð til friðsamlegra samninga og sanngjarnra ráðstafana til að halda fjárhag okkar og atvinnulífi í sæmilegu horfi. Við höfum ekki lagt fram ákveðnar till. og ekki sett hnefann í borðið, af því að umboðsmenn okkar hafa talið það líklegra til friðsamlegs árangurs að leita samninga í kyrrþey um sæmilegar úrlausnir. Við vitum, að við erum sem stendur í minni hluta, ef andstæðingar okkar sameinast, og gerum allt, sem í okkar valdi stendur, til að bjarga því, sem bjargað verður, án þess að kasta okkur út í fjármálalega og atvinnulega borgarastyrjöld, sem ekki er hægt að vita, hvar endar.

Vilji okkar og viðleitni miðar að því að sefa, en ekki æsa baráttuna milli stétta og einstaklinga. Friður í landi og frjálsræði í atvinnurekstri er takmark okkar. Horfurnar eru ískyggilegar sem stendur, vegna þess hve langt er gengið í verkföllum og launáhækkunarkröfum. Ef slíku heldur áfram, er ekki gott um friðsamlega starfsemi, en víst er það ekki nema betur rætist úr en útlit er á. Það er og víst, að þetta frv. óbreytt bætir ekki neitt úr.

Þá skal ég víkja nokkuð að öðrum kafla þessa frv. hæstv. ríkisstj. Hann er um eignaraukaskatt og á víst að skoðast sem eins konar skrautblóm í hinu mislita túni. Þetta er ekki nýtt af nálinni, því að hæstv. stj. var í fyrra að basla við lögfestingu á svipuðum till. og hafði til þess fylgi nokkurra þm., sem láta sér vel líka, að atvinnurekendur landsins séu hart leiknir. Þetta náði þó ekki fram vegna harðrar andstöðu okkar sjálfstæðismanna, og frá okkar sjónarmiði hefur svipurinn ekkert fríkkað á þessu stjórnarbarni, þó að það rísi nú upp úr gröfinni. Eignarskattur hefur fram að þessu verið tiltölulega lágur í landinu og á að vera það. Tekjuskattur aftur á móti hefur verið og er gífurhár, og er það sanni nær, því að svo miklu leyti sem taka þarf fé til opinberra nota með beinum sköttum, þá er eðlilegt að miða við tekjur þær, sem skattþegnarnir hafa.

Það kann að mega til sanns vegar færa, að þessi skattur sé ekki hættulegur, ef það væri tryggt, að ekki yrði haldið áfram á sömu braut, og hins vegar mætti færa rök að því, að með þessu mætti tryggja atvinnuvegina framvegis. Hvorugt þetta er fyrir hendi. Það er ýmislegt, sem veldur því, að þessi skattur mundi verða verulega ranglátur. Til þess að fá viðunandi grundvöll fyrir slíkum skatti þyrfti nákvæma rannsókn, sem framkvæmd væri alls staðar um landið og alveg hlutdrægnislaust. Það er mikið verk og vandasamt, sem taka mundi langan tíma. Margt af því, sem kallað er eignaraukning, er það ekki, og fleira kemur til greina. Við bændur álítum það enga eignaraukningu, þótt ærnar okkar, kýrnar og hrossin séu virt þreföldu eða fjórföldu verði frá því, sem var fyrir stríð. Það er heldur engin eignaraukning, þó að vörubirgðir verzlana, útgerðartæki og óseld framleiðsla sjávarútvegsmanna o. s. frv. sé reiknað með margföldu verði, og nýjar byggingar, sem nú hafa kostað 5 eða 6 sinnum meira en tilsvarandi hús fyrir stríð, eru líka vafasöm eignaraukning. Þess ber og að gæta, að eignaraukning í peningum er líka hæpin, þegar kaupmáttur krónunnar í innanlandsviðskiptum er ekki nema 10–20 % af því, sem var fyrir stríð. Á það má einnig minna gagnvart útgerðarfélögunum, að með skattal. 1940 var lögfestur réttur þeim til handa að fá bættan þann rekstrarhalla, sem þau biðu árin fyrir stríðið. Með þessu frv. er lagt til að svíkja þá löggjöf og leggja skatt á þetta fé sem eignaraukningu, fjórum árum eftir að þessi lög tóku gildi.

