11.09.1944
Neðri deild: 47. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (2958)

89. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar o.fl.

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Tími minn er stuttur, en ég skal víkja nokkrum orðum að því, sem hér hefur farið fram.

Talsmaður Sósfl., hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, talaði af miklum fjálgleik um „einingu og samstarf“ og um „samstillingu kraftanna“. Þeim, sem hafa fylgzt með samningsumleitunum flokkanna og þeim þætti, sem Sósfl. hefur átt í þeim samningum, hlýtur að ofbjóða hræsnin, hræsnin hjá þeim mönnum, sem nú kynda undir vinnudeilum, skæruhernaði og úlfúð í þjóðfélaginu. — Hann talaði um allsherjarsamninga. Það væri mjög æskilegt, ef slíkt gæti tekizt á heilbrigðum grundvelli. En margir munu gera ráð fyrir, að þeir samningar takist því aðeins, að flokkur hans ráði öllum skilmálum.

Formælandi Sjálfstfl. hv. þm. A-Húnv., Jón Pálmason, sagði, að frv. væri hnefahögg framan í bændur, vegna þess að það mundi lækka verð á afurðum þeirra. — Ég veit, að þessi hv. þm. hefur ekki sérlega ljósan skilning á vandamálum dýrtíðarinnar, en ég vildi benda honum á, að svo er ekki um bændur landsins yfirleitt. Þeim er víst flestum ljóst, að afkoma þeirra er undir því komin — eins og allra annarra manna í landinu — að heilbrigt verðlagsástand geti skapazt.

Sami þm., sem talaði fyrir munn flokks síns, þvoði hendur sínar og flokksins af eignaraukaskattinum og fann honum að sjálfsögðu allt til foráttu. Ég vil benda á, að á þingi 1942 gaf flokkur hans út opinbera yfirlýsingu um, að hann væri fylgjandi eignaraukaskattinum. Hv. þm. hefur auðsjáanlega verið búinn að gleyma þessu, og skal honum ekki láð það.

Á því er jafnan hamrað af sumum, að stj. hafi ekki viljað neina samvinnu við þingið. Slíkt eru staðlausir stafir. Það hefur aldrei staðið á stj. að vinna með þinginu í hverju máli, sem horft hefur til heilla. En flokkarnir hafa haft önnur sjónarmið, þeir hafa haft sín flokkssjónarmið, og á því hefur strandað allt samstarf milli flokkanna og stj. Þrátt fyrir fögur orð hafa sumir flokkarnir frá byrjun leitazt við að torvelda allt starf ríkisstj. og verið meir um það hugað að leita að snöggum blettum á aðgerðum stj. en sinna þörfum alþjóðar. — Því hefur verið haldið fram, að ríkisstj. hefði átt að fara samningaleiðina og fá launþega og framleiðendur til þess að hefja einhverjar aðgerðir af frjálsum vilja. Þetta hefur verið reynt. Það var gert skömmu eftir að sex manna n. lauk störfum og ljóst varð, að samkomulag hennar mundi auka dýrtíðina og gera baráttuna að mörgu leyti erfiðari. Síðan var önnur sex manna n. skipuð, en árangur varð enginn. Hún skilaði lélegu nál. Fulltrúar verkamanna neituðu að sýna nokkurt brot af þeim þegnskap og hyggindum, sem verkamennirnir sænsku sýndu í byrjun stríðsins og sýna enn til að forða atvinnulífi lands síns frá hruni.

Það fór svo sem við mátti búast, að allir flokkar þingsins hafa lagzt á móti till. stj. án þess að benda á aðrar leiðir til að leysa vandamálin og halda verðlaginu í skefjum. Enginn þeirra hefur sett fram raunhæfar till. um, hvað gera skuli. Þeir hafa allir valið sér það óglæsilega hlutskipti að þvo hendur sínar frammi fyrir alþjóð, afsala sér allri ábyrgð og sýna algera uppgjöf í málinu. Þingflokkunum er þetta sjálfum ljóst. Hverjum þm. er þetta ljóst. Öllum landslýð er þetta ljóst. En þrátt fyir það standa flokkarnir hver um sig aðgerðalausir og tvístíga af ótta við það, að hagsmunir þeirra muni bíða tjón við það, sem þeir þyrftu að taka á sig til að bjarga hagsmunum þjóðarinnar. Á þeim áttavita, sem farið er eftir, eru aðallega tvær áttir, og þær heita: þingsæti og kjósendafylgi.

Einhverjir munu nú e. t. v. standa upp og svara því til, að þingflokkarnir séu spegilmynd af þjóðinni og þess vegna í samræmi við hennar vilja, kjörnir með frjálsum kosningum. Ef til vill er þetta svo. En mundi þá kjósandi í þessu landi mega spyrja: Er það samkv. vilja þjóðarinnar, að löggjafarsamkunda hennar leggur árar í bát eins og sigraðir menn, þegar afkomu landsmanna er ógnað af óstöðvandi dýrtíð og verðbólgu? Er það samkv. ósk þjóðarinnar, að flokkarnir láti stjórnast af hagsmunastreitu, sem allt samstarf strandar á og stofnað getur sjálfstjórn landsmanna í hættu þrátt fyrir nýfengið fullveldi?

Það hlýtur mörgum að verða torskilið í bæjum og byggðum landsins, að 52 af úrvalsmönnum þjóðarinnar, sem hún hefur af frjálsum vilja og í fullu trausti kosið til að stjórna málum sínum, skuli taka svo fáránlega afstöðu til eins mesta máls líðandi stundar að rífa niður þær till., sem fram eru bornar til bóta, en koma ekki með neitt í staðinn, ekki neitt, — ekki hið allra minnsta, — ekki nema neikvæða, margendurtekna mælsku, sem landslýðurinn kann nú orðið utanbókar og kann vafalaust að meta að verðleikum. — Mun ég svo ekki ræða þetta mál frekar.