Allt eru þetta vafalaust lítilsverðir smámunir í augum hæstv. ráðh., en þeir menn, sem hafa vilja til að byggja starf sitt á nokkurri sanngirni, telja allt þetta þess virði að taka það til greina.

Um trygginguna, sem þessi skattur veitti atvinnuvegunum í framtíðinni, er það að segja, að hún virðist heldur vafasöm, enda er aðferðin nokkuð undarleg. Okkur bændum mundi finnast skrítin aðferð að fá fyrirskipun um að skera 10–20 % af ánum okkar eða kúnum og fá verðið í hendur Tryggingastofnun ríkisins til að tryggja framleiðslu okkar síðar. Svipað má segja um það að fyrirskipa útgerðarfélögunum að taka háar upphæðir af því, sem telst varasjóður eða önnur eign, en er fest í framleiðslutækjum, og verja því á þennan hátt.

Með síðari málsgr. 10. gr. viðurkennir líka ríkisstj. veiluna í öllu þessu, þar sem hún ráðgerir allt að þriggja ára gjaldfrest á þessum skatti og jafnvel brottfall, ef eignaraukningin verður þá týnd, sem er ekki mjög ólíkleg tilgáta. Allt þetta gerir það að verkum, að þessi annar kafli virðist heldur lítil uppbót á fyrri hluta frv. Hér er um að ræða meingallað fordæmi, og framkvæmdin á till. er sjáanlega lítið hugsuð.

Að öllu því athuguðu, sem ég hef nú tekið fram verð ég að segja, að ég held, að það þurfi verulega hugkvæmni til að semja frv., sem í væri öllu minna vit eða sanngirni en þessu, sem hér liggur fyrir. Ég hef ekki verið og er ekki sérstaklega bjartsýnn á velvilja eða vitsmuni sumra þingbræðra minna, en ég get varla hugsað mér, að nokkur þeirra vildi gerast til þess að samþ. þetta frv. óbreytt. Hvort samkomulag getur orðið um eitthvað annað til lausnar þeim vanda, sem fyrir liggur, er ekki enn víst. Það er sú þraut, sem stjórnmálaflokkarnir hafa verið að glíma við undanfarið — og eru enn að, og ekki enn séð, hversu þær tilraunir enda.

Hæstv. ráðh. endaði með því að segja, að ríkisstj. mundi ekki standa svo fast á till. sínum, að hún væri ekki fús til að samþ. eða fallast á verulegar breyt. á frv. Þetta er út af fyrir sig gott, en mér virðist, að öllu eðlilegra hefði þá verið að gera þær athuganir hér á Alþ. áður, hvaða breyt. hefði verið mögulegt að fá samkomulag um, þar sem um svo vandasamt mál og flókið er að ræða, heldur en biðja um útvarpsumr. frammi fyrir alþjóð, áður en nokkuð er reynt í þessa átt. Ég held, að þessi aðferð hæstv. ríkisstj. bæti ekki að neinu leyti afstöðuna til úrlausnar þessa máls, sem kallar nú svo mjög að og nauðsynlegt er, að samvinna takist um.

Ég má ekki vera að því að svara ýmsum aths. í ræðu síðasta ræðumanns (EOl), þó að margt mætti um þær segja, m. a. að þær 500 millj. kr., sem landið á í útlöndum, eru ekki eign ríkissjóðs, heldur einstakra manna og sparifé þjóðarinnar, sem ekki er hægt að reikna með að taka til þessa eða hins. Skal ég svo ekki fara lengra út í þá ræðu.